11. janúar 2018

Baldur Þorleifsson hjá Snæfelli: Ég er nú að gefa til baka

„Þetta er mjög skemmtilegt. Ég var mjög lengi keppnismaður og er nú að gefa til baka,“ segir Baldur Þorleifsson, aðstoðarþjálfari kvennaliðs Snæfells í körfuknattleik. Baldur keppti lengi með meistaraflokki Snæfells í körfubolta og Víkingi Ólafsvík í knattspyrnu. Hann þjálfar nú yngri flokka Snæfells í körfubolta en meistaraflokkinn í sjálfboðavinnu.

Um Baldur er sagt að hann sé ungmennafélagsandinn í hnotskurn. Hann hefur verið aðstoðarþjálfari Snæfells í áratug. Hann ver miklum tíma í íþróttastarfið sem að mestu er í sjálfboðavinnu, ekur keppendum á keppnisdögum og margt fleira.

„Það fer drjúgur tími í þetta og oft fer ég úr vinnu til að keyra þær á keppni. En mér finnst þetta gaman. Það er gaman að vinna með áhugasömu og kröftugu fólki. Maður yngist líka við það,“ segir Baldur Þorleifsson.

 

Ungmennafélög keppa

Kvennaliði Snæfells hefur gengið mjög vel og keppir í undanúrslitum í Maltbikarnum 2018. Skemmtilegt er frá því að segja að kvennaliðin fjögur sem keppa í undanúrslitunum eru allt ungmennafélög. Þetta eru auk Snæfells Keflavík, Skallagrímur og Njarðvík.

Ungmennafélagið Snæfell er frá Stykkishólmi og er það aðildarfélag Héraðssambands Snæfells- og Hnappadalssýslu (HSH), Skallagrímur er aðildarfélag Ungmennasambands Borgarfjarðar (UMSB) og bæði ungmenna- og íþróttafélagið Keflavík og Ungmennafélagið Njarðvík eru með beina aðild að UMFÍ.

Meira um sambandsaðila UMFÍ

Meira um undanúrslitin í Maltbikarnum