Upplýsingar

Í Skólabúðum UMFÍ kynnast ungmenni styrkleikum sínum og veikleikum og læra að vinna með þá til að bæta félagsfærni sína. Lífið í búðunum snýst að miklu leiti um samskipti og samveru. Dvölin er tilvalin til þess að kúpla sig frá daglegu lífi og njóta samverunnar með öðrum. Vegna þessara markmiða er ekki leyfilegt að vera með síma, tölvur og tæki sem geta sýnt myndbandsefni.
Hér er að finna hagnýtar upplýsingar fyrir skólastjórnendur, fararstjóra, foreldra og nemendur.

 

Skólastjórnendur

Hagnýtar upplýsingar

Bókanir

Einungis skólastjórnendur grunnskóla geta bókað dvöl.  Æskilegast er að uppistaða fararstjórateymis séu kennarar nemenda sem bókað er fyrir. Þegar sótt er um þarf að tilkynna hver verður aðalfararstjóri og ber ábyrgð á undirbúningi nemenda og fararstjórateymis.

Aðalfararstjóri sér um samskipti við forstöðumann búðanna við undirbúning og á meðan á dvöl stendur. Æskilegt er að aðalfararstjóri komi úr kennarateymi skólans og viðkomandi sé á Reykjum alla vikuna. Litið er svo á að þegar skólastjórnandi bókar dvöl sé hann að samþykkja reglur og fyrirkomulag sem er í búðunum.

Vinsamlegast hafið samband við forstöðumann fyrir nánari upplýsingar um bókanir. 

Dvalargjald

Verð á nemanda er 30.000 kr. fyrir vikuna. Kennarar eða fylgdarmenn greiða ekkert.

Ábyrgð skóla

Ábyrgð skóla/skólastjórnenda sem dvelja í búðunum hverju sinni

Ef tjón verður í búðunum sem nemendur valda viljandi eða óviljandi ber skólinn ábyrgð á því að það verði bætt. Forstöðumaður útbýr tjónaskýrslu sem báðir aðilar fá eintak af, síðan er skólanum sendur reikningur fyrir tjóninu.

Ef til þess kemur að vísa þurfi nemanda heim, er það á ábyrgð viðkomandi grunnskóla að koma nemandanum heim. Nauðsynlegt er að verkferlar séu fyrir hendi af hálfu skólans fyrir brottför.

Forráðamenn skulu búnir að greiða ferðina til skólans, lámark tveimur vikum fyrir komu. Skila þarf tímanlega inn upplýsingum til forstöðumanns um þann fjölda sem kemur.

Æskilegt er að fararstjórar þekki til nemenda hópsins. 

Fararstjórar

Hagnýtar upplýsingar / handbók fararstjóra

Til fararstjóra

Fararstjóri er sá sem ber ábyrgð á því að vera í samskiptum við búðirnar við undirbúning dvalar. Fararstjóri þarf að hafa samband við forstöðumann með lágmark þriggja vikna fyrirvara og staðfesta fjölda nemenda sem reiknað er með að komi. Í framhaldinu er herbergjaskipan send til viðkomandi.

Æskilegast er að aðalfararstjóri dvelji í búðunum allan tímann. 

Aðalfararstjóri ber ábyrgð á því að undirbúa fararstjórateymið sem kemur í Skólabúðirnar á Reykjum. Hann ber ábyrgð á að fararstjórarteymið sé vel undirbúið og að allir séu búnir að kynna sér vel handbók fararstjóra (væntanleg).

Reynsla fararstjóra er sú að ekki þykir gott að skipta út fararstjórum í vikunni. Það er ekki gott fyrir þá fararstjóra sem eru alla vikuna að hafa aðra með sem koma og fara, það myndast aukið álag á þá sem eru allan tímann. Best er að allir fararstjórar séu allan tímann á Reykjum.   


Mæting er kl. 11:00 á mánudegi, brottför kl. 11:00 á föstudegi.

Handbók fararstjóra er væntanleg.

Aðstaða fararstjóra

Við leggjum mikið upp úr því að kennurum sem fylgja skólahópunum líði vel í Skólabúðunum á Reykjum. Við höfum útbúið sérstök afþreyingarými fyrir kennara. Þar er hægt að slaka á, fá sér kaffi og spjalla á milli vakta.

Í herbergjum kennara eru sængur og rúmföt.

Okkur þykir afar gott að fá ábendingar um allt það sem má fara betur.
Endilega látið heyra í ykkur!  

Foreldrar

Hagnýtar upplýsingar

Til foreldra/forráðamanna

Í Skólabúðum UMFÍ kynnast ungmenni styrkleikum sínum og veikleikum og læra að vinna með þá til að bæta félagsfærni sína. Lífið í búðunum snýst að miklu leiti um samskipti og samveru. Dvölin er tilvalin til þess að kúpla sig frá daglegu lífi og njóta samverunnar með öðrum. Vegna þessara markmiða er ekki leyfilegt að vera með síma, tölvur og tæki sem geta sýnt myndbandsefni. Mikilvægt er að foreldrar fari vel yfir þessi mál með börnum sínum fyrir brottför.

Hér er að sjá hvaða rafræki eru velkomin með:

 • sléttujárn og hárblásari
 • vasaljós
 • myndbandsupptökuvélar
 • myndvélar
 • rafmagns tannbursti
 • rakvélar
 • fjöltengi
 • litlir hátalarar

Mataróþol, matarofnæmi og grænmetisfæði

Í búðunum er grænmetisfæði fyrir þá sem eru grænmetisætur. Þá eru helstu vörur fyrir þá sem hafa glutenóþol og mjólkuróþol. Einnig er t.d til sojamjólk, rismjólk og sojaostur fyrir þá sem þola ekki mjólkurvörur. Oft er einnig til laktósafrí mjólk. Athygli er vakin á því að ekki er boðið upp á sérstakan vegan matseðil.

Tekið er tillit til þeirra sem eru með eggjaofnæmi og fiskióþol svo dæmi séu tekin. Reynt er að hafa sambærilegan mat fyrir þá sem hafa einhverskonar óþol og er framreyddur fyrir aðra nemendu. 

Fararstjóri þarf að láta eldhúsið vita  með viku fyrirvara um þau börn sem hafa mataróþol/ofnæmi til að tryggja að örugglega séu til þær vörur sem við á.

Á fundi með kennurum á mánudegi er farið yfir um hverja ræðir svo enginn gleymist og því er mikilvægt að fararstjóri nemenda viti af ef nemendur eru með mataróþol, ofnæmi eða eru grænmetisætur. 

Þeir sem eru með flóknari vandamál gagnvart mat eru beðnir um að hafa samband við forstöðumann með a.m.k. átta daga fyrirvara. Vörur eru pantaði í eldhúsið með viku fyrirfara, erfitt er að bregðast við sérþörfum eftir það. 

Lyfjamál

Nemendur mega ekki hafa nein lyf á eigin ábyrgð með sér á Reyki. Foreldrar eru beðnir um að afhenda fararstjórum öll lyf sem og verkjalyf. Fararstjórar geyma lyf í læstum skáp hjá sér.

Nemendur hafa leyfi til að hafa á sér/í tösku hjá sér, astmaúða. Ef að nemandi þarf að hafa meðferðis astmalyf þarf að upplýsa aðalfararstjóra hópsins og umsjónakennara um málið, sem kemur upplýsingum til starfsmanna á þar til gerðum fundi. Nemendur geta haft meðferðis krem ef þess þarf inn á herbergjum.

Brottvísun

Þátttakanda getur verið vísað heim frá Reykjum ef þörf krefur. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því.

Undantekningarlaust er þátttakanda vísað heim ef hann kemur með og/eða notar eigið eða annarra: áfengi, tóbak, munntóbak, rafrettur, vímuefni og fleira tengt. Einnig ef þátttakandi verður uppvís að þjófnaði og ef um viljandi skemmdaverk er að ræða. Forráðamenn fá ekki endurgreitt ef þátttakanda er vísað heim. Sækja þarf þátttakanda samdægurs ef honum er vísað í burt.  

Samskipti við barnið á meðan dvöl stendur yfir

Foreldrar geta skipulagt símatíma í samráði við fararstjóra hópsins, ef þeir telja þörf á.

Starfsfólk búðanna mælir ekki með að foreldrar séu að hafa samskipti við barn sitt á meðan dvölinni stendur nema nauðsynlegt sé. Engar fréttir eru góðar fréttir.

Réttur útbúnaður

Nemendur stunda mikla útivist í búðunum. Mikilvægt er að undirbúa barnið vel og tryggja góðan og viðeigandi fatnað eftir veðri. Nauðsynlegt er að vera í góðum skóm sem þola bleytu/snjó/sand og það að verða skítugir.

Mikilvægt að merkja allan útbúnað vel

Því miður gleymist oft eitthvað í búðunum. Til að einfalda það að koma eigum í réttar hendur er mikilvægt að föt og annað dót sé merkt með nafni og símanúmeri.

Nemendur

Hagnýtar upplýsingar

Skólabúðir UMFÍ er staður þar sem samvera, samvinna, jákvæðni, virk þátttaka og gleði eru mikilvæg atriði. Við vinnum saman að því að gera skemmtilega upplifun að góðum minningum.

Gott að hafa í huga

Það er alltaf best í heimi ef allt gengur snuðrulaust fyrir sig. Þá njóta líka allir dvalarinnar. Okkur þykir afar vænt um að allir skólahópar hafi eftirfarandi á bak við eyrað svo upplifunin verði gagnleg og góð fyrir sem flesta:

 • … við ætlum að njóta þess að vera í Skólabúðunum!
 • … þar ætlum við að eignast nýja vini.
 • … við kynnumst þar skemmtilegum kennurum.
 • … þarna njótum við þess að vera í nýju umhverfi
 • … í Skólabúðunum kynnumst við sjálfum okkur betur.
 • … þar komum við fram við alla af kurteisi og virðingu.
 • … í Skólabúðunum tökum virkan þátt í öllum viðburðum og námskeiðum.
 • … hjálpumst að við að ganga frá og skilja vel við herbergi og önnur rými.
 • … við munum skilja síma eftir heima.
 • … við munum eftir því að klæða okkur eftir veðri og vera í góðum skó.
 • … við ætlum að ganga vel um dótið okkar og öll hús.
 • … við skulum vera dugleg að hrósa og brosa. Þá verður allt betra.
Hvað er gott að taka með?

Hér er að finna upplýsingar um hluti sem gott er að hafa meðferðis svo dvölin verði sem ánægjulegust fyrir alla. Gott er að hafa í huga að koma klædd eftir veðri og koma með föt sem mega verða skítug og gott er að hreyfa sig í. Dagskráin felur í sér ýmis verkefni og leiki, bæði inni og úti.

Það er gott samvinnuverkefni foreldra/forráðamanna og ungmenna að hjálpast að við að pakka niður í tösku. Reynslan hefur kennt okkur að ef ungmenni koma ekki að pökkuninni er oft mjög flókið að finna hluti í töskunni! Jafnframt hvetjum við til þess að merkja vel allar eigur því þannig komast þær miklu frekar til skila ef þær fara á flakk!

 • Sæng, kodda og sængurver. 
 • Hlý föt til útivistar, s.s. lopapeysa/flíspeysa, vatnsheldur jakki og buxur, húfa og vettlingar (það er miklu skemmtilegra að vera vel klædd/ur ef kalt er úti).
 • Góðir skór til göngu og útivistar, mega vera íþróttaskór eða gönguskór.
 • Lítill bakpoki/göngupoki.
 • Inniskór eru mjög sniðugir.
 • Vatnsbrúsi.
 • Þægileg föt, sokkar og nærbuxur til skiptanna.
 • Klukku til þess að hafa inni á herberginu – ekki hægt að teysta á símann…
 • Náttföt og eyrnatappar (fyrir þá sem þurfa).
 • Sundföt og handklæði (sundgleraugu eru sniðug líka)
 • Sjampó, hárnæring, sápa og aðrar vörur tengdar hreinlæti (fyrir þá sem vilja).
 • Tannbursti og tannkrem.
 • Vaðskór/strigaskór/inniskór með hælbandi til að nota í vatninu (valfrjálst).
 • Tíðarvörur.
 • Bók til að glugga í á kvöldin fyrir svefninn (valfrjálst).
 • Einnota myndavél (valfrjálst).
 • Pokar undir óhrein föt og skó.
 • Nauðsynleg lyf merkt í poka/boxi. Kennara sjá um og gæta lyfja.
 • Vasaljós.
 • Góðar hugmyndir til að skeyta herbergi fyrir herbergjakeppnina.

… svo má ekki gleyma að skilja símann eftir heima!

Í Skólabúðum UMFÍ er ekki leyfilegt að vera með síma eða önnur raftæki. Lífið í búðunum snýst um samskipti og samveru. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta getur verið krefjandi verkefni fyrir marga – en reynslan sýnir að það svo sannarlega margborgar sig og nemendur njóta sín mun betur. Við endurtökum að símar eru ekki heldur leyfðir ofan í töskum, þó slökkt sé á þeim og búið sé að taka símkort úr þeim. 

Dagskrá

Dagskrá skólabúðanna er afar fjölbreytt. Mikil áhersla er lögð á útiveru, hreyfingu bæði inni og úti, nám í gegnum leiki, leiklist og margt fleira gagnlegt og skemmtilegt.


Upptakarinn

Upptakarinn er námskeið sem hvetur til þátttöku og samvinnu. Nemendur hugsa af hverju þau eru hér í búðunum og hvað er það sem þau vilja upplifa og læra á meðan dvöl stendur. Farið er yfir ýmsa þætti sem tengjast því að vinna saman í hóp og hvernig við getum tæklað þau vandamál sem gætu koma upp. Farið verður í óhefðbundna leiki til að brjóta ísinn, fá nemendur til að kynnast betur og til að draga fram jákvæða upplifun og auka sjálfstraust. 

Kveikjan

Kveikjan er námskeið sem er fyrsta daginn sem nemendur koma. Farið er yfir reglur búðanna og svæði búðanna kynnt. 

Traustaganga

Nemendur þurfa að nýta rökhugsun og þolinmæði til að vinna í hóp eða pörum að einhverju markmiði. Nemendur þurfa að leggja traust sitt í hendur annarra nemanda og treysta honum.

Draumateymið

Markmið: Að hópurinn myndi sterka heild sem eru góð í að vinna saman og gott traust ríki innan hópsins með jákvæðnina að leiðarljósi.

Jöklaleikir

Jöklaleikir ganga útá að þjappa hópnum saman í upphafi viku. Það er gert í gegnum leiki og fjölbreytt verkefni. Nemendur þurfa að skora á sig með ýmsum þrautum.

Landsmótið

Litla Unglingalandsmótið er loka námskeið búðanna og alltaf haldið á fimmtudögum. Þetta er námskeiðið þar sem allt það sem búið er að læra yfir vikuna á að smella saman. Samvinna, vinátta, leiðtogahæfni, skilningur, fara út fyrir boxið, stuðningur við aðra á að koma fram.

Gaga bolti

Gaga bolti er alla jafnan á hverjum degi seinni partinn. Keppt er í liðum og reynir því mikið á samstöðu og samvinnu. Hvatning er lykil þáttur í námskeiðinu.