18. nóvember 2020

Auður hjá UMFÍ: Hjálpar til að allir geti verið með

„Það er afar ánægjulegt að sjá stjórnvöld setja börn og ungmenni í fyrsta sætið því forvarnargildi skipulags íþrótta- og æskulýðsstarfs er ótvírætt. Við höfum beðið eftir þessu úrræði síðan í vor og gleðjumst yfir því að það sé orðið að veruleika,“ segir Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ.

Félagsmálaráðuneytið gerir nú tekjulágum fjölskyldum kleift að sækja styrki upp á 45.000 krónur vegna íþrótta- og tómstundastarfs barna fædd á árunum 2005-2014. Heildartekjur framfærenda, einstaklings, hjóna eða sambúðarfólks þurfa að vera lægri en 740.000 krónur á mánuð.

Styrkurinn er á meðal aðgerða stjórnvalda vegna COVID-19.

 

 

Fólk sem fellur innan þessa ramma getur sótt um styrkinn til viðkomandi sveitarfélags og kannað hvort það eigi rétt á honum á www.island.is.

Styrkurinn miðast við íþrótta- og tómstundaiðkun barna og ungmenna skólaárið 2020-2021 og er hægt að sækja um styrkinn til og með 1. mars 2021.

Styrkurinn nær til allra barnafjölskyldna á Íslandi sem falla undir tekjuviðmið verkefnisins og verður það kynnt á níu tungumálum.

Auður bætir við að aðgerðir stjórnvalda og styrkurinn til tekjulægri fjölskyldna sé mikilvægt innlegg gegn neikvæðum áhrifum COVID-faraldursins og hjálpi til við að gera öllum kleift að vera með og taka þátt í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. 

 

Myndin hér að ofan var tekin þegar Ásmundur Einar Daðason kom í heimsókn í þjónustumiðstöð UMFÍ.

Sjá: Opnað fyrir styrki til fjölskyldna fyrir íþrótta- og tómstundastarf barna