10. júlí 2019

Margir vilja vinna sem sjálfboðaliðar á Unglingalandsmóti UMFÍ

„Við erum komin með fjölda sjálfboðaliða. En margar hendur vinna létt verk og því er gott að hafa fleiri sjálfboðaliða til að vinna við Unglingalandsmót UMFÍ en færri. Við fögnum öllum þeim sem vilja koma og vinna með okkur á mótinu,“ segir Kristín Ármannsdóttir. Hún heldur utan um skráningu og skipulag allra sjálfboðaliða á Unglingalandsmóti UMFÍ á Höfn í Hornafirði um verslunarmannahelgina.

Kristín segir um og yfir hundrað sjálfboðaliða koma að vinnu við Unglingalandsmótið, því von er á vel á annað þúsund þátttakendum á aldrinum 11-18 ára á Höfn, foreldrum, systkinum og jafnvel fleirum úr fjölskyldunni. Nokkuð þúsund manns verði í bænum þegar Unglingalandsmótið verður á Höfn um verslunarmannahelgina. Meirihluti sjálfboðaliða mun vinna á keppnissvæðum við allar þær um 20 greinar og afþreyingu sem boðið verður upp á fyrir alla fjölskylduna.

„Ég er sjálf í björgunarsveitinni, í Björgunarfélagi Hornafjarðar, og við sjáum um alla gæslu, verðum á tjaldsvæðinu og gætum að öllu því sem þarf,“ segir Kristín.

Kristín biðlar til fólks að taka að sér starf sjálfboðaliða á Unglingalandsmóti UMFÍ á Höfn í Hornafirði um verlsunarmannahelgina. Hægt er að hafa samband við hana í síma 895-4569 eða senda henni skeyti á netfangið kristin@usu.is, óska eftir því að taka að sér sjálfboðaliðastarf á mótinu og verður viðkomandi þá úthlutað starfi.

 

Hvað þýðir það að vera sjálfboðaliði?

Erla Gunnlaugsdóttir hefur verið sjálfboðaliði á mörgum viðburðum UMFÍ frá 10-12 ára aldri. Hún var sjálfboðaliði á Unglingalandsmóti UMFÍ á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina 2017.

Hún segir: „Það er gaman að vita að með sjálfboðaliðastarfi mínu hef ég auku ánægju fólks, bæði hjá mér og öðrum. Það er rosalega skemmtilegt að kynnast frábæru fólki í kringum sjálfboðaliðastörfin. Einnig er gaman að sjá gleðina og ánægjuna á mótum og hátíðum hjá keppendum og áhorfendum. Ég er mest sjálfboðaliði í kringum íþróttastarfs og þarf af leiðandi gefur það mér kost á því að kynnast mismunandi íþróttum og sjá ánægjuna sem fylgir almennri hreyfingu,“ segir hún.

 

Hér er hægt að lesa viðtalið við Erlu, sem var tekið í tilefni af Alþjóðlegum Degi sjálfboðaliðans: Fær að sjá ánægjuna sem fylgir hreyfingu

 

Æðislegt að vera sjálfboðaliði

Rósa Marinósdóttir í Borgarnesi þekkir líka vel til sjálfboðaliðastarfa en hún var sæmd gullmerki UMFÍ í fyrravor fyrir skelegga framgöngu sína sem sjálfboðaliði, s.s. á Unglingalandsmótinu í Borgarnesi árið 2016. Þar gekk hún tugi kílómetra á hverjum degi. Öll fjölskylda Rósu vann á mótinu. Rósa hefur sjálf verið sjálfboðaliði undir merkjum Ungmennafélagsins Íslendings og Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB) síðan árið 1980 eða í samfleytt 37 ár.

Hér er hægt að lesa viðtal við Rósu: Mér finnst æðislegt að vera sjálfboðaliði