11. júlí 2019

GDRN, Úlfur Úlfur og Una Stef á Unglingalandsmóti UMFÍ

Nú færist aldeilis fjör í leikana á Unglingalandsmóti UMFÍ á Höfn í Hornafirði um verslunarmannahelgina. Alla mótsdagana verða kvöldvökur í risastóra tjaldi UMFÍ við sundlaugina í bænum. Þar mun tónlistarfólk stíga á stokk og halda uppi heljarinnar fjöri frá klukkan níu á hverju kvöldi.

Fyrsta kvöldvakan verður fimmtudagskvöldið 1. ágúst. Það kvöld kemur fram tónlistarkonan DJ Sura. Hún hefur spilað með Reykjavíkurdætrum, Cyber og fleiri góðum.

Föstudagskvöldið stíga á stokk Úlfur Úlfur og Salka Sól. Þau eru góðkunningjar Unglingalandsmóta UMFÍ enda oft komið fram á kvöldvökum mótanna.

Laugardagskvöldið 2. ágúst koma fram Júróvisjónstjarnan Daði Freyr og tónlistarkonan Bríet sem hefur risið hratt upp á stjörnuhiminn.

Unglingalandsmóti UMFÍ loka svo trompin, Una Stef & the SP74 og sjálf GDRN.

Þetta verður eitthvað.

Eruð þið búin að skrá ykkur á Unglingalandsmót UMFÍ?

 

Íþróttir og tónlist alla helgina

Skráning er í fullum gangi á Unglingalandsmót UMFÍ á Höfn í Hornafirði um verslunarmannahelgina. 

Mótið er fyrir börn og ungmenni á aldrinum 11 - 18 ára sem vilja reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum. Samhliða því er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla fjölskylduna og alla aldurshópa.

Þátttakendur á Unglingalandsmóti UMFÍ þurfa hvorki að vera skráðir í ungmenna- né íþróttafélag. Ef viðkomandi vill taka þátt í hópíþrótt, knattspyrnu, körfubolta eða annarri grein en er ekki í liði þá er hann eða hún sett í lið með jafnöldum sínum víða að frá landinu. Með þessu móti er mótið vettvangur nýrra kynna og gleði þar sem allir hafa kost á að njóta þess að taka þátt í íþróttum og hreyfingu.

Á mótinu er boðið upp á keppni í 20 greinum. Þær eru biathlon, sem margir þekkja sem hlaupaskotfimi, bogfimi, fimleikalíf og fimleikar, frisbígolf, frjálsar íþróttir, glíma, golf, götuhjólreiðar, knattspyrna, kökuskreytingar, körfubolti, motocross, pílukast, skák, stafsetning, strandblak, strandhandbolti, sund og upplestur. 

 

 

Alla dagskránna er hægt að sjá á vefsíðunni www.ulm.is

Keppnisgreinar má sjá hér

Hér skráir þú á Unglingalandsmót UMFÍ