04. október 2021

Andleg líðan ungmenna í kastljósi Forvarnardagsins

„Orkudrykkir eru ekki leiðin til að komast í gegnum daginn, við verðum þvert á móti stefnulaus og orkulítil,‟ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í ávarpi sínu á fjölmiðlafundi Forvarnardaginn 2021, sem fram fór í morgun.

Fimmtán eru síðan dagurinn var haldinn í fyrsta sinn og verður hann miðvikudaginn 6. október í grunn- og framhaldsskólum landsins. Áhersluatriði Forvarnardagsins þetta árið er andleg líðan ungmenna og lagði Guðni áherslu á mikilvægi svefns sem lykilþáttar í andlegri og líkamlegri heilsu fólks.

Fjölmiðlafundurinn fór fram í Dalskóla í Úlfarsárdal. Guðni hafði lent í smitgát og gat því ekki tekið þátt í fundinum eins og vanalega. Það gerði hann hins vegar með hjá fjarfundabúnaðar.

Á meðal annarra sem sátu fundinn voru þau Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, og Alma D. Möller landlæknir ásamt fulltrú nemenda og skólans og þeirra sem að forvarnardeginum standa.

 

Alltaf eitthvað nýtt til að hafa áhyggjur af

Guðni, Alma og Dagur lögðu öll ríka áherslu á neikvætt samspil orkudrykkja, nikótínnotkunar, lítils svefna og fleiri þátta á andlega líðan ungmenna og áhrifa svefnleysis á þróun líkamans.

Guðni Th. lagði áherslu á að Íslendingar hafi séð góðan árangur í forvarnarmálum til þessa. Tekist hafi að minnka neyslu áfengis og reykinga á meðal ungmenna og hafi það skilað sér í bættri heilsu.

„Það er alltaf eitthvað nýtt sem við þurfum að glíma við. Nú hefur fólk áhyggjur af því að við séum að nota of mikið af orkudrykkjum, nikótínpúða og þar fram eftir götunum. Við verðum að nota mátt sannfæringarinnar að benda fólki á að það er ekki rétta leiðin að falla í þessa freistni. Orkudrykkir eru ekki leiðin til að komast í gegnum daginn.‟ sagði hann.

Á fundinum kom m.a fram að niðurstöður Rannsókna og greininga frá 2021 sýna að 44% ungmenna í 9. bekk og 53% ungmenna í 10. bekk fengu ekki nægan nætursvefn.

Niðurstöður Rannsókna og greininga sýna jafnfram að þegar sambandið á milli notkunar orkudrykkja og svefns er skoðað má sjá að þeir sem drekka fleiri orkudrykki eru líklegri en aðrir til að sofa minna. Í efstu bekkjum grunnskóla sýna niðurstöður að 74% þeirra sem drekka tvo eða fleiri orkudrykki á dag fá ekki nægan nætursvefn. 

Um Forvarnardaginn

Embætti landlæknis fer með verkefnastjórn Forvarnardagsins og samstarfsaðilar eru embætti forseta Íslands, Reykjavíkurborg, Rannsóknir og greining, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, Samfés, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samstarf félagasamtaka í forvörnum, Bandalag íslenskra skáta og Heimili og skóli.  

Á Forvarnardeginum ræða nemendur í grunnskólum um hugmyndir sínar um íþrótta- og tómstundastarf, samveru með fjölskyldunni og það að leyfa heilanum að þroskast án neikvæðra áhrifa en þetta eru meðal verndandi þátta fyrir áhættuhegðun. Í framhaldsskólum ræða nemendur um þá ákvörðun að drekka ekki eða seinka því að byrja að drekka áfengi og hvaða þættir hafa áhrif á þá ákvörðun. Nemendur fá kynningu frá kennurum skólans og fara í hópavinnu þar sem þau skrá hugmyndir sínar. Skólarnir sem skráðir eru til þátttöku setja upp dagskrá í sínum skóla og fá afhent kennsluefni til að vinna með í þeim tilgangi.

Nemendum býðst að taka þátt í leik sem verður á vefsíðu Forvarnardagsins www.forvarnardagur.is og dregið verður úr innsendum svörum þann 21. október nk. Verðlaunin verða afhent af forseta Íslands við hátíðlega athöfn á Bessastöðum síðar á árinu.

Í ár verður sjónum sérstaklega beint að því að andlegri líðan ungmenna. Samkvæmt rannsóknum eru margir þættir sem hafa þar áhrif m.a. notkun orkudrykkja, notkun nikótíns, of lítill svefn o.fl. 

Hér má sjá fleiri myndir frá fjölmiðlafundinum.