25. febrúar 2020

Svona skráirðu Raunverulega eigendur íþrótta- og ungmennafélaga

Alþingi setti ný lög í júní í fyrra um að allir lögaðilar sem stunda atvinnurekstur hér á landi eða eru skráðir í fyrirtækjaskrá, séu skyldugir til að afla upplýsinga um og skrá raunverulegan eiganda fyrir 1. mars 2020. Þar með talin eru öll fyrirtæki, félagasamtök svo sem kórar, íþrótta- og ungmennafélög og fleiri. 

Margir hafa velt því fyrir sér hvernig skrá á raunverulega eigendur íþrótta- og ungmennafélaga því í hverju félagi geta raunverulegir eigendur verið einn eða fleiri. Á vef ríkisskattstjóra (www.rsk.is) segir að félög eru sjálf ábyrg fyrir því að afla upplýsinga um raunverulega
eigendur sína. Ef ekki er mögulegt að finna raunverulegan eiganda samkvæmt ofangreindu, t.d. vegna svo dreifðs eignarhalds að engir
einstaklingar eiga eða stýra viðskiptamanni í skilningi laga um skráningu raunverulegra eigenda eða ef vafi leikur á um eignarhaldið,
skal sá einstaklingur, einn eða fleiri, sem stjórnar starfsemi lögaðilans teljast raunverulegur eigandi og skal skrá hann sem slíkan.

Við höfum tekið saman leiðbeiningar um það hvernig standa skal að skráningunni með rafrænum hætti á vef Ríkisskattstjóra. 

Ríkisskattstjóri hefur jafnframt útbúið sérstakt eyðublað fyrir félagasamtök og aðlagað ferlið að skráningu félagasamtaka.  Þau er gott að hafa ef annað bregst. Hlekkur á skjölin eru neðst í greininni. 

 

Rafræn skráning raunverulegra eigenda: Skref fyrir skref

1. Farðu á Skattur.is

2. Á þjónustusíðu skal skrá kennitölu félags og veflykil.

3. Smelltu á flipann Almennt efst í vinstra horni síðunnar.

4. Smelltu á hlekkinn „Raunverulegur eigandi“ – Þarna byrjarðu skráningu samkvæmt leiðbeiningum frá RSK sem birtast á síðunni.

5. Hakaðu aðeins við flipann Dreift eignarhald.

6. Í liðnum „Tegund eignarhalds“ skaltu haka við „stjórn skráð sem eigandi“ – Athugaðu að draga þarf inn á síðuna ársreikning, fundargerð og fleira efni tengt viðkomandi félagi, s.s. vottorð félags frá RSK.

7. Að þessu loknu skaltu smellta á „Skrá“.

Skráningin er endurtekin fyrir hverja kennitölu allra stjórnarmanna (ekki varastjórn). Ef prókúruhafi er ekki í stjórninni þá þarf að skrá hann sömuleiðis.

8. Að lokum smellirðu á flipann „Undirritun.“

 

Stjórnarfólk samþykkir rafræna skráningu: Skref fyrir skref

Einstaklingar (stjórnarfólk í félagasamtökum) þarf að staðfesta stjórnarsetu sína í félagi með rafrænni undirritun. Það er gert á vefsíðunni www.skattur.is.

1. Viðkomandi skráir sig inn með rafrænum skilríkjum eða með þeim hætti sem hann notar til að fara inn á vefinn.

2. Að lokinni innskráningu kemur upp valglugginn „Velja innskráningu“. Þar á að velja „Mín þjónustusíða“ en EKKI „Félög sem ég tengist“.

3. Farðu í efstu línu á síðunni þar sem stendur „Þú átt ný skilaboð“ og smelltu á flipann. 

4. Mikilvægt er að skoða efst í hægri hluta skjásins og athuga hvort þú ert skráð/ur inn á síðuna í eigin nafni frekar en félagsins. Mikilvægt er að þú ert persónulega skráð/ur inn. 

5. Smelltu á „Raunverulegur eigandi“.

6. Smelltu næst á „Opna yfirlit skjala til undirritunar“.

7. Smelltu á hnappinn „Undirritun“.

8. Málinu ætti nú að vera lokið.

 

Hægt er að skoða hvort skráning hafi tekist með því að fara á vef Ríkisskattstjóra (www.rsk.is), smella á „Fyrirtækjaskrá“ efst á síðunni og skrifa inn annað hvort nafn eða kennitölu viðkomandi félags til að kanna stöðu raunverulegra eigenda. Ef ekkert nafn er þar má vera að stjórnarmenn eða aðrir viðkomandi eigi enn eftir að staðfesta skráninguna. 

Ef þið verðið vör við að opinber skráning, þ.e. lögheimili, stjórn, framkvæmdastjórn eða prókúruhafi félags, er ekki rétt þá er gott að senda RSK meðfylgjandi eyðublöð til að breyta því.

 

Eyðublöð:

Breytingar á stjórn / prókúru félags 

Tilkynning um breytingu á heimilisfangi

Fleiri eyðublöð

 

Ertu í vandræðum? Smelltu hér og skoðaðu ítarlega og myndræna lýsingu má finna á vef RSK

Allar frekari upplýsingar og leiðbeiningar veitir RSK í síma 442-1000.