08. júní 2017

Aldís er spennt fyrir Landsmóti UMFÍ 50+

Bæjarstjórinn Aldís Hafsteinsdóttir segir Hvergerðinga hlakka mikið til landsmóts UMFÍ 50+ undir lok mánaðar. Hún gerir ráð fyrir miklum mannfjölda í bænum enda margt á boðstólnum fyrir iðkendur jafnt sem áhorfendur.

„Við hér í Hveragerði erum afskaplega ánægð með að Ungmennafélag Íslands hafi ákveðið að halda mótið hér enda aðstaða til íþróttaiðkunar í bænum til mikillar fyrirmyndar. Hér er tiltölulega nýbúið að reisa fimmþúsund fermetra, loftborið íþróttahús sem er einstakt á landsvísu og gefur tilefni til allskonar íþróttaiðkunar sama hvernig viðrar. Svo eru hér aðrir góðir íþróttavellir og hús. Við erum líka eitt fárra sveitafélaga á landinu sem getur boðið upp á þrjár sundlaugar innan bæjarmarka. Það eru forréttindi sem við njótum,“ segir Aldís.

Helsta sundlaugin í Hveragerði er þó tvímælalaust sundlaugin í Laugarskarði. Hún skartar ekki aðeins einu fegursta laugastæði landsins heldur er líka vel varin norðangarranum sem svo oft læðist að fáklæddum sundlaugargestum. Skjólið skilar því að oft myndast hitapottur í lauginni sem sundlaugagestir fá notið.


Vinsælasta gönguleið landsins í Hveragerði

Gönguleiðirnar í kring um bæinn eru margar og sumar með þeim allra vinsælustu á landinu meðal ferðamanna, að sögn Aldísar. „Í Reykjadal er til dæmis ein fjölfarnasta gönguleið á Íslandi, sex kílómetrar fram og til baka og um hana er gríðarleg umferð af fólki,” segir Aldís. „Flestir ættu að geta komist inn í Reykjadalinn. Hann er nokkurra kílómetra langur og þangað treysta sér ekki allir til að byrja með. Upphaf leiðarinnar er í sæmilegri brekku svo hann er ekki fyrir alla. En fyrir þá sem ekki treysta sér upp brattann bjóðum við upp á fjölbreyttar gönguleiðir hérna í náttúrunni í kring,” segir hún.

Það er því enginn skortur á mögleikum til íþrótta og útivist fyrir þá sem sækja mótið þetta árið. Golfvöllurinn er skemmtilegur níu holu völlur og ólíkur öllum öðrum á Íslandi, þar sem hann stendur í góðu skjóli í dalverpi. Hann er byggður á hverasvæði, náttúrulegu snjóbræðslukerfi, svo flatirnar eru mýkri en þekkist hér á landi. Þá eru ótalin hestamennskan, fjallahjólreiðarnar sem og hlaupin upp fjölda náttúrstíga og -slóða. Gróðurhúsin full af blómum, berjum og grænmeti svo fátt eitt skal telja.

 

Hveragerði í örum vexti

Engin furða er að Hveragerði er ört stækkandi bæjarfélag og telur í dag um 2.500 manns.
„Við finnum fyrir miklum meðbyr hérna í Hveragerði og auðvitað hjálpar skortur á húsnæði í Reykjavík,” segir Aldís. „Fólk er einnig að uppgötva að ferðin til Reykjavíkur tekur ekki nema hálftíma. Það er því vel hægt að búa í Hveragerði án þess að missa af neinu í höfuðborginni og njóta allra kostanna við að búa í smábæ úti á landi. Njóta nálægðarinnar við náttúruna og þorpsstemningar, sem mörgum finnst heillandi en vera þó nánast í úthverfi frá Reykjavík. Það er hægt að sækja allt í Hveragerði svo sem listsýningar, bíó og margt fleira. Vegasamgöngurnar eru líka alltaf að batna og enn meiri bætur fyrirhugaðar. Aksturstefnur eru að stærstu leyti aðskyldar alla leiðina til borgarinnar. Strætó er með tólf til fjórtán ferðir á dag, beinustu leið í Mjóddina þar sem farþegarnir fá skiptimiða hvort sem förinni er heitið í vinnu eða skóla,“ bendir Aldís á.

 

Apinn í Eden

Flestir sem hafa aldur til að keppa á Landsmóti UMFÍ 50+ hljóta að muna eftir og þekkja Eden í Hveragerði. Margir fóru þangað að borða ís við frumskógaraðstæður og kíkja á apann sem þar bjó. En Eden er löngu horfið og í staðinn komnir nýjir veitingastaðir og nú síðast míkróbrugghús inni á þeim nýjasta. Innviðirnir í Hveragerði stækka því í takt við hið ört vaxandi sveitarfélag sem mun vafalaus skarta sínum fegurstu blómum þegar heilu hersingarnar af rúmlega hálfrar aldar gömlum íþróttagörpum etja þar saman kappi.

Rætt er við Aldísi Hafsteinsdóttur í Skinfaxa, tímariti UMFÍ, sem kemur út á næstu dögum. Þar eru líka viðtöl við fleiri sem koma að mótinu í Hveragerði, sérgreinarstjóra og keppendur á fyrri mótum.

Ekki missa af mótinu í Hveragerði!
Skráning er hafin á Landsmót UMFÍ 50+. Ertu búin/ að skrá þig á þetta skemmtilega mót?

Skráð þig hér