Hvað á ég að gera?

Kynferðisbrot líðast ekki innan UMFÍ. Allar tilkynningar um kynferðisbrot skal taka alvarlega og er óheimilt að afgreiða ætluð kynferðisbrot innan sambandsaðila og aðildarfélaga.

Ýmsar leiðir eru til að fyrirbyggja brot og vinna að úrlausn þeirra sem upp koma.

UMFÍ hefur gefið út siðareglur sem veita leiðbeiningu um breytni og siðferðislega ábyrgð þeirra sem þær taka til. Þær byggja á þeim gildum sem UMFÍ vill að séu ráðandi í öllu starfi hreyfingarinnar: Virðing - jafnrétti – lýðræði – ábyrgð.

UMFÍ er jafnframt aðili að Æskulýðsvettvanginum (ÆV) ásamt Bandalagi íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi og Slysavarnafélaginu Landsbjörg. ÆV hefur gefið út viðbragðsáætlun fyrir félagasamtökin. Í viðbragðsáætluninni eru verkferlar sem nýta má þegar atvik eða áföll verða. Dæmi um atvik sem viðbragðsáætlunin nær til eru agabrot, ávana- og vímuefnanotkun, einelti, kynferðisbrot, alvarleg veikindi, áföll, slys og andlát.

ÆV hefur frá árinu 2010 staðið fyrir námskeiðinu Verndum þau. Námskeiðið er byggt á efni bókarinnar Verndum þau og fjallar um hvernig bregðast á við grun um ofbeldi og vanrækslu gegn börnum og unglingum. Námskeiðið er ætlað öllum þeim sem starfa með börnum og ungmennum og öðrum sem áhuga hafa. Æskulýðsvettvangurinn gerir kröfu um að allir starfsmenn og sjálfboðaliðar innan aðildarfélaga ÆV sæki námskeiðið og geta félögin fengið námskeiðið sér að kostnaðarlausu.

Sambandsaðilar geta auk þess haft samband við þjónustumiðstöð UMFÍ sé frekari upplýsinga óskað.

Félög innan UMFÍ geta jafnframt veitt heimild til upplýsingaöflunar um þjálfara og starfsfólk viðkomandi aðildarfélaga úr sakaskrá ríkisins.

 

Hér að neðan eru upplýsingar um helstu leiðir UMFÍ komi upp brot í félagi eða brotið á félagsmanni.

 

Viðbragðsáætlun Æskulýðsvettvangsins

Siðareglur UMFÍ

Heimild til upplýsingaöflunar úr sakaskrá ríkisins

Námskeiðið Verndum þau