Upplýsingar

Að mörgu er að huga áður en lagt er af stað í Ungmennabúðirnar á Laugarvatni.
Hér er að finna hagnýtar upplýsingar fyrir skólastjórnendur, fararstjóra, foreldra og nemendur.

Ungmennabúðirnar eru staðsettar í gömlu íþróttamiðstöðinni á Laugarvatni. 
Heimilisfang: Hverabraut 4, 840 Laugarvatn. Smelltu hér til þess að opna mynd með leiðarlýsingu. 

Skólastjórnendur

Hagnýtar upplýsingar

Bókanir

Einungis skólastjórnendur grunnskóla geta bókað dvöl í Ungmennabúðum UMFÍ. Ætlast er til að uppistaða fararstjórateymis séu kennarar nemenda sem bókað er fyrir. Þegar sótt er um þarf að tilkynna hver verður aðalfararstjóri og ber ábyrgð á undirbúningi nemenda og fararstjórateymis.

Aðalfararstjóri sér um samskipti við Ungmennabúðirnar við undirbúning og á meðan á dvöl stendur. Hann þarf alltaf að vera úr kennarateymi skólans og vera á Laugarvatni alla vikuna. Litið er svo á að þegar skólastjórnandi bókar dvöl sé hann að samþykkja reglur og fyrirkomulag sem eru í búðunum. 

 

Skólastjórnendur ættu að huga að bókunum hið fyrsta. Skólastjórnendur eru beðnir um að hafa samband við forstöðumann ef áhugi er fyrir dvöl.  Verð fyrir dvöl er 35.000 kr.- á nemanda. 

Innifalið í verði er öll dagskrá, fæði, gisting, bolur og brúsi. Fararstjórar sjá um frívaktir og sinna þátttakendum í frítíma. Starfsfólk búðanna sjá um námskeið sem eru yfirleitt frá kl. 09:30 - 17:00 á daginn. 

Skólarnir þurfa sjálfir að sjá um akstur til og frá búðunum. Mæting er kl. 11:00 á mánudegi og brottför er kl. 11:00 á föstudegi.  

 

Vinsælar ungmennabúðir

Ungmennabúðir UMFÍ  njóta mikilla vinsælda hjá nemendum 9. bekkjar grunnskóla. Þeir geta komið og dvalið eina viku í senn yfir skólaárið, frá 31. ágúst til loka maí.

Á síðasta skólaári dvöldu 2.200 börn í Ungmennabúðunum. Þau ungmenni sem dvelja að Laugarvatni eru í stífri dagskrá alla daga vikunnar í óformlegu námi sem leitt er af tómstundaleiðbeinendum. Nemendurnir stunda mikla útivist, fara í gönguferðir og eru í útileikjum, kynnast íslenskri þjóðtrú og prófa ýmislegt heilbrigt sem þau eiga annars ekki kost á.

Í Ungmennabúðum UMFÍ kynnast ungmenni styrkleikum sínum og veikleikum og læra að vinna með þá til að bæta félagsfærni sína.

Ábyrgð skólans

Ábyrgð skólans/skólastjóra sem dvelur í Ungmennabúðunum hverju sinni

Ef tjón verður í búðunum sem nemendur valda viljandi eða óviljandi ber skólinn ábyrgð á því að það verði bætt. Forstöðumaður útbýr tjónaskýrslu sem báðir aðilar fá eintak af, síðan er skólanum sendur reikningur fyrir tjóninu.

Þegar nemanda er vísað heim, er það á ábyrgð viðkomandi grunnskóla að koma nemandanum heim. Það þarf að vera skýrt af hendi skólans fyrir brottför, hvernig staðið skuli að slíkum málum. Gott væri að hafa skriflega viðbragðsáætlun tilbúna.

Skriflegt samþykki foreldra / forráðamanna fyrir ferðinni þarf að liggja fyrir og foreldrum sé kunnugt um það hvernig skóli hyggst bregðast við ef senda þarf nemanda heim frá Laugarvatni.

Forráðamenn skulu búnir að greiða ferðina til skólans, lámark tveimur vikum fyrir komu. Skila þarf tímanlega inn upplýsingum til forstöðumanns um þann fjölda sem kemur.

Fararstjóri í ferðinni ætti að þekkja nemendurna sem hann fylgir.

Umsóknir 2022 - 2023

Aðsókn í Ungmennabúðir UMFÍ hefur aukist mikið síðustu ár enda vinsælt að komast í heilbrigða hvíld þar sem m.a. farsímar og tölvur trufla ekki nemendur. Vinsældir búðanna hafa valdið því að skólastjórnendur geta ekki alltaf valið dvalartíma fyrir nemendur eins og áður.

Fyrirhyggja er því best og æskilegt að þeir sem vilja tryggja pláss hafi samband fyrr en seinna. Við munum að sjálfsögðu reyna að uppfylla óskir allra. Hingað til hefur verið eftirsóknaverðast að óska eftir dvöl í september og október. Því miður er ekki hægt að veita öllum skólum dvöl á þeim tíma.

Pláss er fyrir 75 nemendur í senn ef um fleiri en einn skóla er að ræða, ef um einn skóla er að ræða getum við bókað allt að 85-90 nemendur. 

Þeir skólar sem óska eftir að bóka tímanlega og geta valið úr öllum vikum verða að sækja um fyrir 1. mars 2022 og verður skólum svarað í síðasta lagi í byrjun apríl. Þeir sem hafa samband eftir 1. mars raðast á þær vikur sem eftir verða.

Smelltu hér til þess að sækja um. 

Öllum umsóknum verður svarað eins fljótt og auðið er með staðfestingu. 

Fararstjórar

Hagnýtar upplýsingar / handbók fararstjóra

Til fararstjóra

Fararstjóri er sá sem ber ábyrgð á því að vera í samskiptum við búðirnar við undirbúning dvalar. Fararstjóri þarf að hafa samband við forstöðumann með lágmark þriggja vikna fyrirvara og staðfesta fjölda nemenda sem reiknað er með að komi. Í framhaldinu er herbergjaskipan send til viðkomandi.

Fararstjóri er í samskiptum við Ungmennabúðirnar á meðan undirbúningur stendur yfir og á meðan á dvöl stendur. Fararstjóri dvelur í búðunum allan tímann.

Aðalfararstjóri ber ábyrgð á því að undirbúa fararstjórateymið sem kemur í Ungmennabúðirnar. Hann ber ábyrgð á að fararstjórarteymið sé vel undirbúið og að allir séu búnir að lesa handbókina með allavega þriggja vikna fyrirvara vegna undirbúnings nemendahóps heima fyrir. Reynsla fararstjóra er sú að ekki þykir gott að skipta út fararstjórum í vikunni. Það er ekki gott fyrir þá fararstjóra sem eru alla vikuna að hafa aðra með sem koma og fara, það myndast aukið álag á þá sem eru allan tímann. Best er að allir fararstjórar séu allan tímann á Laugarvatni.   

Handbókin er ansi viðamikil og það skiptir því máli að lesa hana gaumgæfilega áður en komið er. Þar koma fram allar helstu upplýsingar um dvölina og ástæður fyrir ýmsum reglum og verkefnum. Einnig leynast þar svör við ýmsum spurningum sem geta brunnið á fararstjórum og reynt er að fyrirbyggja það sem auðveldlega getur farið úrskeiðis.

Mæting er kl. 11:00 á mánudegi, brottför kl. 11:00 á föstudegi.

Handbók fararstjóra

 

Aðstaða og gátlisti

Aðstaða fararstjóra

Fararstjórahópurinn hefur fimm herbergi til umráða, eitt eins manna og fjögur tveggja manna herbergi. Fararstjórar þurfa að skipta á milli sín herbergjum og raða sér niður á þau á mánudegi. Fararstjórar gista á þessum herbergjum þegar þeir eru ekki á næturvakt og geta nýtt þau í frítíma sínum. 

Setustofa fyrir fararstjóra er á skrifstofugangi. Þar er kaffi, hraðsuðuketill og ýmislegt lestrarefni. Nemendum er óheimilt að vera í setustofunni. Fínt 4G net er á Laugarvatni.

Gátlisti fararstjóra

 • Sængurver, koddi, koddaver, lak, baðhandklæði og lítið handklæði. (Sængur eru á herbergjum).
 • Sundföt og íþróttaföt.
 • Útiföt og gönguskór.
 • Inniskór.
 • Minniskubbur fyrir myndir og myndbönd að lágmarki 5GB.

Fararstjórar þurfa að ganga frá herbergjum sínum fyrir kl. 9:30 brottfarardag vegna þrifa.

Á fundi með fararsjórum á mánudegi er farið yfir nemenda hópinn. Mikilvægt er að fararstjórar viti af ef nemendur eru með mataróþol, ofnæmi eða eru grænmetisætur. Athygli er vakin á því að ekki er boðið sérstaklega upp á vegan matseðil. 

Foreldrar

Hagnýtar upplýsingar

Til foreldra/forráðamanna

Í Ungmennabúðum UMFÍ kynnast ungmenni styrkleikum sínum og veikleikum og læra að vinna með þá til að bæta félagsfærni sína. Lífið í búðunum snýst að miklu leiti um samskipti og samveru. Dvölin er tilvalin til þess að kúpla sig frá daglegu lífi og njóta samverunnar með öðrum. Vegna þessara markmiða er ekki leyfilegt að vera með síma, tölvur og tæki sem geta sýnt myndbandsefni. Mikilvægt er að foreldrar fari vel yfir þessi mál með börnum sínum fyrir brottför.

Hér er að sjá hvaða rafræki eru velkomin með:

 • sléttujárn og hárblásari
 • vasaljós
 • myndbandsupptökuvélar
 • myndvélar
 • rafmagns tannbursti
 • rakvélar
 • fjöltengi
 • litlir hátalarar

Mataróþol, matarofnæmi og grænmetisfæði

Í Ungmennabúðunum er grænmetisfæði fyrir þá sem eru grænmetisætur. Þá eru helstu vörur fyrir þá sem hafa glutenóþol og mjólkuróþol. Einnig er t.d til sojamjólk, rismjólk og sojaostur fyrir þá sem þola ekki mjólkurvörur. Oft er einnig til laktósafrí mjólk. Athygli er vakin á því að ekki er boðið upp á sérstakan vegan matseðil.

Tekið er tillit til þeirra sem eru með eggjaofnæmi og fiskióþol svo dæmi séu tekin. Reynt er að hafa sambærilegan mat fyrir þá sem hafa einhverskonar óþol og er framreyddur fyrir aðra nemendu. 

Fararstjóri þarf að láta eldhúsið vita  með viku fyrirvara um þau börn sem hafa mataróþol/ofnæmi til að tryggja að örugglega séu til þær vörur sem við á.

Á fundi með kennurum á mánudegi er farið yfir um hverja ræðir svo enginn gleymist og því er mikilvægt að fararstjóri nemenda viti af ef nemendur eru með mataróþol, ofnæmi eða eru grænmetisætur. 

Þeir sem eru með flóknari vandamál gagnvart mat eru beðnir um að hafa samband við ungmennabudir@umfi.is með a.m.k. átta daga fyrirvara. Vörur eru pantaði í eldhúsið með viku fyrirfara, erfitt er að bregðast við sérþörfum eftir það. 

Lyfjamál

Nemendur mega ekki hafa nein lyf á eigin ábyrgð með sér á Laugarvatn. Foreldrar eru hvattir til þess að afhenda fararstjórum öll lyf og verkjalyf. Fararstjórar geyma lyf í læstum skáp hjá sér. 

Nemendur hafa leyfi til að hafa á sér/í tösku hjá sér, astmaúða. Ef að nemandi þarf að hafa meðferðis astmalyf þarf að upplýsa aðalfararstjóra hópsins og umsjónakennara um málið, sem kemur upplýsingum til starfsmanna á þar til gerðum fundi. Nemendur geta haft meðferðis krem ef þess þarf inn á herbergjum.

Brottvísun

Þátttakanda getur verið vísað heim frá Laugarvatni ef þörf krefur. Ýmsar ástæður geta verið fyrir því.

Undantekningarlaust er þátttakanda vísað heim ef hann kemur með og/eða notar eigið eða annarra: áfengi, tóbak, munntóbak, rafrettur, vímuefni og fleira tengt. Einnig ef þátttakandi verður uppvís að þjófnaði og ef um viljandi skemmdaverk er að ræða. Forráðamenn fá ekki endurgreitt ef þátttakanda er vísað heim. Sækja þarf þátttakanda samdægurs ef honum er vísað í burt.  

Samskipti við barnið á meðan dvöl stendur yfir

Foreldrar geta skipulagt símatíma í samráði við fararstjóra hópsins, ef þeir telja þörf á.

Starfsfólk Ungmennabúðanna mælir ekki með að foreldrar séu að hafa samskipti við barn sitt á meðan dvölinni stendur nema nauðsynlegt sé. Engar fréttir eru góðar fréttir.

Símatímar fara fram eftir klukkan 17:00, þó ekki milli kl. 18-18:30. Ekki er æskilegt að foreldrar hringi fyrir klukkan 17:00 vegna anna á staðnum.

Réttur útbúnaður

Nemendur stunda mikla útivist í búðunum. Sem dæmi má nefna göngutúra, útileiki, kajak og fleira. Mikilvægt er að undirbúa barnið vel og tryggja góðan og viðeigandi fatnað eftir veðri. Nauðsynlegt er að vera í góðum skóm sem þola bleytu/snjó/sand og það að verða skítugir.

Mikilvægt að merkja allan útbúnað vel

Því miður gleymist oft eitthvað í Ungmennabúðunum. Til að einfalda það að koma eigum í réttar hendur er mikilvægt að föt og annað dót sé merkt með nafni og símanúmeri. Haft verður sambandi við þá sem eru með merktar flíkur og dót sem verða eftir. 

 

Nemendur

Hagnýtar upplýsingar

Ungmennabúðirnar er staður þar sem samvera, samvinna, jákvæðni, virk þátttaka og gleði eru mikilvæg atriði. Við vinnum saman að því að gera skemmtilega upplifun að góðum minningum.

Það sem þátttakendum finnst um að vera í Ungmennabúðunum

 • Það er frábært að koma hingað,  fara út úr þægindahringnum og kynnast öðru fólki.
 • Þetta var snilldarvika - frábær upplifun! 
 • Gaman að kúpla sig út, vera án síma og upplifa öðruvísi stundatöflu. 
 • Í ungmennabúðunum kynnist maður fleira fólki og fær tækifæri til þess að æfa sig í mannlegum samskiptum.
 • Starfsfólkið er ótrúlega skemmtilegt og það er alltaf góður matur og stemming milli liða.
 •  Fræðandi, skemmtilegt, góð leið til að kynnast nýju fólki.
Hvað er gott að taka með?

Hér er að finna upplýsingar um hluti sem gott er að hafa meðferðis svo dvölin verði sem ánægjulegust fyrir alla. Gott er að hafa í huga að koma klædd eftir veðri og koma með föt sem mega verða skítug og gott er að hreyfa sig í. Dagskráin felur í sér ýmis verkefni og leiki, bæði inni og úti.

Það er gott samvinnuverkefni foreldra/forráðamanna og ungmenna að hjálpast að við að pakka niður í tösku. Reynslan hefur kennt okkur að ef ungmenni koma ekki að pökkuninni er oft mjög flókið að finna hluti í töskunni! Jafnframt hvetjum við til þess að merkja vel allar eigur því þannig komast þær miklu frekar til skila ef þær fara á flakk!

 • Koddaver, sængurver og lak á 90 cm rúm.
 • Hlý föt til útivistar, s.s. lopapeysa/flíspeysa, vatnsheldur jakki og buxur, húfa og vettlingar (það er miklu skemmtilegra að vera vel klædd/ur ef kalt er úti).
 • Góðir skór til göngu og útivistar, mega vera íþróttaskór eða gönguskór.
 • Lítill bakpoki/göngupoki.
 • Inniskór eru mjög sniðugir.
 • Vatnsbrúsi.
 • Þægileg föt, sokkar og nærbuxur til skiptanna.
 • Klukku til þess að hafa inni á herberginu – ekki hægt að teysta á símann…
 • Náttföt og eyrnatappar (fyrir þá sem þurfa).
 • Sundföt og handklæði (sundgleraugu eru sniðug líka)
 • Sjampó, hárnæring, sápa og aðrar vörur tengdar hreinlæti (fyrir þá sem vilja).
 • Tannbursti og tannkrem.
 • Vaðskór/strigaskór/inniskór með hælbandi til að nota í vatninu (valfrjálst).
 • Tíðarvörur.
 • Bók til að glugga í á kvöldin fyrir svefninn (valfrjálst).
 • Einnota myndavél (valfrjálst).
 • Pokar undir óhrein föt og skó.
 • Nauðsynleg lyf merkt í poka/boxi. Kennara sjá um og gæta lyfja.
 • Vasaljós.
 • Góðar hugmyndir til að skeyta herbergi fyrir herbergjakeppnina.

… svo má ekki gleyma að skilja símann eftir heima!

Í Ungmennabúðum UMFÍ er ekki leyfilegt að vera með síma eða önnur raftæki. Lífið í búðunum snýst um samskipti og samveru. Við gerum okkur grein fyrir því að þetta getur verið krefjandi verkefni fyrir marga – en reynslan sýnir að það svo sannarlega margborgar sig og nemendur njóta sín mun betur. Við endurtökum að símar eru ekki heldur leyfðir ofan í töskum, þó slökkt sé á þeim og búið sé að taka símkort úr þeim. 

 

Námskeið fyrir nemendur

Nemendur sækja fjölbreytt námskeið og aðra skemmtilega viðburði á meðan dvöl þeirra stendur í Ungmennabúðunum.

Eftirfarandi námskeið eru í boði: 

 • Draumateymið: Hópefli, samvinna og samskipti.
 • Gögl: Einbeiting, hreyfing, athygli og þolinmæði.
 • Jarðhitameistarinn: Sjáðu hvað hægt er að nýta íslenska jarðhitann í.
 • Jöklaleikir: Ísbrjótar og hreyfing.
 • Kjarkur og þor: Tjáning og viðtal.
 • Kveikjan: Kynning á svæðinu, reglum, ábyrgð nemenda og gildi búðanna.
 • Stefnumót: Félagsfærni, uppbyggileg samskipti. 
 • Söguferð: Allt sem þig langar að vita um Laugarvatn.
 • Traustaganga: Hreyfing, traust og samvinna.    
 • Upptakarinn: Upplifun þátttaka.
 • Út úr kassanum: Hreyfing, gleði og hópefli.
 • Þrautabraut: Hópefli og áskorun.
 • Ævintýraferð: Kemur á óvart.

Undirbúningur undir Laugaleikana- hópurinn undirbýr innkomuatriði, skapar réttu stemninguna og stillir upp liði fyrir Laugaleikana. 

Laugaleikarnir — Samheldni, keppni og liðsandi. Punkturinn yfir i-ið :-)  

Ýmsar upplýsingar

Saga Ungmennabúða UMFÍ

Fyrstu 10 ár Ungmenna- og tómstundabúða UMFÍ (2005 - 2015)

 

Upphafið  
Það var um miðjan janúar árið 2005 sem fyrsti hópur 9. bekkinga mætti í Ungmenna – og tómstundabúðir UMFÍ að Laugum í Sælingsdal.

Hugmyndina að stofnun búðanna má í raun rekja til skýrslu nefndar á vegum Menntamálaráðuneytisins frá árinu 2002 þar sem niðurstöður eru á úttekt á stöðu félags- og tómstundamála ungs fólks á Íslandi. Í skýrslunni eru viðraðar áhyggjur af því að þátttaka ungs fólks í félagsstarfi hefur staðið í stað eða minnkað árin á undan. Lagt var til í skýrslunni að „komið verði á laggirnar félagsforystuskóla/leiðtogaskóla í samvinnu samtaka á sviði félags- og tómstundamála með stuðningi stjórnvalda. Uppbygging námsins taki mið af reynslu og þörfum æskulýðssamtaka á þessu sviði.“

Það var svo þann 11. ágúst árið 2004 sem samstarfsyfirlýsing var undirrituð á milli Ungmennafélags Íslands, Dalabyggðar, Menntamálaráðuneytis, Iðnaðarráðuneytisins, Byggðastofnunar og Kennaraháskóla Íslands um stofnun Ungmennabúðanna. Búðirnar voru í upphafi hugsaðar sem þriggja ára tilraunaverkefni í samstarfi við ýmsa aðila sem koma að málum barna og unglinga á Íslandi.

Búðirnar, sem ætlað var að hafa frítíma unglinga sem aðalviðfangsefni, voru opnaðar í gamla skólahúsinu á Laugum sem staðið hafði autt yfir vetrartímann um nokkura ára skeið. Gamla skólahúsið var reyndar eins og hannað fyrir starfsemi af þessu tagi enda voru þar heimavist, matsalur, sundlaug og íþróttahús. Einkar ánægjulegt var að koma húsnæðinu aftur í notkun.

Ungmenna- og tómstundabúðirnar voru þær fyrstu af sínum toga á Íslandi. Annars konar búðir höfðu þó verið starfræktar um nokkurt skeið, þar á meðal skólabúðirnar að Reykjum í Hrútafirði sem hófu starfsemi árið 1988. Áherslan þar er önnur og nemendurnir sem þangað koma yngri en í Ungmenna- og tómstundabúðum UMFÍ. 

Þeir aðilar sem komu að opnun Ungmennabúðanna að Laugum voru öll með reynslu af vinnu með börnum og unglingum og þeirra þekking og ástríða fyrir starfi með ungmennum hafa gert Laugar að því sem þær eru í dag. Fyrsti forstöðumaður Ungmennabúðanna var Bjarni Gunnarsson en árið 2006 tók Anna Margrét Tómasdóttir við því starfi og hefur hún gegnt því allar götur síðan.

Jörgen Nilsson tómstundaleiðbeinandi hefur einnig verið starfsmaður Ungmennabúðanna nánast frá upphafi og átt mikinn þátt í að móta það starf sem þar er unnið, það má því með sanni segja að Anna Margét og Jörgen hafi verið potturinn og pannan í myndun og mótun búðanna.

Markmið búðanna í upphafi voru að hvetja nemendurna til að vera virka í félags- og tómstundastarfi, efla hjá þeim sjálfstraust, samvinnu og tillitssemi auk þess að kynna þá fyrir sögu og nánasta umhverfi staðarins.

Ungmennafélag Íslands leggur áherslu á að virkja fólk á öllum aldri til að starfa og taka þátt í félagsmálum, íþróttum, tómstundum, útivist, menningu og umhverfismálum og það hefur því alltaf verið haft að leiðarljósi á Laugum.

Það fyrirkomulag sem komið var á í upphafi að nemendahóparnir komi að Laugum á mánudagsmorgnum, sæki ýmis konar námskeið á meðan dvalið er á Laugum og haldi heim á leið í kringum hádegi á föstudögum hefur haldist eins í áranna rás. Dagskráin sem slík og námskeiðin hafa þó tekið töluverðum stakkaskiptum. Einstöku námskeið hafa þó haldist eins eða mjög svipuð alveg frá upphafi. Má þar fyrst nefna gönguferðina á Tungustapa þar sem leiðbeinandi gengur með nemendahópinn upp á topp stapans og segir þeim þar söguna um álfana í stapanum og bræðurna í Sælingsdalstungu.

Þó gangan hafi haldist í sömu mynd síðustu ár er rétt að nefna að göngurnar eru ákaflega ólíkar í eðli sínu, nemendurnir ýmist liggja í sólbaði á toppi stapans eða þjóta niður brekkurnar á rassaþotum allt eftir árstíð, veðrum og vindum. Annað námskeið sem haldist hefur að mestu leyti eins frá upphafi er blindragangan, þar sem nemendur leiða félaga sína með blindragleraugu yfir mela og móa í dalnum. Kennsla í ræðumennsku sem endar á ræðukeppni hefur líka verið á dagskrá Ungmennabúðanna nánast frá upphafi og er alltaf jafn vinsæl þrátt fyrir sviðsskrekk sumra nemenda. Að ræðukeppninni lokinni er allt stress gleymt og eftir situr bara góð reynsla og stoltur nemendahópur.

Eftir að Ungmennabúðirnar höfðu verið starfræktar í stuttan tíma var tekin sú ákvörðun að byggja vikuna upp sem keppni á milli tveggja til fjögurra liða sem væru mynduð úr nemendahópunum.

Liðin safna stigum frá fyrsta degi og fram á fimmtudagskvöldið. Hægt er að fá stig fyrir frammistöðu í námskeiðunum og geta nemendurnir fylgst með framvindu liðs síns á stigatöflu sem hangir uppi á gangi búðanna. Stigakeppnin endar á fimmtudagskvöldinu með Laugaleikunum sem einnig hafa tekið nokkrum breytingum frá upphafi. Að lokinni keppninni eru veitt verðlaun fyrir liðið sem vinnur.

Þess er gætt að liðin séu svipuð í félagslegum og líkamlegum styrk og ef fleiri en einn skóli er í búðunum í einu er passað að hlutfall nemenda úr skólunum séu jöfn í liðunum.

Stigakeppnin gefur aukið tækifæri á að mynda hópastemmningu í liðunum með aukinni samvinnu og samkennd auk þess sem hún nýtist sem ákveðið verkfæri í agamálum. Áhersla er lögð á keppnina sjálfa og gleðina og skemmtunina sem felst í því að vera hluti af hóp en minni áhersla er lögð á hvaða lið vinna og tapa.

Frá upphafi hafa Ungmennabúðirnar boðið upp á gistinguna, dagskrána og fullt fæði fyrir nemendur. Reynt hefur verið að hafa verðið hóflegt svo það sé öllum mögulegt að njóta þess sem búðirnar eiga upp á að bjóða.

 

Síðustu ár  
Í áranna rás hefur starf Ungmennabúðanna breyst töluvert þó markmiðin hafi að mestu leyti haldist þau sömu. Námskeiðin hafa tekið breytingum með því starfsfólki, sjálfboðaliðum og gestum sem hafa dvalið í búðunum, þar sem nýjar hugmyndir koma fram og sífellt er leitast við að hafa starfið sem vandaðast. Aukið samstarf við búðir annar staðar í heiminum og aukin tengsl við fræðin sem liggja að baki starfi búða hafa gert starfið sem fram fer í Ungmenna- og tómstundabúðunum að Laugum enn betra.

Áhersla á umhverfismál og heilsueflingu hefur aukist í búðunum undanfarin ár og eru Ungmennabúðirnar núna hluti af Grænfánaverkefni Landverndar og Heilsueflandi skóli. Nemendur og starfsfólk flokka rusl og gefa dýrum bændanna í kring matarafganga úr búðunum. Meistararnir í eldhúsinu á Laugum sjá um að halda öllum söddum og sælum út vikuna með smávegis óhollustu inn á milli, enda er allt gott í hófi og ekkert betra en heitt kakó þegar komið er inn úr kuldanum á veturna. 

Meginstoðir búðanna eru menning, útivist, hreyfing og félagsfærni en undanfarin ár hefur útivist og útivera fengið meira vægi í starfi búðanna og hefur ríkt almenn ánægja með þá þróun. Aukin útivera býður upp á hreyfingu utandyra þar sem hægt er að kynna nemendurna fyrir náttúru landsins og umhverfi staðarins. Á tímum þar sem ungmenni eyða sífellt meiri tíma í tölvum og símum hefur sjaldan verið jafn mikilvægt að sýna þeim hversu mörg ævintýri felast í náttúrunni og að allir hafi tækifæri á að finna sér skemmtun utandyra við þeirra hæfi. Þess er gætt í þeirri útivist þar sem mikillar hreyfingar er krafist að allir fái áskorun við hæfi og að enginn sé þvingaður í eitthvað sem hann ræður ekki við.

Nokkur vinsælustu námskeið búðanna hafa skotið upp kollinum undanfarin ár og er þar göglið fremst í flokki. Í göglinu læra nemendur ýmiskonar sirkúskúnstir eins og að snúa diskum á priki, halda boltum á lofti og hjóla á einhjólum. Það er gaman að fylgjast með nemendunum gleyma sér í verkefnunum og spreyta sig á einverju sem þau hafa ekki prófað áður.

Uppbygging þrautabrautarinnar í Lillulundi hófst árið 2011. Hún var byggð upp í áföngum og er í dag orðin heilmikið mannvirki. Brautin bætir heilmiklu við útisvæði Lauga og hefur vakið hrifningu nemenda. Verkefnin í brautinni reyna mikið á samvinnu og það er ánægjulegt að sjá liðsandann í hópum nemenda í slíkum verkefnum.

Stigakeppnin hefur eins og áður segir haldist að mörgu leyti eins í gegnum árin. Aukið hefur þó verið á stemmninguna í hópunum með því að færa nemendum boli og vatnsbrúsa í lit síns liðs.

Sú breyting hefur einnig verið undanfarin ár að sjálfboðaliðar frá öðrum löndum hafa komið og unnið með starfsfólki Ungmennabúðanna. Með þeim hafa komið nýjar hugmyndir og fleiri aðferðir til að hafa vikuna sem besta fyrir nemendur. Eins hefur Jörgen dvalið í búðum Camp adventure, í Þýskalandi í nokkrar vikur og Anna Margrét heimsótt fjölmargar búðir í öðrum löndum.

 

Ungmennabúðirnar í dag 
Enn þann dag í dag eru Ungmennabúðir UMFÍ einu búðirnar með áherslu á tómstundir sem starfræktar eru yfir vetrartímann fyrir skólahópa á Íslandi.

Starfið í dag býður upp á fjölbreytta dagskrá fyrir nemendur þar sem þeir fá tækifæri til að stíga út fyrir þægindarammann, auka færni sína í því að koma fram, auka einbeitingu og vinna saman að sameiginlegum markmiðum. Allir þeir nemendur sem sækja búðirnar heim eiga að geta fundið eitthvað við sitt hæfi og allir eiga að hafa tækifæri til að blómstra. Á Laugarvatni eru allir jafnmikilvægir og vinátta og virðing eru þar í fyrirrúmi enda ekkert pláss fyrir einelti, stríðni og neikvæðni.

Starfsfólk búðanna heldur áfram að þróa nýjar hugmyndir og bæta starfið á sama tíma og viðburðir eins og óvissuferðin og sundlaugapartýið standa alltaf fyrir sínu. Með áhuga, ástríðu og samvinnu hafa búðirnar sannað sig sem ein skemmtilegasta og eftirminnilegasta upplifun sem er í boði fyrir ungmenni á Íslandi í dag.

Hátt í tvöþúsund nemendur, ásamt kennurum, foreldrum eða starfsfólki félagsmiðstöðva, frá yfir fimmtíu skólum víðsvegar á landinu koma nú til dvalar yfir vetrartímann. Fjöldi nemenda sem heimsótt hefur búðirnar frá opnun er því orðinn ansi hár.

Ellefu ár eru nú liðin frá stofnun búðanna og það er ánægjulegt að sjá hversu vel þær hafa fest sig í sessi og hversu vinsælar þær eru hjá unglingunum sem hafa heimsótt þær og hve eftirvæntingarfullir unglingarnir eru sem eiga eftir að koma. Það er von allra sem standa að Ungmennabúðum UMFÍ að þær haldi áfram að vera jafn stór hluti af lífi íslenskra ungmenna og þær hafa verið hingað til og að þar haldi skemmtilegar upplifanir áfram að verða að góðum minningum. Megi næsti áratugur verða enn betri en sá fyrsti.