21. október 2020

Æfingar meistaraflokka og afreksíþróttafólks leyfðar á höfuðborgarsvæðinu

Ákveðið var á fundi með öllum sviðsstjórum íþrótta- og tómstundasviða sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu í dag (21. október) að meistaraflokkar og afreksíþróttafólk geti hafið æfingar í mannvirkjum á vegum sveitarfélaganna.

Hvert sveitarfélag ákveður hvenær starfið getur hafist þar sem undirbúa þarf opnun íþróttahúsa með tilliti til starfsfólks og sóttvarnareglna sérsambanda.

Íþróttastarf barna fædd 2005 og síðar hefst ekki að svo stöddu og verður það metið í næstu viku í samstarfi við ÍSÍ. Tilgangurinn með því að fresta því að hefja íþróttastarf barna er sá að forðast blöndun aðra en er til staðar í skólastarfi nú þegar.

Von er á formlegri tilkynningu frá Almannavörnum höfuðborgarsvæðisins um málið.

 

„Þetta er gott. Það er alltaf jákvætt að geta komist af stað. En þetta kemur í raun fyrr en við bjuggumst við,“ segir Valdimar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK).

„Þetta er jákvætt skref fyrir íþróttafólk. Þetta er hægt. Við þurfum að fá samstöðu um reglurnar og hvaða hópar mega æfa og fara svo eftir þeim. Það væri skrýtið að einn hópur mætti æfa í líkamsræktarsal en annar hópur mætti ekki æfa á gervigrasvelli,“ segir Frímann Ari Ferdinandsson, framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur (ÍBR).