22. júlí 2019

Ungmennin undrandi á því hvað margt er í boði á Unglingalandsmóti UMFÍ

„Við vissum að krakkarnir í Vinnuskólanum vildu frekar leika sér í íþróttum en reyta arfa og ákváðum þess vegna að bjóða krökkunum að kynnast því sem boðið er upp á á Unglingalandsmóti UMFÍ. Þeim fannst það alveg frábært og margt sem kom þeim á óvart,“ segir Berglind Steinþórsdóttir á Höfn í Hornafirði.

Hún situr í stjórn frjálsíþróttadeildar ungmennafélagsins Sindra á Höfn og langaði til að kynna Unglingalandsmótið betur fyrir um börnum á keppnisaldri í bænum. Í Vinnuskólanum eru 13-15 ára ungmenni.

Hún viðraði hugmyndina við flokkstjórana í Vinnuskólanum.

„Flokksstjórarnir tóku mjög vel í þessa hugmynd okkar að halda smá Hressleika á föstudaginn var og tóku fullan þátt í að kynna Unglingalandsmótið. Eftir kynninguna skunduðum við á frjálsíþróttavöllinn þar sem hópnum var skipt í þrjá hópa. Þau kepptu í langstökki, kúluvarpi, spretthlaupi og boðhlaupi,“

Berglind segir íbúar Hafnar spennta fyrir Unglingalandsmóti UMFÍ, sérstaklega ungmennin í Vinnuskólanum sem hafi nú kynnst því hvað mikið verður í boði á mótinu.

Hitað verður meira upp fyrir mótið sem verður dagana 1.- 4. ágúst. Boðið verður upp á bogfiminámskeið og síðan hefur verið tekin sú ákvörðun að bjóða þeim krökkum sem vilja æfa sig í frjálsum að hætta klukkan 15 í vinnunni og mæta frítt til að æfa sig fyrir Unglingalandsmótið.

 

Það helsta um Unglingalandsmót UMFÍ

Unglingalandsmót UMFÍ er vímulaus fjölskyldu- og íþróttahátíð þar sem börn og ung ungmenni á aldrinum 11-18 ára reyna með sér í fjölmörgum íþróttagreinum. Mótið er fyrir alla fjölskylduna og því er boðið upp á fjölbreytta afþreyingu, leiki og skemmtun fyrir alla aðra.

Heilmikið verður í boði á Höfn alla mótsdagana. Öll kvöld verða svo tónleikar í samkomutjaldi við sundlaugina á Höfn. Þar koma fram DJ Sura, Úlfur Úlfur, Salka Sól, Briét, Daði Freyr, GDRN og Una Stef & The SP 74.

 

Hér geturðu séð alla dagskránna

Munið eftir að skoða vefsíðu mótsins: www.ulm.is

 

Hér má sjá nokkrar myndir frá kynningunni og Hressleikunum á Höfn á föstudag.