Upplýsingar

Ungmenna- og tómstundabúðirnar Laugar á Laugarvatni eru ætlaðar nemendum í 9. bekk grunnskóla. Nemendur hafa möguleika á að dvelja þar frá mánudegi til föstudags við leik og störf. Verð fyrir dvöl í búðunum er 29.000kr. starfsveturinn 2019-2020. Innifalið er m.a. dagskrá, gisting, matur, drykkjarflaska og bolur. Viðburðir eru í formi námskeiða sem tengjast megin stoðum Ungmennabúðanna sm eru, menning, útivist, hreyfing og félagsfærni. Markmiðið með dvölinni á Laugum er að styrkja félagsfærni ungmenna, efla vitund þeirra fyrir umhverfi sínu og samfélagi ásamt mikilvægi þess að hafa heilbrigðan lífsstíl að leiðarljósi.  

Hér fyrir neðan er að finna hagnýtar upplýsingar.

 

Skólastjórnendur

Ábyrgð skólans

Ábyrgð skólans/skólastjóra sem dvelur á Laugum hverju sinni

Ef tjón verður í UTB sem nemendur valda viljandi eða óviljandi ber skólinn ábyrgð á því að það verði bætt. Forstöðumaður útbýr tjónaskýrslu sem báðir aðilar fá eintak af, síðan er skólanum sendur reikningur fyrir tjóninu.

Þegar nemanda er vísað heim, er það á ábyrgð viðkomandi grunnskóla að koma nemandanum heim. Það þarf að vera skýrt af hendi skólans fyrir brottför, hvernig staðið skuli að slíkum málum. Gott væri að hafa skriflega viðbragðsáætlun tilbúna.

Skriflegt samþykki foreldra / forráðamanna fyrir ferðinni þarf að liggja fyrir og foreldrum sé kunnugt um það hvernig skóli hyggst bregðast við ef senda þarf nemanda heim frá Laugum. 

Forráðamenn skulu búnir að greiða ferðina til skólans, lámark tveimur vikum fyrir komu. Skila þarf tímanlega inn upplýsingum til forstöðumanns um þann fjölda sem kemur.

Fararstjóri í ferðinni ætti að þekkja nemendurna sem hann fylgir.

Aðalfararstjórar

Aðstaða og gátlisti fyrir fararstjóra

Aðstaða fararstjóra

Fararstjórahópurinn hefur fimm herbergi til umráða, eitt eins manns og fjögur tveggja manna herbergi. Fararstjórar þurfa að skipta á milli sín herbergjum og raða sér niður á þau á mánudegi. Fararstjórar gista á þessum herbergjum þegar þeir eru ekki á næturvakt og geta nýtt þau í frítíma sínum. 

Setustofa fyrir fararstjóra er á skrifstofugangi. Þar er kaffi, hraðsuðuketill og ýmislegt lestrarefni. Nemendum er óheimilt að vera í setustofunni. Fínt 4G net er á Laugarvatni.

 

Gátlisti fararstjóra

  • Sængurver, koddaver, lak, baðhandklæði og lítið handklæði. Sængur og koddar eru á herbergjum.
  • Sundföt og íþróttaföt.
  • Útiföt og gönguskó.
  • Inniskó.
  • Minniskubb fyrir myndir og myndbönd að lágmarki 5GB

Fararstjórar þurfa að ganga frá herbergjum sínum fyrir kl. 9:30 brottfarardag vegna þrifa.