22. desember 2021

Ásmundur Einar: Skoðar framlengingu á úrræðum fyrir íþrótta- og æskulýðsstarf

„Þetta verður samvinnuverkefni okkar allra. Við munum vakta hvaða tæki og tól vantar til að halda starfseminni gangandi,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra. Hann fundaði í morgun með lykilaðilum í íþrótta- og æskulýðshreyfingunni vegna hertra aðgerða til að hefta útbreiðslu COVID-faraldursins. Ráðherra lýsti tilgangi fundarins með þeim hætti að honum væri ætlað að gera forsvarsfólki íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar kleift að tjá sig um stöðuna í skugga faraldursins og rætt um áhrifin af völdum aðgerða yfirvalda.

Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, og Jón Aðalsteinn Bergsveinsson, kynningarfulltrúi UMFÍ og ritstjóri Skinfaxa, tímarits UMFÍ, voru þátttakendur á fundinum fyrir hönd UMFÍ.

Nýjar og hertar sóttvarnareglur taka gildi á miðnætti, aðfaranótt 23. desember.

Ásmundur Einar sagði að þótt vísbendingar væru um að faraldurinn væri í uppsveiflu þá væri þjóðin betur í stakk búin að bregðast við honum og afleiðingum hans, þar á meðal sóttvarnaaðgerðum.

Hann sagði jafnframt tilgang fundarins þá að segja forsvarsfólki í íþrótta- og æskulýðshreyfingunni að því standi ævinlega dyrnar opnar og geti það kallað eftir fundi sem þessum hvenær sem þurfa þyki.

Ásmundur Einar var spurður út í þau úrræði sem stjórnvöld hafi kynnt til sögunnar verða faraldursins til þessa, þar á meðal stuðning vegna launa- og verktakagreiðslna sem rennur út um áramótin. Hann sagði verið að kanna ýmistlegt, m.a. framlengingu á úrræðum. Ásmundur sagðist sjá mikil tækifæri framundan í málefnum barna og sér marga snertiflötum fyrir börn með aðkomu íþrótta- og æskulýðsfélaga að málaflokknum.

„Við munum öllum leggjast á sveifina,“ sagði hann og áréttaði mikilvægi þess að sem flestir snúi bökum saman vegna aðgerða í faraldrinum.