25. apríl 2023

Aðeins 4% barna með fötlun stunda íþróttir

Þrjú þúsund börn undir 17 ára aldri eru með fatlanir á Íslandi. En aðeins rúmlega 150 þeirra, um 4% hópsins, stundar íþróttir hjá félagi samkvæmt félagaskráningarkerfi ÍSÍ og UMFÍ.

Valdimar Smári Gunnarsson, verkefnastjóri verkefnisins „ALLIR MEГ stóð í gær fyrir vinnufundi með forsvarsfólki Kópavogsbæjar og íþróttafélaga í bænum og Hafnarfirði um íþróttir fyrir fólk með fötlun undir formerkjum verkefnisins Allir með. Með honum voru fulltrúar ÍF, ÍSÍ og UMFÍ sem skipa stýrihóp verkefnisins.

Kópavogur er fyrsta félagið þar sem þessar samræður fara fram en stefnt er á að ræða við forsvarsfólk fleiri sveitarfélaga og íþróttafélaga.

Á fundinum sögðu fulltrúar þriggja íþróttafélaga frá árangursríku starfi í þjálfun iðkenda með fötlun. Það voru knattspyrnukonan Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir sem þjálfar knattspyrnu hjá íþróttafélaginu Öspinni, Rakel Másdóttir, frá fimleikafélaginu Gerplu, og körfuboltaþjálfarinn Bára Hálfdánardóttir, sem þjálfara Special Olympics hópinn hjá Haukum.

 

 

Þær voru sammála um að þótt starfið hjá þeim sé lítið auglýst þá sé mikil eftirspurn eftir þjálfuninni er dæmi um að þótt Gerpla hafi ekkert auglýst í ár sé fullt í alla flokka. Tækifærin fyrir íþróttafólk með fötlun eru ótrúlega mörg. En það geti verið áskorun að þjálfa iðkendum með fötlun. Þær áskoranir þurfi að yfirstíga.

Gunnhildur sagði tilvik að börn og ungmenni með fötlun séu sett til hliðar í skóla og því gefi það þeim svo mikið að geta klæðst treyjum sinna félaga eins og HK og Hauka, Stjörnunnar , Breiðabliks eða annarra.

„Það er réttur hvers barns að geta valið sína íþrótt  og því þurfa einstaklingar með sérþarfir að fá tækifæri til að velja sér íþróttir,“ sagði hún. 

Gunnhildur er einmitt einn af nokkrum sendiherrum verkefnisins, sem hafa gefið kost á sér til að ferðast vítt og breitt um landið og aðstoða félög við að koma íþróttastarfi með fötluðum í gang og á rétt ról. Gunnhildur verður sendiherra knattspyrnu og er stefnt á að fá sendiherra fleiri greina.

Valdimar sagðist vera að stíga þarna fyrsta skrefið en að framundan séu mikið starf þar sem hann og forsvarsfólk verkefnisins ræði við fleiri bæjarfélög um samstarf við íþróttafélög og styrktaraðila á hverjum stað.