16. október 2021

Anna og Kristján sæmd heiðursfélagakrossi UMFÍ

Anna Ragnheiður Möller og Kristján Elvar Yngvason bættust í gær við í hóp heiðursfélaga UMFÍ og væru sæmd heiðursfélagakrossi. Haukur Valtýsson, fráfarandi formaður UMFÍ, afhenti þeim viðurkenninguna, sem þau hljóta sem hafa starfað innan og á vegum ungmennafélagshreyfingarinnar um árabil.

 

Anna Ragnheiður Möller

Anna Ragnheiður Möller, hefur starfað innan íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar í áratugi. Hún hefur lengi búið í Garðabæ og var formaður fimleikadeildar Stjörnunnar um tíma. Hún var jafnframt formaður Stjörnunnar í þrjú ár, í stjórn knattspyrnudeildar og í ritnefnd félagsins. Þá var Anna í stjórn Fimleikasambandsins og framkvæmdastjóri þar í um tíu ár, í stjórn kvennahlaupsnefnd lengi. Anna var kjörin í stjórn UMFÍ árið 1997 og sat í henni jafnframt í tíu ár. Hún átti sæti í stjórn NSU og var þar formaður í áratug. Anna starfaði lengi hjá Evrópu unga fólksins og í framhaldi af því hjá Rannís.

Anna hefur alla tíð haft brennandi áhuga fyrir þátttöku barna og ungmenna í íþrótum og ætíð tekið þátt í sjálfboðaliðastarfi innan hreyfingarinnar.

Anna Ragnheiður Möller hefur verið heiðruð af UMFÍ, UMSK, FSÍ og ÍSÍ eða hlotið flest alla þær viðurkenningar sem fyrirfinnast, nema heiðursfélagakross UMFÍ. Þann kross hlýtur hún í dag.

 

Kristján Elvar Yngvason

Kristján er Mývetningur og var í ungmennafélaginu Mývetningi. Hann var formaður þar og sat í ein 15 ár eða þar til hann varð formaður Héraðssambands Þingeyinga.

Á myndinni hér að ofan má sjá Kristján með Jóhönnu dóttur sinni. Hún er þingforseti sambandsþings UMFÍ á Húsavík og var sæmd gullmerki UMFÍ sama kvöld og faðir hennar var gerður að heiðursfélaga UMFÍ. 

Kristján var kosinn í stjórn UMFÍ árið 1987 og sat í stjórninni í 14 ár, þar af í tíu ár sem gjaldkeri. Hann sat í fjölmörgum nefndum á vegum UMFÍ, var formaður landsmótsnefndar á Húsavík árið 1987 og Unglingalandsmótsnefnd á Dalvík. Þá var hann formaður Glímusambands Íslands í fjögur ár enda keppnismaður í glímu í áraraðir.

Kristján lék sér jafnframt á öðrum vettvangi, það er í knattspyrnu.

Kristján hefur alla tíð verið mikill ungmennafélagi og ávallt haft einkunnarorð UMFÍ „Ræktun lýðs og lands‟ að leiðarljósi.

Hann hefur verið heiðraður af UMFÍ, Glímusambandinu, HSÞ, ÍSÍ og víðar en hlýtur í dag heiðursfélagakross UMFÍ.

Hér að neðan má sjá þau ásamt Helgu Guðrúnu Guðjónsdóttur, fyrrverandi formanni UMFÍ, sem var gerð að heiðursfélaga á síðasta sambandsþingi UMFÍ.