26. júní 2020

Sigurbjörg er samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs

„Ég er virkilega spennt fyrir þessu verkefni og öllu því sem leiðir til aukins öryggis og meiri ánægju iðkenda í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi,“ segir Sigurbjörg Sigurpálsdóttir, sem nýverið var ráðin í starf samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs.

Samskiptaráðgjafinn er óháður aðili sem styður við, leiðbeinir og aðstoðar þá sem hafa upplifa einhvers konar ofbeldi, einelti eða telja sig hafa tekið eftir slíku í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi.

Sigurbjörg er klínískur sálfræðingur og hefur unnið greiningar á geðrænum einkennum og meðferðar þunglyndis og kvíðaraskanir hjá fullorðnum einstaklingum. Hún var m.a. í teymi þeirra mála á Landspítalanum. Sigurbjörg útskrifaðist með B.S. gráðu frá Háskóla Íslands árið 2013 og með meistaragráðu í klínískri sálfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2017.

 

Allir búi við öryggi

Staða samskiptaráðgjafa er ný og varð til með lögum mennta- og menningarmálaráðherra í maí árið 2019 í kjölfar þess að íþróttakonur og fleiri stigu fram og greindu frá ofbeldi sem þær urðu fyrir við íþróttaiðkun sína.

Í janúar á þessu ári skrifaði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, undir samstarfssamning ráðuneytisins við Domus Mentis – Geðheilsustöð og fól fyrirtækinu að annast ráðgjöfina. Samskiptaráðgjafi er með skrifstofu í húsnæði Domus Mentis – Geðheilsustöðvar.

Markmið laganna er að íþrótta- og æskulýðsstarf fari fram í öruggu umhverfi og að börn, unglingar og fullorðnir, óháð kynferði eða stöðu að öðru leyti, geti stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna atvika og misgerða sem eiga sér stað án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar. 

 

Auðvelt að hafa samband

Sigurbjörg segir að frá því hún hafi komið til starfa hafi hún verið að byggja upp starfið og mynda tengsl, svo sem með því að funda með forráðamönnum félagasamtaka sem heyra undir skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf. Heimasíða er jafnframt í smíðum og fleira í vændum sem auðveldar fólki kleift að leita upplýsinga og leita réttar síns ef brotið hefur verið á því.

Þeir sem telja sig hafa orðið fyrir ofbeldi eða einelti í sínu íþrótta- og æskulýðsstarfi eða eru ekki vissir og vilja fá ráðgjöf varðandi slík mál, geta haft samband við sigurbjorg@dmg.is eða hringt í síma 839-9100.  

Ekki er innheimt gjald af þjónustu samskiptaráðgjafa í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi.