29. júní 2019

Íþróttahetja dæmir í kúluvarpi

Íþróttahetjan Hreinn Halldórsson er einn af dómurunum á Landsmóti UMFÍ 50+ sem fram fer í Neskaupstað um helgina. Á föstudag dæmdi hann í kúluvarpi en fleiri kastgreinum á laugardag.

Hreinn er með þekktustu íþróttamönnum Íslands. Hann hlaut nafnbótina Íþróttamaður ársins þrisvar, fyrst árið 1976 þegar hann bætti Íslandsmetið í kúluvarpi og keppti á Ólympíuleikunum í Montreal. 

Hreinn varð fyrstur Íslendinga til þess að vinna til verðlauna á Evrópumótinu í frjálsum íþróttum innahúss en það gerði hann árið 1977 í San Sebastian á Spáni  með því að kasta kúlunni 20,59 metra. Hreinn varð um leið fyrsti Íslendingurinn til að verða Evrópumeistari í frjálsíþróttum í 27 ár. Sama ár bætti Hreinn Íslandsmetið í kúluvarpi þegar hann kastaði 21,09 metra á móti í Stokkhólmi, met sem stóð í þréttán ár. Það ár var hann einnig valinn Íþróttamaður ársins og svo í þriðja skiptið árið 1979. Það ár átti hann sjötta besta afrek í heiminum þegar hann varpaði kúlunni 20,69 metra. Á Ólympíuleikunum í Moskvu árið 1980 hafnaði Hreinn í 10. sæti. Hreinn lagði kúluna á hilluna árið 1982. 

Hreinn Halldórsson var útnefndur í Heiðurshöll ÍSÍ á Íþróttamanni ársins þann 29. desember árið 2018.

 

Frjálsar íþróttir eru með vinsælustu greinunum á mótinu og keppendur margir af þeim um 300 sem taka þátt í mótinu í Neskaupstað. Hér má sjá nokkrar myndir úr frjálsum íþróttum í gær, föstudag. Þar á meðal nokkrar myndir úr kúluvarpi.