Skólastjórnendur

Ungmennabúðir UMFÍ njóta mikilla vinsælda hjá nemendum 9. bekkjar grunnskóla. Hægt er að bóka viku dvöl í senn frá mánudegi - föstudags yfir skólaárið, frá 31. ágúst til loka maí.

Á síðasta skólaári dvöldu 2.200 börn í Ungmennabúðunum. Dagskráin er afar fjölbreytt alla daga vikunnar. Nemendur stunda mikla útivist, fara í gönguferðir, útileiki og kynnast íslenskri þjóðtrú. Að auki fá nemendur tækifæri til þess að kynnast styrkleikum sínum og veikleikum og læra að vinna með þá til að bæta félagsfærni sína.

Ungmennabúðir UMFÍ eru staðsettar í gömlu íþróttamiðstöðinni á Laugarvatni. Heimilisfangið er Hverabraut 4, 840 Laugarvatn. Smelltu hér til þess að opna mynd með leiðarlýsingu. 

Skólastjórnendur eru beðnir um að hafa samband við Sigurð Guðmundsson forstöðumann ef áhugi er fyrir dvöl í gegnum netfangið siggi@umfi.is. Verð fyrir dvöl er 35.000 kr.- á nemanda. Innifalið í verði er dagskrá, fæði, gisting og bolur. Fararstjórar sjá um frívaktir og sinna þátttakendum í frítíma. Starfsfólk búðanna sjá um námskeið sem eru yfirleitt frá kl. 09:30 - 17:00 á daginn. Skólarnir þurfa sjálfir að sjá um akstur til og frá búðunum. Mæting er kl. 11:00 á mánudegi og brottför er kl. 11:00 á föstudegi.  

Bókanir

Einungis skólastjórnendur grunnskóla geta bókað dvöl í Ungmennabúðum UMFÍ. Ætlast er til að uppistaða fararstjórateymis séu kennarar nemenda sem bókað er fyrir. Þegar sótt er um þarf að tilkynna hver verður aðalfararstjóri og ber ábyrgð á undirbúningi nemenda og fararstjórateymis.

Aðalfararstjóri sér um samskipti við Ungmennabúðirnar við undirbúning og á meðan á dvöl stendur. Hann þarf alltaf að vera úr kennarateymi skólans og vera á Laugarvatni alla vikuna. Litið er svo á að þegar skólastjórnandi bókar dvöl sé hann að samþykkja reglur og fyrirkomulag sem er í búðunum. 

Ábyrgð skóla sem dvelur í Ungmennabúðunum hverju sinni

Ef tjón verður í búðunum sem nemendur valda viljandi eða óviljandi ber skólinn ábyrgð á því að það verði bætt. Forstöðumaður útbýr tjónaskýrslu sem báðir aðilar fá eintak af, síðan er skólanum sendur reikningur fyrir tjóninu.

Ef vísa þarf nemanda heim, er það á ábyrgð viðkomandi grunnskóla að koma nemandanum heim. Það þarf að vera skýrt af hendi skólans fyrir brottför, hvernig staðið skuli að slíkum málum. Gott væri að hafa skriflega viðbragðsáætlun tilbúna.

Skriflegt samþykki foreldra / forráðamanna fyrir ferðinni þarf að liggja fyrir og foreldrum sé kunnugt um það hvernig skóli hyggst bregðast við ef senda þarf nemanda heim frá Laugarvatni.

Nauðsynlegt er að skila inn tímanlega upplýsingum um þann fjölda sem bókað er fyrir. Æskilegt er að fararstjórar þekki vel til nemendahópsins. 

Umsóknir fyrir veturinn 2023 - 2024

Smelltu á hnappinn hérna fyrir neðan til þess að senda inn umsókn.