30. janúar 2019

Áskorun að vera ekki innan rammans

Hjörtur Andri Pétursson er níu ára og yngstur þriggja systkina. Hann hefur æft fimleika frá því að hann var í krílahópi, fimm ára. Hjörtur hefur alltaf leikið sér með dúkkur og stúlknaleikföng en lætur bíla og annað, sem tengist strákum, eiga sig. Hann á vinkvennahóp, æfir með þeim fimleika og vill keppa með stelpunum. Er það hægt og hvernig bregðast íþrótta- og ungmennafélögin við þeim óskum?

„Ég hef barist fyrir Hjört frá því að hann byrjaði bæði í íþróttum og skóla því að hann passar ekki inn í þann samfélagslega ramma sem er gefinn fyrir stráka og stelpur. Hann hefur alltaf verið í stelpugírnum, aldrei leikið sér með bíla eða verið í strákatölvuleikjum. Börn á þessum aldri elta vinina, alveg sama hvort þeir eru stelpur eða strákar. Það er ekki síður krefjandi fyrir íþróttafélögin en leiðinlegt fyrir foreldrana að þurfa að berjast fyrir börnin sín,“ segir Ellen Óttarsdóttir, móðir Hjartar.

Hjörtur byrjaði að æfa í Íþróttaskóla FIMA hjá Íþróttabandalagi Akraness fimm ára en hefur upp á síðkastið æft fimleika hjá ungmennafélaginu Aftureldingu í Mosfellsbæ. Hann æfir með stúlkunum og vill keppa með þeim.

 

Hjörtur og stelpurnar

Ellen segir Hjört alltaf hafa sótt í stelpur og fengið að vera með þeim í flokki, bæði á æfingum og í keppnum. Litið hefur verið á það sem sjálfsagt mál þar sem hann er einungis níu ára. Móðir hans hefur óþreytandi talað máli hans

.

 

„Hann hefur fengið að æfa fimleika með stelpunum fram til þessa. Ég býst ekki við öðru en að hann fái að æfa með þeim fram að kynþroskaaldri enda eru líkamar þeirra allra eins núna. Hann hefur líka fengið að keppa á mótum. En ég veit ekki hversu lengi hann fær að gera það. Þegar hormónarnir koma til sögunnar verða strákarnir sterkari en stelpurnar og keppnin því ósanngjarnari. En á meðan þau eru börn og ekki orðin kynþroska ætti að vera í lagi að strákar og stelpur keppi saman. Þegar hann verður eldri mun hann vonandi eiga auðveldara með að skilja að hann getur ekki keppt við þær og fer í strákahóp,“ segir Ellen og bætir við að það væri leiðinlegt fyrir Hjört ef hann hefði ekki fengið að fylgja stelpunum. Ef það hefði verið raunin væri líklegt að hann hefði hætt í íþróttum.

„Ég get ekki ímyndað mér í hvaða íþrótt hann myndi fara ef hann fengi ekki að æfa og keppa í fimleikum því að allir vinir hans gera það. Þá myndi hann detta út úr íþróttum sem væri sorglegt,“ segir hún.

 

Þarf að bíða á kantinum

Ellen segir stjórnendur og starfsmenn íþróttafélaganna hafa tekið vel í óskir þeirra foreldranna um æfingar með stelpuhópnum. Þegar Hjörtur fer í keppni í fimleikum vandast málið og hefur Ellen þurft að óska eftir því sérstaklega hjá Fimleikasambandi Íslands að hann fái að keppa með vinkonum sínum og æfingafélögum á mótum.

 

 

„Þetta hefur gengið vel en verið svolítill barningur frá því að hann komst á þann aldur að fara að keppa. Þá var vafamál hvort hann mætti keppa með stelpunum. Ég skrifaði Fimleikasambandi Íslands bréf og þurfti að bíða lengi eftir svari. Þetta var svolítið ósanngjarnt. Á meðan stelpurnar voru allar að undirbúa sig vissi hann aldrei hvort hann fengi að vera með þeim, fyrr en korter í mót,“ segir Ellen.

 Hjörtur hefur ætíð öðlast undanþágu á keppnisrétti á fimleikamótum hjá Fimleikasambandinu. Ellen segir það verða æ erfiðara eftir því sem hann eldist. Ellen bætir því við að hvorki hún né faðir hans hafi sagt honum hvað þau þurfi að leggja mikið á sig svo að hann geti æft með vinkonum sínum og keppt við þær í fimleikum.

„Hann verður ekki var við það sem við gerum á bak við tjöldin því að hann er svo ungur. En hann vissi af því í fyrra að það lék vafi á því hvort hann fengi að keppa eða ekki. Hjörtur er enn sem komið er sáttur. Ég er ekkert að útskýra það fyrir honum núna. En hann veit auðvitað að hann er strákur og ég veit að ég þarf að taka slaginn þegar hann kemur.“ 

Ellen segir að þegar leyfi Fimleikasambandsins hafi loksins skilað sér í fyrra hafi hann fengið að keppa með stelpunum.

„Fyrstu svör voru á þann veg að hann fengi að keppa en hans stig myndu ekki telja sem við tókum ekki í sátt. Við samþykktum það ekki enda ekki tækt að keppa og gera sitt besta en þegar á hólminn væri komið uppskæri hann ekkert fyrir framlag sitt. Niðurstaðan varð svo að hann yrði metinn jafnt á við stelpurnar.“ segir Ellen.

 

Börnin geti verið öll saman

Hvaða ráð ertu með handa íþrótta- og ungmennafélögum þegar þau standa frammi fyrir þessari áskorun?

„Ég vil auðvitað að börnin geti öll verið saman og sé ekkert að því. En ég skil alveg að skipta þarf þeim eftir kynjum þegar komið er á kynþroskaaldur. Í öllum íþróttum verða strákarnir sterkari, sama hver greinin er, þegar börnin vaxa upp. Þótt erfitt sé að hugsa til þess er það ekki sanngjarnt að börnin geti verið saman þá. Ekki nema breytingar verði gerðar á stigagjöf með einhverjum hætti eða hún útfærð á nýjan hátt,“ segir Ellen en bætir við að þarna reyni á. Keppendur af kvenkyni með mikið skap gætu orðið fúlir yfir að tapa fyrir strák nema breyting yrði gerð á stigagjöf.

„Við sjáum í raun ekki vandamál heldur teljum að alltaf sé hægt að hugsa hlutina upp á nýtt. Líka í keppnisíþróttum. Yfirleitt liggur vandamálið hjá foreldrunum sjálfum, í skólunum og íþróttafélögum,“ segir hún.

„Börnin sjálf sjá ekkert athugavert við að hafa hann þarna enda er hann hluti af hópnum.“

 

Viðurkennum börn eins og þau eru

Foreldrar Hjartar þurfa að ræða bæði við skóla og íþróttafélög og sérstaklega foreldra á báðum stöðum um það við hverja Hjörtur leikur. „Þetta er svolítið erfitt í bekkjarafmælum í skólanum. Ekki þegar öllum bekknum er boðið heldur þegar kynjunum er skipt upp. Hjörtur hefur engan áhuga á afmælum strákanna og vill fara með stelpunum í þau. Þegar ég kynni hann fyrir foreldrum í nýjum bekk segi ég: Hjörtur er bara svona og hann leikur sér bara við stelpur. Má hann koma í stelpuafmæli?“

 

Verðum að taka honum eins og hann er

Ellen segir að lokum sumt fólk hafa undrast að þau foreldrar Hjartar skuli standa í þessu.

„Fólk í kringum okkur segir stundum: Guð minn góður, eruð þið í alvöru að ýta undir þetta? Það breytir engu um það hvað við gerum í dag og hvernig Hjörtur verður í framtíð- inni. Við verðum að taka honum eins og hann er. Við getum aðeins ímyndað okkur hvað honum liði illa ef við gerðum það ekki. Þetta verð- ur enginn dans á rósum hjá honum. Vonandi mun hann hafa þroska til að takast á við það hvernig hann er. En það er hlutverk okkar að gera grunninn góðan,“ segir Ellen, móðir Hjartar Andra.

Ellen segir eina móður hafa hafnað því að bjóða honum í stelpuafmæli, dóttir hennar eigi svo marga strákavini að hún ætli að halda afmæli aðeins fyrir stelpurnar,“ segir Ellen.

„Það þarf að viðurkenna börnin eins og þau eru. Það er talað um að það sé gert í þjóðfélaginu en er það þannig í raun? Allavega, þegar börn eru eins og Hjörtur rekur maður sig á veggi.“

 

Fjallað er um framtíðina og mismunandi þarfir iðkenda í ítarlegri umfjöllun í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. 

Á meðal efnis í blaðinu: 

  • Áskorun að vera ekki innan rammans: Hjörtur Andri er níu ára. Hann hefur alltaf leikið sér með dúkkur og stúlknaleikföng og keppir með vinkonum sínum í fimleikum.
  • Jeffrey Thomson segir gleðina halda fólki í íþróttum.
  • María Helga Guðmundsdóttir hjá Samtökunum '78 heldur fyrirlestra um íþróttir án hinsegin fordóma.
  • Komið til móts við iðkendur.
  • Hvernig eiga samskipta að vera í íþrótta- og æskulýðsstarfi?
  • Hvað er að frétta af framtíðinni? Þarfir iðkenda skoðaðar.

 

Lesa Skinfaxa á PDF