Fræðslu- og verkefnasjóður UMFÍ

Markmið sjóðsins er að styrkja félags- og íþróttastarf ungmennafélagshreyfingarinnar í samræmi við stefnu UMFÍ, m.a. með því að auka menntun og þekkingu félaga innan hreyfingarinnar á íþróttagreinum, þjálfun í félagsmálum og félagsstarfi.

Rétt til umsóknar úr sjóðnum eiga sambandsaðilar UMFÍ, aðildarfélög sem eru virk í starfi og deildir innan þeirra. Einnig eiga stjórn og nefndir UMFÍ rétt á að sækja um styrk úr sjóðunum.

Sjóðurinn styrkir ekki tækja-, áhalda- og búnaðarkaup, fundakostnað (þ.m.t. veitingar) og almennan rekstur félaga.

ÁHERSLUR Í ÚTHLUTUNUM
Í samræmi við reglugerð sjóðsins leggur sjóðsstjórn áherslu á að veita styrki til verkefna sem:

  • eru til þess að fallin að auka þekkingu og fagmennsku innan félags með fræðslu, fyrirlestrum og/eða námskeiðum.
  • stuðla að aukinni útbreiðslu og/eða stofnun félags eða deilda.
  • stuðla að aukinni þekkingu og varðveislu á menningu og sögu félags.
  • eru til þess fallin að auka menntun þjálfara og dómara.
  • eru í samræmi við auglýst áhersluatriði sjóðsins hverju sinni.

Fyrir úthlutanir 2022 er lögð áhersla á átaksverkefni til þess að snúa við brottfalli barna og ungmenna í skipulögðu íþróttastarfi vegna áhrifa heimsfaraldurs Covid-19.
Átaksverkefni til aukinnar þátttöku á Unglingalandsmóti UMFÍ.

Umsækjendur eru hvattir til þess að kynna sér nýjar vinnureglur og matskvarða sjóðsins. Umsókn þarf að hljóta að lágmarki 50 stig til þess að vera metin styrkhæf.

Umsækjendur sem hljóta styrk eru beðnir um að skila inn skýrslu á ákveðnu lokaskýrsluformi og senda til þjónustumiðstöðvar UMFÍ. 

Fyrri umsóknarfrestur ársins er liðinn. Seinni umsóknarfrestur var 1. nóvember 2022 og er hann nú liðinn.

 

Umhverfisjóður UMFÍ

Umhverfissjóður UMFÍ hefur þann tilgang að styrkja umhverfisverkefni félaga eða einstaklinga innan ungmennafélagshreyfingarinnar. Umsóknarfrestur er 15. apríl ár hvert. Tilkynnt er um styrkveitingar fyrir 15. maí sama ár. Skilyrði fyrir styrkjum er að styrkþegi sé félagi/félag í UMFÍ og verkefnið sé umhverfisverkefni. 

Umsóknarfrestur ársins 2022 er liðinn. 

 

Styrkir vegna náms í lýðháskóla

UMFÍ og Højskolernes Hus í Kaupmannahöfn eru með samstarfssamning um verkefni tengt námsdvöl íslenskra ungmenna í dönskum lýðháskólum. Højskolernes Hus heldur utan um alla lýðháskóla í Danmörku og því er námsframboðið fjölbreytt.

Markmið með styrkveitingunni er að gefa ungu fólki tækifæri til að víkka sjóndeildarhring sinn. Einnig tækifæri til að kynnast nýju tungumáli og menningu, auka færni sína og þekkingu á völdu sviði í gegnum óformlegt nám og styrkja leiðtogatogahæfileika sína um leið.

Styrkirnir eru greiddir út eftir á, þ.e. í júlí 2023. Til þess að uppfylla kröfur um styrkinn þurfa umsækjendur að skila eftirfarandi verkefnum:

  1. Verkefni að eigin vali á meðan námsdvöl stendur. Umsækjendur geta valið að skila inn stuttu myndbandi, teiknimyndaseríu, lagi eða texta sem felur í sér upplifun eða reynslu af náminu. Skilafrestur er 18. nóvember 2022 / 17. mars 2023.
  2. Stutt lokaskýrsla sem felur í sér upplifun og lærdóm af náminu. Jafnframt þarf að fylgja með staðfesting á námsdvöl frá skólanum. Skilafrestur er 13. janúar / 23. júní 2023.
  3. Þeir nemendur sem hljóta styrk fyrir heilt skólaár (40+ vikur) þurfa jafnframt að standa skil af kynningu um skólann sinn, hvað hefur skólinn upp á að bjóða? Skilafrestur 15. mars 2023.

Athygli er vakin á því að styrkur er ekki greiddur út ef umsækjandi skilar ekki inn verkefnum fyrir útgefnar dagsetningar.

Umsóknarfrestur fyrir haustönn 2022 og heilt ár 2022 - 2023 er liðinn. 
Umsóknarfrestur fyrir vorönn er til 10. janúar 2023.