28. september 2018

Bergrún ætlar að prófa allskonar íþróttir á Paralympic-deginum

„Mér finnst gaman að prófa ýmsar íþróttir og hef þess vegna farið nokkrum sinnum á Paralympic-daginn,“ segir frjálsíþróttakonan Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir. Hún tók þátt í keppni í frjálsum íþróttum á Landsmótinu á Sauðárkróki í sumar og hefur náð mjög góðum árangri á mótum fatlaðra. Þar á meðal vann hún þriðju verðlaun á Evrópumeistaramóti fatlaðra í Berlín í ágúst. Á Landsmótinu í sumar keppti Bergrún í frjálsum en prófaði líka að keppa í sundi.

Bergrún ætlar að fara á Paralympic-daginn sem verður haldinn fjórða árið í röð laugardaginn 29. september í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal á milli klukkan 13:00 – 16:00.

 

Flott að fatlaðir og ófatlaðir æfi saman

Paralympic-dagurinn hefur fest sig í sessi sem einn af skemmtilegri dögum í íþróttalífi fatlaðra. Á deginum geta nefnilega gestir og gangandi kynnt sér starfsemi aðildarfélaga Íþróttasambands fatlaðra og prófað allskonar íþróttagreinar.

 

 

Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri Special Olympics á Íslandi, segir Paralympic-daginn nauðsynlegan fyrir íþróttalíf fatlaðra en stórskemmtilegan enda mikið í boði fyrir þá sem vilja prófa margar greinar. M.a. verða kynntir nútímafimleikar fatlaðra, taekwondo, spjótkast og spretthlaup auk þess sem hjólakonan Anna Sigríður ætli að mæta. Margt fleira verður gert til að halda fjörinu gangandi. Það gerir m.a. tónlistarmaðurinn og fjölmiðlamaðurinn Jón Jónsson gera.

Anna Karólína bendir á að unified-íþróttir hafi vaxið mikið upp á síðkastið. Í unified-greinum keppa fatlaðir og ófatlaðir saman. Hún nefnir sem dæmi samstarf Special Olympics með Haukum í Hafnarfirði en þar er í farvatninu að fatlaðir og ófatlaðir 6-12 ára æfi saman körfubolta.

„Þetta er orðinn fastur liður á íþróttamótum hér og í öðrum löndum og mun aukast áfram,“ segir hún.

 

Paralympic-dagurinn verður sem fyrr segir í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal laugardaginn 29. september á milli klukkan 13:00 – 16:00.

Meiri upplýsingar: Facebook-síða Paralympic-dagsins