08. október 2019

Ölli hjálpar börnum og ungmennum að stunda íþróttir

Minningarsjóður Ölla var stofnaður árið 2013, til minningar um körfuknattleiksmanninn Örlyg Aron Sturluson. Umsóknum til sjóðsins hefur fjölgað, að sögn framkvæmdastjóra hans. „Við vitum öll að það getur verið dýrt að stunda íþróttir. Foreldrar barna og ungt fólk hafa ekki alltaf efni á því. Þegar þannig stendur á getum við stutt við íþróttir barna og ungs fólks,“ segir María Rut Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Minningarsjóðs Ölla.

 

 

Sjóðurinn var stofnaður árið 2013, til minningar um körfuknattleiksmanninn Örlyg Aron Sturluson sem flestir þekktu sem Ölla en hann var einn af efnilegustu körfuboltaspilurum landsins. Hann spilaði stjörnuleik Körfuknattleikssambands Íslands 15. janúar árið 2000. Daginn eftir lést hann af slysförum. Ölli var aðeins 18 ára gamall. Heimildarmynd um Ölla var frumsýnd árið 2013 og var sjóðurinn stofnaður af móður hans í tengslum við sýningu myndarinnar. Minningarsjóður Ölla styrkir börn til íþróttaiðkunar sem eiga ekki kost á því vegna bágrar fjárhagsstöðu foreldra eða umsjónarmanna.

 

Allir geta fengið stuðning

„Ölli var mjög umhyggjusamur, með stórt hjarta og mátti ekkert aumt sjá. Hann kom alltaf öllum til hjálpar. Móðir Ölla vildi gera eitthvað í anda hans. Hún gaf leyfi fyrir heimildarmyndinni og stofnaði svo sjóðinn í kjölfarið. Í upphafi fjármögnuðum við sjóðinn með sölu myndarinnar en nú er stærsta fjáröflunin okkar ár hvert fólgin í áheitum sem hlauparar safna í Reykjavíkurmaraþoninu. Síðan hafa fyrirtæki og  einstaklingar einnig stutt við sjóðinn,“ segir María Rut en bætir við að þótt sjóðurinn sé tiltölulega lítill styrki hann flesta sem til hans leita ef það hjálpar iðkendum til að stunda íþróttir fram til 18 ára aldurs.

 

María Rut og Særún Lúðvíksdóttir, móðir Ölla.

 

Ekki er lögð áhersla á að sinna afreksfólki heldur er viðmiðið að allir geti stundað íþróttir. „Við hjálpum til við ýmislegt, greiðum árgjald barna í íþróttum, gjöld í keppnum, veitum styrki til keppnisferða iðkenda og gerum margt fleira sem tengist íþróttaiðkun barna. Við höfum líka boðið upp á styrki til kaupa á íþróttafatnaði og skóm því að það skiptir máli að eiga góðan fatnað,“ segir hún og bendir á að ýmsir leiti til sjóðsins, bæði foreldrar og stuðningsnet barna.

 

 

„Félagsráðgjafar hafa leitað til okkar fyrir hönd barna, þjálfarar, kennarar og foreldrar. Hver sem er getur haft samband við okkur, hringt eða sent okkur tölvupóst eða skilaboð á Facebook. Við erum líka með enga yfirbyggingu. Allt sem kemur inn í sjóðinn fer út úr honum aftur í formi styrkja. Við erum með afar einfalt umsóknarferli og afgreiðum umsóknir hratt. Þannig viljum við hafa það,“ segir María Rut. Hún hefur fundið fyrir því að umsóknum hafi fjölgað, sérstaklega í fyrra og það sem af er þessu ári. „Við vitum ekki hvort það er vegna þess að fleiri þurfi á stuðningi að halda eða hvort að fleiri vita af sjóðnum en áður. Við getum alveg annað eftirspurninni og munum gera það,“ segir María Rut hjá Minningarsjóði Ölla.

 

Hver var Ölli?

Örlygur Aron Sturluson, sem kallaður var Ölli, hóf feril sinn með meistaraflokki Njarðvíkur 16 ára gamall árið 1997 og var lykilmaður í liðinu þegar það hampaði Íslandsmeistaratitli ári síðar. Eftir frábært tímabil hélt Örlygur út til Norður- Karólínu í Bandaríkjunum til þess að stunda nám og spila körfubolta með Charlotte Christian Knights. Eftir dvölina lék hann aftur með meistaraliði Njarðvíkur og A-landsliði Íslands og var valinn fyrstur í lið í Stjörnuleik Körfuknattleikssambands Íslands.

Viðtalið birtist í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Það er hægt að smella hér og lesa blaðið allt

 

Sjóðurinn tekur jafnframt á móti frjálsum framlögum en reikningsnúmer sjóðsins er 0322-26-021585, kt. 461113-1090.

 

Minningarsjóður Ölla á Facebook

www.minningarsjodurolla.is

Hér er hægt að sjá myndina um Ölla