30. apríl 2021

Ásmundur Einar: Hefjum störf hentar félagasamtökum

„Við vitum að almennt eru félagasamtök ekki með mikið aflögu. Mikilvægt er því að virkja sem flesta til að taka þátt í átakinu Hefjum störf. Átakið gagnast félagasamtökum afar vel,“ segir Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. Hann kynnti átakið fyrir fulltrúum ýmissa frjálsra félagasamtaka á fjarfundi í gær.

Ásmundur lagði áherslu á atvinnusköpun til að koma efnahagslífinu aftur í gang eftir COVID-faraldurinn og neikvæð áhrif hans.

Fram kom á fundinum að búið er að skrá um 3.500 störf í átaksverkefninu Hefjum störf og gera þúsund samninga. Ráðningastyrkir og tilheyrandi fylgja frá hinu opinbera með störfunum.

Á fundinum ræddu Brynjólfur Jónsson hjá Skógrækt Íslands og Auður Anna Magnúsdóttir hjá Landvernd um það hvernig þau hyggist nýta sér átakið við sköpun ýmissa starfa. Þar á meðal var stígagerð, hreinsun strandlengjunnar, viðhald á húsum og kynning á starfi Landverndar.

Þóra Ágústsdóttir hjá Vinnumálastofnun kynnti svo ítarlega úrræðið fyrir fundargestum. Hún sagði átakið afar jákvætt, sérstaklega að frjáls félagasamtök geti nýtt sér það. Hún benti m.a. á að hægt sé að ráða fólk sem hafi verið í atvinnuleit allt niður í einn mánuði bæði í fullt starf og hlutastörf til sex mánaða. Ráðningarstyrkir sem fylgi með verði í samræmi við starfshlutfall.

Þóra benti á að félagasamtök sem ætli sér að nýta úrræðið þurfi að hafa starfsmann á launaskrá þótt ekki sé um fullt starf að ræða.

Það sama gildir um námsmannastyrkinnn, sem gerir félagasamtökum kleift að ráða námsmenn 18 ára og eldri í tvo og hálfan mánuð. Opnað verður fyrir umsóknir í það úrræði 10. maí næstkomandi.

Fram kom á fundinum að forráðafólki félagasamtakanna sem leita starfskrafta hvort sem er í námsmannaúrræðinu eða Hefjum störf að ræða við umsækjendur um störfin.

Horft er til þess að ráðning í báðum átaksverkefnum geti endað með fastráðningu viðkomandi, að sögn Þóru, sem jafnframt hvatti atvinnuleitendur til að sækja um störf á Mínum síðum Vinnumálastofnunar.

 

Meira um: Hefjum störf

Meira um: Námsmannaúrræði

Vefsíða Hefjum störf