Sumardagur á Þingvöllum 1907

Það var mikið um að vera á Þingvöllum við Öxará, hinum fornhelga stað íslensku þjóðarinnar, föstudaginn 2. ágúst 1907. Mikill mannfjöldi var þar kominn saman til að halda þjóðhátíð, aðra í röðinni frá því þjóðhátíðin mikla fór þar fram árið 1874. Mörg stórmenni voru samankomin og hæst bar að þarna var mættur konungur Íslands og Danmerkur með fríðu föruneyti til að heiðra þegna sína. Íslenskir ráðamenn fjölmenntu á staðinn og fréttablöð þess tíma sögðu vandlega frá hverju fótspori þeirra og konungsins og gefnar voru út bækur til minja um þessa heimsókn. Á staðnum voru meira en sex þúsund manns komnir víða að af landinu og einnig frá útlöndum.

Þennan dag sýndu átta glímukappar konungi íþrótt sína á völlunum og glímdu af fræknleik. Glíman vakti mikla athygli enda hafði einn keppandinn, Jóhannes Jósefsson frá Akureyri, strengt þess heit að sigra í glímunni eða heita minni maður ella. Enginn landsleikur nútímans í knattspyrnu hefur vakið viðlíka athygli og konungsglíman 1907 og ekki var rætt um annað meira meðal þjóðarinnar mánuðum saman en hvort sunnlenskum glímuköppum tækist að lækka rostann í þessum loftmikla Norðlendingi.

Jóhannesi tókst ekki að sigra, hann hlaut tvær byltur í keppninni og varð í þriðja sæti. Hann vann þó meira afrek síðar um daginn, þegar hann ásamt fimm öðrum ungum mönnum stóð að stofnun heildarsamtaka fyrir ungt fólk á Íslandi og var kjörinn formaður þeirra. Þessi samtök hlutu nafnið Ungmennafélag Íslands og hafa allar götur síðan verið merkisberi ungmennafélagshreyfingarinnar.

 

Félagslíf ungs fólks um aldamótin 1900

Félög unga fólksins fyrir daga ungmennafélagshreyfingarinnar voru fábrotin ef þau voru þá fyrir hendi. Þau félög sem helst var að finna á landsbyggðinni voru búnaðarfélög og lestrarfélög sem voru allmörg. Lestrarfélögin voru til dæmis 112 talsins árið 1904 samkvæmt skýrslu Guðmundar Finnbogasonar, síðar landsbókavarðar, sem hann gerði á vegum stjórnvalda.[1] Þau voru þó fremur almenningsbókasöfn en vettvangur unga fólksins og búnaðarfélög voru eðlilega fyrst og fremst skipuð bændum. Þá var einnig í sveitunum að finna nokkur málfundafélög, kvenfélög og bindindisfélög en góðtemplarastúkur störfuðu einkum í bæjum og þorpum. Íþróttafélög voru fáséð og félög ungs fólks mátti telja á fingrum annarrar handar.

Í hinu fróðlega Félagatali Þorsteins Einarssonar íþróttafulltrúa, sem hann tók saman að beiðni UMFÍ á 90 ára afmæli samtakanna, telur hann upp 32 félög sem hann kallar undanfara ungmennafélaganna. Flest eru stofnuð á fyrstu árum 20. aldar en þau elstu eiga rætur á miðri 19. öld. Þessi félög kenndu sig meðal annars við framfarir, bindindi, málfundi, glímu og fimleika og voru með einum eða öðrum hætti forverar ungmennafélaga að mati höfundar eða þeim var hreinlega breytt í ungmennafélög þegar fram liðu stundir.[2]

 

Hvítbláinn

Þegar ungmennafélögin komu til sögunnar var vorhugur í æskufólki á Íslandi. Unga fólkið neitaði að lúta höfði fyrir dönskum kóngi og dönskum fána og vildi eignast sitt eigið þjóðarmerki sem tákn fyrir vaknandi sjálfstæðishug þjóðarinnar. Eins og nærri má geta urðu Íslendingar ekki sammála um þetta frekar en nokkuð annað. Deilurnar um nýjan íslenskan fána tóku á sig ýmsar myndir áður en lauk. Um eitt voru menn þó sammála. Hið gamla innsigli Íslands með mynd af flöttum þorski og kórónu Danakóngs yfir þar sem þorskhausinn skyldi vera var óhafandi og skyldi varpast í ystu myrkur. Fánamálið var nátengt sjálfstæðismálinu en um þetta leyti virtust vera sóknarfæri til að lina tök Dana á íslensku þjóðinni.

Hugmyndasmiðurinn að hinum bláhvíta fána var Einar Benediktsson skáld. Þann 13. mars 1897 skrifaði hann í blað sitt Dagskrána grein sem nefndist „Íslenzki fáninn.“ Þar varpaði hann fyrstur manna fram hugmyndinni um sérstakan íslenskan fána sem skyldi vera hvítur kross á bláum feldi. „Þjóðlitir Íslands eru hvítt og blátt og tákna himininn og snjóinn,“ bætti Einar við. Föðursystir hans, Þorbjörg Sveinsdóttir ljósmóðir, sem var formaður Hins íslenska kvenfélags hafði forgöngu um að sauma fyrsta bláhvíta fánann þá um sumarið. Hann var fyrst borinn í skrúðgöngu við upphaf þjóðhátíðar sem Stúdentafélag Reykjavíkur gekkst fyrir 2. ágúst sama ár. Talið var að um þrjú þúsund manns hafi sótt hátíðina sem var sú fyrsta í röð þjóðhátíða í höfuðstaðnum allt fram til 1909 að þær féllu niður fyrir fullt og allt.

Í kjölfarið tók UMFÍ hann upp á sína arma. 

 

Vormenn Íslands

Saga UMFÍ er í senn íþróttasaga og saga þjóðarinnar. Jón M. Ívars­son sagn­fræðing­ur ritaði sögu UMFÍ í bókinni Vormenn Íslands sem kom út síðla árs 2007.

Sú saga er samof­in sögu ís­lensku þjóðar­inn­ar og spegl­ar vel tíðarand­ann á hverj­um tíma. Bók­ina prýða 800 ljós­mynd­ir.

Í bók­inni er sagt frá íþrótt­um, skóg­rækt, leik­list, sam­komu­haldi ásamt mörgu fleiru sem ung­menna­fé­lag­ar hafa látið til sín taka. Lands­mót UMFÍ munu flest­ir þekkja sem stærstu íþrótta­hátíðir þjóðar­inn­ar. Á seinni árum hafa ung­linga­lands­mót­in komið til sög­unn­ar sem vímu­efna­laus­ar fjöl­skyldu­hátíðir sem haldn­ar eru ár­lega um versl­un­ar­manna­helg­ina.

Hér er hægt að smella á myndina hér að neðan og lesa Vormenn Íslands í heild sinni.