02. október 2019

Forvarnardagurinn: „Þið eigið að geta sagt: nei ég drekk ekki.“

„Það er gott fyrir hvert bæjarfélag að hlúa vel að íþrótta- og tómstundastarfi. Við styrkjumst öll af því að eiga vini og gott félagsstarf,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Hann heimsótti Menntaskóla Borgarfjarðar og Varmárskóla í tilefni af Forvarnardeginum í dag.

Guðna var fagnað vel við komuna í skólana og ræddi hann þar við nemendur í 9. og 10. bekk um lífið og tilveruna með áherslu á forvarnir. Með í för voru jafnframt góðir gestir frá Mexíkó sem komnir voru hingað til lands til að kynna sér forvarnarstarfið á Íslandi.

Guðni sagði félagslegan þrýsting aukast í framhaldsskóla enda hafi niðurstöður rannsókna sýnt að áfengisdrykkja geti verið vendipunkturinn einmitt þar. Því skipti máli að standa sterkur á sínu. Vilji viðkomandi ekki drekka áfengi þá eigi hann að þora að segja það. Á árum áður hafi verið litið á þann sem ekki drakk sem hallærislegan. Félagslegur þrýstingur og viðhorfið sé sem betur fer á undanhaldi:

„Það sem er að breytast til batnaðar á Íslandi er að svona félagslegur þrýstingur er á undanhaldi. Þið eigið að geta sagt: nei ég drekk ekki. Þá er það ekki ávísun á lúðaheit heldur að þú viljir vera manneskja sem ráðir þínu lífi og takir ákvarðanir á eigin lífi á eigin forsendum. Ef félagslegur þrýstingur myndast til að drekka en vilja það ekki þá þarf að hafa vilja, kjark og þor til að segja að þetta sé ekki fyrir mig. Og það er flott,“ sagði hann.

Guðni nefndi jafnframt að skipulagt tómstundastarf utan skóla minnki líkurnar á því að ungt fólk fari á einhverja braut sem það vill ekki fara. Því eigi bæjarfélög að styðja við það.

„Maður þarf einfaldlega að hafa eitthvað fyrir stafni utan skólatíma,“ sagði hann og rifjaði upp að hann hafi sjálfur hætt og snemma í handbolta, 14-15 ára. „Ef ég hefði haldið áfram þá hefði ég örugglega orðið atvinnumaður. Nei, annars. Ég hefði ekki orðið það.“

Nemendur í Varmárskóla spurðu Guðna með hvaða liði hann haldi. Guðni svaraði því til að hann sé uppalinn í Garðabæ og því haldi hann með Stjörnunni, bæði karla- og kvennaliðum. Hann beri reyndar alltaf hlýhug til Aftureldingar og líka Ungmennafélags Álftaness. Þar sé sem dæmi komið fram frambærilegt stúlknalið í innanhússfótbolta.

Spurður um uppáhaldsliðið í enska boltanum sagði hann það vera Manchester United.

„En eins mikið og ég dái mitt lið, þá öfunda ég Púllara af Klopp. Hann er frábær þjálfari og við þurfum að ná honum einhvern vegin yfir. En það er ekki að fara að gerast.“

 

Forvarnardagurinn er sérstakt átak undir faglegri forystu landlæknis sem haldið er árlega í samstarfi við forseta Íslands, ÍSÍ, Reykjavíkurborg, Samtök sveitarfélaga, Félag framhaldsskóla, Skátana, UMFÍ og Rannsóknir og greiningu. 

Myndir frá Forvarnardeginum í Varmárskóla