03. ágúst 2019

Líklega best að vera forseti á Íslandi

„Ég held að það sé hvergi betra að vera þjóðhöfðingi en á Íslandi,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Hann flutti í gærkvöldi ávarp við setningu Unglingalandsmóts UMFÍ sem fram fer á Höfn í Hornafirði um verslunarmannahelgina.

Guðni rifjaði upp að í gær voru rétt þrjú ár liðin frá því hann var settur í embætti. Ekki liði sá dagur sem hann hugsaði til þess hversu mikill heiður honum hafi hlotnast.

„Og hvern dag finn ég líka hversu mikil ábyrgðin er sem hvílir á herðum manns. Ég þakka ykkur öllum, sem hafa sýnt mér og minni fjölskyldu velvild og hlýhug. Ég þakka öllu fólkinu í landinu,“ sagði hann og sagði líklega hvergi betra að vera þjóðhöfðingi en hér á landi. Guðni tók þó fram að hann hafi ekki gert vísindalegan samanburð á milli landa.  

Guðni nefndi jafnframt hinn síunga ungmennafélagsanda og mælti með því að fólk rækti hann.

„Ég vona að þið haldið ykkar ungmennafélagsanda, ræktið hann og nýtið til góðra verka. Þegar ég segi að ykkar sé framtíðin, þá langar mig að bæta því við að okkar er framtíðin líka – okkar sem eldri erum. Mér finnst stundum eins og við séum að búa til að óþörfu kynslóðabil í okkar annars ágæta samfélagi. Þetta er unglingalandsmót. En við hin eldri erum líka hér til þess að skemmta okkur,“ sagði Guðni.

 

Nokkrar myndir frá setningu Unglingalandsmóts UMFÍ