14. maí 2019

Andlegi þátturinn skiptir miklu máli í daglegu lífi og íþróttum

Er íþróttafólk fæddir snillingar eða er árangur í íþróttum og í daglegu lífi lærður eiginleiki?

Þessari spurningur velti upp Robert Weinberg, prófessor við Miami-háskóla í Oxford í Ohio í Bandaríkjunum, í fyrirlestri sem hann hélt í Háskólanum í Reykjavík í gær.

Fyrirlesturinn hét Mental Toughness: What is it and How Can it Be Built?

Sjá um fyrirlesturinn á Facebook

Weinberg er sagður einn fremsti íþróttasálfræðingur í heimi og höfundur bókar um greinina sem notuð er við kennslu í Háskólanum í Reykjavík.

Sjá um bók Weinbergs: Foundations of Sport and Exercise Psychology

Eins sjá má á myndinni var húsfyllir á fyrirlestrinum. 

 

Af hverju eru aðrir betri?

Mental Toughness má þýða sem seiglu eða þrautseigju og fjallaði Weinberg um málið frá ýmsum hliðum, ekki síst mismunandi skilgreiningar fræðimanna á þrautseigju eða seiglu.

Fram kom í máli hans að örvun (e. moti­vati­on), hæfnin til að ráða við álag, sjálfs­traust og at­hyglistengd ein­beit­ing (e. attenti­onal focus) virðist vera þeir þættir sem skilji þá and­lega sterku.

Weinberg sagði m.a. frá því hvað þjálfarar sem skili árangri telji vera lykilinn að því að þjálfa þennan þátt og nýtist hann líka einstaklingum vel sem þurfi að glíma við álag í daglegu lífi.

Hann var spurður að því hvort einstaklingar geti lesið sér til um málið og byggt upp seiglu sjálfir. Hann sagði þetta það viðtækt og tímafrekt að hann mælti ekki með slíku.

 

Sýnum karakter

Erindi Weinbergs rímar vel við verkefnið Sýnum karakter. Það er átaksverkefni um þjálfun sálrænnar og félagslegrar færni barna og ungmenna í íþróttum. Hugmyndafræði verkefnisins byggir á að hægt sé að þjálfa og styrkja sálræna og félagslega færni iðkenda eins og líkamlega færni.   

Áherslan í íþróttaþjálfun hefur til þessa verið á líkamlega og tæknilega færni. Helsta markmið með verkefninu er því að hvetja þjálfara og íþróttafélög til að leggja enn meiri og markvissari áherslu á að byggja upp góðan karakter hjá iðkendum, með þjálfun sálrænna og félagslegra eiginleika barna og ungmenna. Þjálfun karakters barna og ungmenna í íþróttum gerir íþróttafélögum kleift að sinna hvort í senn uppeldishluta og afrekshluta íþróttastarfsins, því góðir karakterar eru vel í stakk búnir til að takast á við lífið og einnig til að ná árangri í íþróttum.

 Markhópur verkefnisins Sýnum karakter er öðru fremur fyrst og fremst þjálfarar barna og ungmenna í íþróttum. Mikilvægt er þó að allir sem koma að íþróttastarfi barna og ungmenna, stjórnarfólk, starfsfólk, kennarar og foreldrar, kynni sér innihald og áherslur verkefnisins. Ef allir vinna saman að því að bæta og styrkja karakter ungu kynslóðarinnar þá verður framtíð þeirra - og okkar allra - enn bjartari og betri.

Grunnhugmyndin að verkefninu kemur frá dr. Viðari Halldórssyni, félagsfræðingi við Háskóla Íslands, og Valdimari Gunnarssyni hjá UMSK. Á undanförnum misserum hefur verkefnið verið prófað og þróað innan UMSK og er nú svo komið að stærstu íþróttahreyfingar Íslands, Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ), hafa tekið höndum saman um það að koma verkefninu á framfæri út í íþróttahreyfinguna. Styrktaraðilar verkefnisins eru Íslensk Getspá og mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Vefsíða Sýnum karakter

Sýnum karakter á Facebook