07. október 2019

Viðar Halldórsson: Íþróttafólk standi í lappirnar gegn óæskilegri hegðun

„Mútur eru að verða stór hluti af íþróttum, lyfjamisnotkun og hroki. Ég sé þá víða í fjölmiðlum, íþróttamenn sem eru uppfyllir af hroka. Við þurfum að ala upp kynslóð íþróttamanna sem hefur sjálfstraust og getur staðið í lappirnar gegn allri óæskilegri hegðun,‟ segir félagsfræðingurinn dr. Viðar Halldórsson. Hann er annar tveggja hugmyndasmiða að verkefninu Sýnum karakter, samstarfsverkefnis ÍSÍ og UMFÍ og einn þeirra sem voru með erindi á ráðstefnu um íþróttir og áhrif móta á unga iðkendur sem haldið var í Háskólanum í Reykjavík á laugardag.

Hugmyndafræði verkefnisins Sýnum karakter byggir á því að hægt sé að þjálfa og styrkja sálræna og félagslega færni iðkenda rétt eins og líkamlega færni. Markmið þess snýr að þjálfun sálrænnar og félagslegrar færni barna og ungmenna í íþróttum og á það að hvetja þjálfara og íþróttafélög til að leggja enn meiri og markvissari áherslur á að byggja upp góðan karakter hjá iðkendum og gera þá betur í stakk búna til að takast á við lífið auk þess að ná árangri í íþróttum.

 

Breiðablik að innleiða Sýnum karakter

Viðar benti á í erindi sínu að nokkur héraðssambönd og íþróttafélög vinni að því að innleiða ýmsa þætti Sýnum karakter og eru þau mislangt komin. Breiðablik er eitt þeirra félaga sem vinnur að því nú um stundir og er stefnt að því að taka upp aðferðafræði Sýnum karakter í öllum deildum félagsins

Mikill ávinningur er af því að taka upp hugmyndafræði Sýnum karakter, að sögn Viðars, ekki aðeins fyrir viðkomandi félag heldur líka þjálfara og iðkendur, bæði þá sem skara fram úr og þá sem standi höllum fæti:

„Sýnum karakter eflir þá sem þurfa að finna svolítið til sín því þar byggir starfið á jafningjagrundvelli. Þar læra þjálfarar aðra nálgun og iðkendur fá trú á sjálfa sig. Og með því að bæta þá sem standa höllum fæti þá eykst metnaður þeirra almennt,‟ sagði hann og benti á að því miður sinni þjálfarar oft betur þeim sem standi sig vel en hinum. Þetta telur hann ekki rétt að gera.

„Það er auðvitað fullt af foreldrum sem heldur að börnin sín séu best í heimi og eigi að vera í A-liðinu. En það býr miklu meira í hinum krökkunum,‟ sagði hann og benti á að nýlegar rannsóknir bendi einmitt til þess að nálgun Sýnum karakter er rétt. Átti hann þar við að ekki sé rétt, eins og haldið hafi verið fram, að fólk geti skarað fram úr æfi það sig í 10.000 klukkustundir. Það hafi verið hrakið. Að því sögðu sé ekki nóg að þjálfa afrekshópa því huga verði að fleiri þáttum, félagslegum samskiptum og umhverfi iðkenda. Þetta sagði hann markmið Sýnum karakter og hafi það áhrif á alla innan þess félags sem innleiði verkefnið. 

 

Breytt mótafyrirkomulag

Yfirskrift ráðstefnunnar Sýnum karakter var: Hvernig getur keppnisfyrirkomulag mótað eða eyðilagt karakter?

Sjö áhugaverð erindi voru á ráðstefnunni. Þar á meðal sagði Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar, frá því hvernig félagið vinni um þessar mundir að því að innleiða hugmyndafræði verkefnisins í allar deildir aðildarfélaga, Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Fimleikasambands Íslands, sagði frá breytingum á mótafyrirkomulagi í áhaldafimleikum barna og Arnar Bill Gunnarsson, fræðslustjóri KSÍ, sagði frá því hvernig fótbolti yngri flokka hafi breyst. Sveinn Þorgeirsson, aðjúnkt á íþróttafræðasviði HR, sagði frá handboltaleikjum barna og ýmsum nýjungum og André Lachance frá Sport for life í Kanada sagði frá breyttum hugsanahætti í þjálfun og íþróttaiðkun. Að lokum lýsti Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fjölmiðlakona þeim jákvæðu áhrifum sem íþróttaiðkun hafi haft á fatlaðan son sinn.

 

Allar ítarlegri upplýsingar um verkefnið Sýnum karakter má finna á vefsíðunni: www.synumkarakter.is

Hér má sjá myndir frá ráðstefnunni