15. júlí 2019

Lárus mælir með því að fólk gangi og hjóli á Unglingalandsmótinu

„Það er mjög góð hugmynd að ganga og hjóla á milli íþróttasvæðis og tjaldsvæðis á Höfn. En svo er líka hægt að hlaupa út um allt og hjóla um nágrenni Hafnar“ segir Lárus Páll Pálsson, greinastjóri á Unglingalandsmóti UMFÍ sem fram fer á Höfn í Hornafirði um næstu  verslunarmannahelgi.  

Unglingalandsmótið verður haldið 1.- 4. ágúst og er þetta 22. mótið fyrir 11-18 ára sem UMFÍ heldur frá árinu 1992. Víkurbraut við íþróttasvæðið verður lokað fyrir bílaumferð og hægt á umferð að tjaldsvæði sem útbúið hefur verið sérstaklega fyrir þá þúsundir gesta sem sækja Unglingalandsmótið. 

Tjaldsvæðið skammt frá mótssvæðinu. Það er innifalið í mótsgjaldinu sem er 7.500 krónur fyrir hvern þátttakanda. 

Lárus mælir með göngu og hjólaferð á milli svæðanna og víðar líka fyrir þá sem vilja skoða Höfn og nágrenni Hafnar í Hornafirði. Hlauparar geta líka farið sömu leið.

„Það er margt fallegt að skoða á Höfn. Óslandið er mjög skemmtileg leið frá suðurodda Hafnar. Þetta er mikið fuglasvæði. Þaðan má fara fram hjá Sandbakkanum en þaðan sjást nokkrir jöklar. Það er frábært að enda í sundlauginni," segir Lárus.

„En svo er hægt að fara langt á hjóli, jafnvel skoða víkingaþorpið við Stokksnes,“ bætir hann við og á þar við víkingaþorp sem reist var við fjallsræturnar á Stokksnesi sunnan Vestrahorns þar sem landnámsmaðurinn Hrollaugur Rögnvaldsson settist að.

Ekki er um gamalt víkingaþorp að ræða heldur leikmynd sem leikstjórinn Baltasar Kormákur kom upp árið 2009 og hefur fengið að veðrast. Um 16,5 kílómetrar eru að Stokksnesi og til baka.

Hér má sjá kort af göngu- og hlaupaleiðum á Höfn í Hornafirði. 

 

Hér má sjá víkingaþorpið á Stokksnesi en það fellur inn í landslagið. Undir myndinni er kort af göngu- og hlaupaleiðum við Höfn í Hornafirði.