20. mars 2020

Anna Dís mælir með netnámskeiði í samkomubanni

„Það er upplagt að nýta samkomubannið og taka gagnlegt netnámskeið Æskulýðsvettvangsins,“ segir Anna Dís Jónsdóttir, formaður fimleikadeildar Hattar á Egilsstöðum.

Anna hefur sjálf nýverið tekið netnámskeið Æskulýðsvettvangsins í Barnavernd fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsstarfi og ætlar að mæla með því hjá Hetti að starfsfólk og þjálfarar taki námskeiðið á meðan samkomubanninu stendur enda liggja æfingar iðkenda þar líkt og annars staðar á landinu niðri á meðan því stendur.

„Ég ætlaði að kynna námskeiðið fyrir þjálfurum í haust. En áður ákvað ég að taka námskeiðið sjálf. Það var mjög gagnlegt, maður rennir auðvitað í gegnum sum verkefnin en önnur þarf maður að lesa vel til að halda áfram. Ég hef auðvitað áður farið á sambærileg námskeið. En þarna lærði ég margt nýtt og rifjaði upp það sem ég hafði lært áður,“ segir Anna Dís.

„Ég mæli með netnámskeiði Æskulýðsvettvangsins,“ bætir hún við.

 

Um netnámskeið Æskulýðsvettvangsins

Netnámskeðið Barnavernd fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða í íþrótta- og æskulýðsstarfi er nýjung í fræðslu og forvörnum á Íslandi. Þar er fólki kennt að þekkja mismunandi birtingarmyndir ofbeldis, eineltis og annars áreitis sem börn og ungmenni geta orðið fyrir og læra hvernig á að bregðast við þegar slíkt atvik kemur upp.

Mikilvægt er að allir sem starfa með börnum og ungmennum séu meðvitaðir um skyldur sínar og ábyrgð. Um leið og ein félagasamtök leggja mikla áherslu á þekkingu starfsfólks og sjálfboðaliða leggja önnur enga áherslu á hana. Með því að bjóða upp á netnámskeið vill Æskulýðsvettvangurinn auðvelda félagasamtökum, starfsfólki þeirra og sjálfboðaliðum, að sækja sér slíka þekkingu.

 

Um Æskulýðsvettvanginn

Æskulýðsvettvangurinn er samstarfsvettvangur Bandalags íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi, Slysavarnafélagsins Landsbjargar og UMFÍ. Netnámskeiðið og þróun þess var styrkt af félagsmálaráðuneytinu, Æskulýðssjóði og Lýðheilsusjóði.

 

Námskeið Æskulýðsvettvangsins í barnavernd er opið öllum áhugasömum og er notendum að kostnaðarlausu.

Hér er hægt að nálgast frekari upplýsingar og námskeiðið sjálft með því að smella hér