Siðareglur UMFÍ

 

Reglurnar veita leiðbeiningu um breytni og siðferðislega ábyrgð þeirra sem þær taka til. Þær byggja á þeim gildum sem UMFÍ vill að séu ráðandi í öllu starfi hreyfingarinnar: Virðing - jafnrétti – lýðræði – ábyrgð

 

Tilgangur þessara reglna er að hvetja og styðja stjórnendur UMFÍ, þ.e. stjórnarmenn, fulltrúa í nefndum, framkvæmdastjórn og starfsfólk UMFÍ, í störfum sínum fyrir hreyfinguna.

 

1. grein

Við gerum okkur grein fyrir að okkur er trúað fyrir mikilvægum hagsmunum. Við viljum rísa undir þeirri ábyrgð.

 

2. grein

Við sinnum starfi okkar með hagsmuni og gildi UMFÍ að leiðarljósi og stöndum vörð um markmið og heiður hreyfingarinnar.

 

3. grein

Við gerum okkur grein fyrir að við erum fyrirmyndir þátttakenda í starfi hreyfingarinnar. Því sýnum við góða hegðun og gott fordæmi jafnt í starfi fyrir UMFÍ sem og utan þess.

 

4. grein

Við komum fram af heiðarleika, sanngirni og virðingu gagnvart öllum þeim sem við störfum með eða fyrir. Við leitumst við að eiga góð samskipti við samstarfsfólk og viðsemjendur okkar og höfum í huga að orð og athafnir okkar samrýmist starfi okkar fyrir UMFÍ.

 

5. grein

Við gegnum störfum okkar af samviskusemi og trúmennsku. Við misnotum aldrei aðstöðu okkar gagnvart samskiptaaðilum með neinum hætti, okkur sjálfum eða aðilum nákomnum okkur til framdráttar. Komi upp sú staða að hætta sé á hagsmunaárekstrum tölum við opinskátt um það. Þannig greinum við frá hugsanlegum persónulegum hagsmunum sem aðrir gætu ætlað að hefðu áhrif á störf okkar. Við virðum og fylgjum reglum um hæfi til ákvarðana um málefni sem þannig er um farið.

 

6. grein

Við förum ávallt vel með fjármuni og önnur verðmæti sem okkur er trúað fyrir eða höfum til umráða vegna starfa okkar. Við ráðstöfun þeirra höfum við hagsmuni UMFÍ og samstarfsaðila þess að leiðarljósi. Okkur er ekki heimilt að skuldbinda hreyfinguna umfram samþykktir. Fjármuni og eigur UMFÍ notum við aldrei nema í þágu hreyfingarinnar eða verkefna sem samræmast stefnu hennar.

 

7. grein

Upplýsingar um tekjur og ráðstöfun þeirra setjum við fram á einfaldan og skýran hátt og gerum aðgengilegar samstarfsfólki okkar, eftir því sem við á. Allar færslur á fjármunum skráum við með viðeigandi hætti og gerum tækar til endurskoðunar. Við fögnum athugasemdum og uppbyggilegri gagnrýni á okkar störf og nýtum hana til að gera enn betur í störfum okkar.

 

8. grein

Við öflum aldrei styrkja með ólögmætum hætti eða blekkingum.

 

9. grein

Við mannaráðningar gætum við þess að misnota ekki aðstöðu til að ráða skyld- eða venslafólk til starfa. Komi upp slík staða víkjum við sæti og beinum ákvörðunum til þess aðila sem nærtækt er að leysi okkur af.

 

10. grein

Störf okkar rækjum við á opinn, upplýstan, gagnsæjan og lýðræðislegan hátt. Við leitumst við að veita faglegar og réttar upplýsingar og komum okkur saman um hverjir skuli hafa fyrirsvar í daglegu starfi og stökum viðfangsefnum.

 

11. grein

Við gætum fyllsta trúnaðar og þagmælsku um allt það sem við fáum vitneskju um í störfum okkar og ber að fara með sem trúnaðarmál. Þagnarskylda á þó aldrei við þegar ákvæði IV. kafla barnaverndarlaga nr. 80/2002 á við.

 

12. grein

Við notum aldrei trúnaðarupplýsingar sem við öðlumst í starfi fyrir UMFÍ, okkur sjálfum eða okkur nákomnum til framdráttar eða í þágu eigin hagsmuna.

 

13. grein

Við leggjum okkur fram við að skapa jákvætt andrúmsloft í starfi. Við gætum hófs og sanngirni í ummælum um hvert annað, svo sem með því að taka ekki þátt í slúðri eða dreifa rógi.

 

14. grein

Við forðumst að taka að okkur verkefni eða störf sem samræmast ekki eða ganga gegn skyldum okkar við UMFÍ og eru til þess fallin að draga óhlutdrægni okkar í starfi í efa. Ef vafamál rís um þetta, leitum við samþykkis viðeigandi aðila á vettvangi okkar.

 

15. grein

Við leitumst við að koma í veg fyrir hvers konar ofbeldi. Kynferðisleg áreitni og einelti er aldrei liðið.

 

16. grein

Við leitumst við að létta hvert öðru störfin, auðvelda þátttöku í viðfangsefnum vettvangsins okkar. Við erum óhrædd við að nýta tækni og nýjar og hagkvæmar leiðir í því skyni.

 

17. grein

Við þiggjum aldrei gjafir ef verðmæti þeirra er umfram það sem eðlilegt getur talist m.v. aðstæður. Að sama skapi gefum við heldur ekki gjafir sem tengjast störfum okkar fyrir UMFÍ ef verðmæti þeirra er umfram það sem eðlilegt getur talist.

 

18. grein

Í samskiptum við fjölmiðla sýnum við heiðarleika og gagnsæ vinnubrögð án þess að ljóstra upp trúnaðarupplýsingum. Við leitumst við að veita réttar og eins nákvæmar upplýsingar og unnt er. Við fullyrðum ekki meira en vitneskja gefur tilefni til hverju sinni og viðurkennum þegar þekking er takmörkuð, öflum þá frekari upplýsinga eða vísum fyrirspurnum annað.

 

19. grein

Við kynnum okkur vel þessar siðareglur, lög og starfsreglur UMFÍ og aðrar gjörðir sem mikilvægt er að við þekkjum, svo við getum rækt störf okkar sem best. Við kynnum þær fyrir samstarfsfólki og öðrum sem við berum ábyrgð á, stöðu okkar vegna.

 

20. grein

Við gerum okkur grein fyrir því að ef við brjótum þessar reglur er eðlilegt og rétt að viðeigandi aðilar vísi okkur úr starfi, tímabundið eða að fullu.

 

Samþykkt á 48. sambandsþingi UMFÍ 2013 í Stykkishólmi