Stjórn UMFÍ

Stjórn UMFÍ er skipuð sjö einstaklingum.  Formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og þrem meðstjórnendum. Varastjórn er skipuð fjórum fulltrúum og ræður atkvæðafjöldi þeirra  í kosningu röð þeirra.

Stjórn setur sér starfsáætlun. Fundir eru ekki færri en sex á ári í samræmi við áætlun stjórnar.

Stjórn UMFÍ 2021 - 2023

Jóhann Steinar Ingimundarson Formaður
Sími: 844 4903

 

Jóhann Steinar hefur setið í stjórn UMFÍ frá árinu 2017. Árin 2017–2019 var hann meðstjórnandi. Árið 2019 varð hann formaður framkvæmdastjórnar UMFÍ og árið 2020 tók hann við sem varaformaður af Ragnheiði Högnadóttur.

Jóhann Steinar er Stjörnumaður og hefur frá unga aldri unnið innan ungmennafélags-hreyfingarinnar. Hann byrjaði eins og flestir á kústinum, færði sig þaðan yfir á ritaraborðið, í dómgæslu og áfram uns hann varð fulltrúi í meistara-flokksráðum karla og kvenna í handknattleiksdeild félagsins og síðar í meistaraflokksráði karla í knattspyrnu. Jóhann Steinar tók síðan sæti í aðalstjórn Stjörnunnar. Hann tók við formennsku í aðalstjórn árið 2011 og gegndi henni í fjögur ár. Árið 2019 var hann gerður að heiðursfélaga Stjörnunnar.

Ragnheiður Högnadóttir Formaður framkvæmdastjórnar

 

Ragnheiður er frá Ungmennafélaginu Kötlu í Vík í Mýrdal, sem er aðili að Ungmennasambandi Vestur Skaftafellssýslu (USVS). Hún sat í varastjórn UMFÍ 2013–2015 og í aðalstjórn 2015–2019 sem meðstjórnandi. Í kjölfar þingsins árið 2019 varð Ragnheiður varaformaður UMFÍ. Ári síðar hafði hún svo sætaskipti við Jóhann Steinar Ingimundarson, hætti sem varaformaður og tók við sem formaður framkvæmdastjórnar UMFÍ.

Gunnar Þór Gestsson Varaformaður

 

Gunnar Þór var kjörinn í varastjórn UMFÍ árið 2017 og hefur setið í aðalstjórn frá árinu 2019 sem meðstjórnandi. Hann er frá sambandssvæði Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS), þar sem hann er fæddur og uppalinn. Eftir níu ár sem formaður aðalstjórnar Tindastóls og varaformaður UMSS var Gunnar kosinn formaður UMSS í nóvember 2020.

Guðmundur G. Sigurbergsson Gjaldkeri

 

Guðmundur sat í varastjórn UMFÍ 2015–2017. Frá árinu 2017 hefur hann setið í aðalstjórn og gegnt embætti gjaldkera sambandsins. Guðmundur er frá sambandssvæði Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK) og þekkir vel til hreyfingarinnar á höfuðborgarsvæðinu, aðallega Breiðabliks í Kópavogi.

Guðmundur á að baki rúmlega 20 ára stjórnarsetu innan Breiðabliks, fyrst innan körfuknattleiksdeildar og síðar í aðalstjórn félagsins. Í febrúar 2021 tók Guðmundur við hlutverki formanns UMSK. Áður hafði Guðmundur verið gjaldkeri UMSK í sex ár.

Sigurður Óskar Jónsson Ritari

 

Sigurður Óskar var kjörinn í varastjórn UMFÍ árið 2015 og sat þar í tvö kjörtímabil. Frá árinu 2019 hefur hann átt sæti í aðalstjórn UMFÍ og verið ritari stjórnar. Sigurður Óskar er frá Ungmennafélaginu Mána, aðildarfélagi Ungmennasambandsins Úlfljóts (USÚ) í Hornafirði. Hann sat í stjórn Ungmennafélags Mána 2005–2020 og hefur gegnt embætti gjaldkera hjá USÚ frá árinu 2011. Á sínum tíma gegndi Sigurður á einhverjum tímapunkti öllum hugsanlegum hlutverkum í stjórn Mána – nema gjaldkerastöðunni.

Gunnar Gunnarsson

 

Gunnar sat í varastjórn UMFÍ 2009–2011. Árið 2013 var hann kjörinn í aðalstjórn sem meðstjórnandi og hefur gegnt því hlutverki til dagsins í dag. Gunnar er frá sambandssvæði Ungmenna- og Íþróttasambands Austurlands (UÍA). Hann gegndi embætti formanns UÍA árin 2012–2021.

Málfríður Sigurhansdóttir

 

Málfríður er frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur (ÍBR) og er nýliði í stjórn UMFÍ. Hún hefur lengi starfað fyrir Ungmennafélagið Fjölni í Grafarvogi. Hún var í 11 ár í stjórnum deilda og hefur frá haustinu 2007 verið starfsmaður aðalstjórnar Fjölnis. Málfríður kemur að íþróttastarfinu frá flestum hliðum. Hún hefur verið iðkandi frá barnsaldri og mætt á öll Landsmót UMFÍ 50+, hefur átt börn í íþróttum, verið sjálfboðaliði og unnið að ýmsum málefnum hreyfingarinnar.

Hallbera Eiríksdóttir Varastjórn

 

Hallbera kom inn í varastjórn UMFÍ árið 2019. Hún er frá sambandssvæði Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB). Í dag býr hún á höfuðborgarsvæðinu. Hallbera hefur verið þátttakandi í íþrótta- og félagsstarfi allt sitt líf og prófaði sem barn allar íþróttir sem í boði voru í Borgarnesi. Hallbera er rekstrarverkfræðingur sem finnst skemmtilegast að spila golf og skíða niður brekkur í frítíma sínum.

Lárus B. Lárusson Varastjórn

 

Lárus Brynjar tók sæti í varastjórn UMFÍ 2017. Lárus er frá sambandssvæði Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK), nánar tiltekið frá Gróttu á Seltjarnarnesi, og hefur setið í stjórn UMSK frá árinu 2014. Lárus hefur töluverða reynslu af nefndarsetum, en hann sat í bæjarstjórn Seltjarnarness í tólf ár og var formaður íþrótta- og tómstundaráðs í átta ár. Auk þess sat hann í fjölda nefnda og ráða fyrir hönd Seltjarnarness á starfstíma sínum. Jafnframt átti Lárus sæti í landsliðsnefnd kvenna hjá Handknattleikssambandi Íslands (HSÍ) í fjögur ár.

Gissur Jónsson Varastjórn

 

Gissur hefur átt sæti í varastjórn UMFÍ frá árinu 2019. Hann hefur alla sína tíð starfað hjá ungmennafélögum í Suðurkjördæmi. Gissur er uppalinn á sambandssvæði Ungmennasambandsins Úlfljóts (USÚ) en hefur alið manninn á svæði Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK) hin síðari ár. Gissur er í góðum tengslum við grasrót hreyfingarinnar þar sem hann starfar sem framkvæmdastjóri Ungmennafélags Selfoss.

Guðmunda Ólafsdóttir Varastjórn

 

Guðmunda er ný í varastjórn UMFÍ. Hún hefur tengst íþróttastarfi í mörg ár, bæði sem sjálfboðaliði og starfsmaður síðastliðin 20 ár. Guðmunda er framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Akraness (ÍA), nýs sambandsaðila UMFÍ. Hún hefur lokið MBA-námi frá Háskóla Íslands þar sem lokaverkefni hennar var stefnumótun KR í heild fyrir árin 2019–2024. Guðmunda hefur setið í aðalstjórn KR, stýrt verkefni um eflingu kvennastarfs innan KR og margt fleira. Guðmunda er fædd á svæði HSH, uppalin á svæði USAH, en hefur starfað lengst á svæði ÍBR.