07. mars 2018

Björn Grétar: Mælir með því að ungt fólk sækist til áhrifa

Björn Grétar Baldursson er yngsti einstaklingurinn til að setjast í aðalstjórn UMFÍ í sögu hreyfingarinnar í 108 ár. Hann var kosinn í stjórnina á 49. sambandsþingi UMFÍ 2015. Á 50. sambandsþingi UMFÍ gaf Björn ekki kost á sér til áframhaldandi setu. Björn sat í tvö ár í aðalstjórn UMFÍ og í níu ár í Ungmennaráði UMFÍ. 

 

Byrjaði í ungmennaráði UMFÍ

Björn segir að það hafi verið tilviljun fremur en einbeittur vilji hans sjálfs sem varð til þess að hlutirnir röðuðust svona upp hjá honum og að hann hafi sest í ungmennaráðið. Hann var þá 16 ára og árið var 2008.

 

 

„Þetta byrjaði allt á því að ég var spurður að því hvort ég vildi fara á ráðstefnu til Þýskalands. Ég var auðvitað til í það. En þá var mér sagt að þetta væri um næstu helgi og að ég yrði að skrá mig í ungmennaráð UMFÍ. Ég hugsaði ekkert út í það, pakkaði bara og brunaði suður,“ segir Björn Grétar, sem þá var nemandi við Framhaldsskólann á Laugum og hafði keppt í frjálsum undir merkjum Héraðssambands Þingeyinga (HSÞ).

Björn Grétar kom inn í ungmennaráð UMFÍ í stað Gunnars Sigfússonar sem þá var að hætta. Björn Grétar segir ráðstefnuna í Þýskalandi hafa verið áhugaverða. Hún fjallaði um það hvað félagasamtök gætu gert til að virkja sjálfboðaliða og halda í þá. Hann lærði mikið af þessu sem nýtist honum í félagsstarfi enn í dag. 

Björn Grétar segist ekki hafa gert mikið í ungmennaráðinu fyrstu árin. „Ég var mjög hlédrægur, sat aftast á öllum fundum og vissi í raun ekki hvert hlutverk mitt væri. Við vorum heldur ekki að gera mikið í Ungmennaráðinu. Ég upplifði það sem uppfyllingu. Það var ekki fyrr en við fórum út í stærri verkefni á borð við ungmennaráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði sem ég fór að láta til mín taka. Þá færði ég mig framar á fundum. Ég fór líka ósjálfrátt að hafa sterkari skoðanir og segja frá áliti mínu. Það var líka þá sem ég fann hverju Ungmennaráðið gat áorkað ef það vildi og hvert það stefndi.

Utanumhald þarf að vera gott Björn Grétar segir breytta áherslu á utanumhaldi Ungmennaráðsins hafa skipt miklu og hreyft við honum að fara að vinna meira. Þarna átti það sama við um Ungmennaráð UMFÍ og önnur verkefni sem ungt fólk kemur að. 

 

 

„Oft eru hópar ungmenna mataðir, komið er með hugmyndir til þeirra og sagt hvað þau eigi að gera. Í ungmennaráði UMFÍ er stjórnin sett í hendur ráðsins. Starfsmaður UMFÍ vinnur með ráðinu, veitir því stuðning og aðstoðar við fjármögnun á hugmyndum þess. Þegar ég tók eftir þessu fann ég að ég hafði eitthvað til málanna að leggja, sjálfstraustið jókst og ég þurfti að nota gagnrýna hugsun til að horfa á viðfangsefnin með öðrum augum. Ef virkja á ungt fólk er farsælast að láta stjórnina í hendur þess frekar en að láta hina eldri um að ákveða hvað unga fólkið vilji. Starfsmaðurinn eða þeir sem eldri eru vinni svo að því að láta óskir ungmennanna verða að veruleika eða sýni þeim að öðrum kosti að hugmyndirnar eigi ekki stoð í veruleikanum,“ segir Björn og þakkar Sabínu Halldórsdóttur, landsfulltrúa UMFÍ, fyrir ótrúlega gott starf.

„Sabína hefur verið tengiliðurinn okkar. Hún hefur haldið utan um okkur og verið dugleg að spyrja okkur hvernig við viljum láta hugmyndir rætast. Þar að auki hefur Sabína reynslu og menntun til að koma okkur áfram.“

 

Meira sjálfstæði er gott

Ungmennaráð UMFÍ hefur frá 2009 haldið ungmennaráðstefnuna Ungt fólk og lýðræði á hverju ári og verkefni þau sem fjallað hefur verið um hafa verið breytileg frá ári til árs. Björn Grétar segir minnisstæðasta verkefnið vera ráðstefnuna Stjórnsýslan og við sem var haldin á Ísafirði 2014. 

„Þetta var eins og tilraunaverkefni því að þarna var öll stjórn ráðstefnunnar sett í hendurnar á okkur ungmennaráðinu, allar umræður, spurningar, aðferðin og vinnustofur. UMFÍ hélt utan um ráðstefnuna og leiddi okkur á réttar brautir ef við vorum að fara út af. Vel tókst til þannig að þetta fyrirkomulag er enn svona,“ segir Björn Grétar. 

 

 

Meiri og sjálfstæðari vinnubrögð hjá Ungmennaráði UMFÍ og aukið þor leiddi til þess að hann fékk áhuga á setu í stjórn UMFÍ. Björn ætlaði hins vegar í fyrstu aðeins að taka sæti í varastjórn. Um þetta leyti var meðalaldur í stjórn UMFÍ 47,63 ár. Björn var á þessum tíma 22 ára. Þegar hann tók sæti í stjórninni lækkaði meðalaldur stjórnar um átta ár og fór niður í 39,36 ár. Í aðalstjórn sitja sjö en fjórir í varastjórn. Fleira spilaði inn í því að á sama tíma tók Þorgeir Tryggvason, sem er þremur árum yngri en Björn, sæti í varastjórn. Fyrir  oru líka, undir þrítugu, Hrönn Jónsdóttir í aðalstjórn og Sigurður Óskar Jónsson í varastjórn.

Björn segist hafa viljað sjá fleiri málsvara fólks undir 30 ára aldri í stjórn UMFÍ og því ákveðið að gefa kost á sér. 

„Ég átti reyndar enga von á því að komast í aðalstjórn á þinginu í Vík í Mýrdal. Ég var þá í Háskóla Íslands að læra tómstunda- og félagsmálafræði og sá þetta haldast í hendur. En mikill tími fór í að átta mig á UMFÍ. Það var ekki eins klippt og skorið og ég hélt og allt flóknara en í ungmennaráðinu. Á þessum tíma var ég að ganga í gegnum miklar breytingar í einkalífinu. Ég trúlofaðist, flutti norður á Akureyri og eignaðist barn. Þetta allt hafði áhrif á vinnuna hjá UMFÍ, því gat ég ekki komið öllu til skila sem ég vildi og hætti af þeim sökum,“ segir Björn Grétar. 

Á ungt fólk þá ekki að fara í stjórn UMFÍ? 

 

 

„Jú, auðvitað. En það tekur tíma að læra og venjast stjórnarstörfum. Ég myndi byrja á því að vera virkur innan ungmennafélagsins míns og bjóða mig síðan fram í varastjórn UMFÍ. Þar er gott að kynnast starfsemi stjórnar UMFÍ og vekja athygli á sér. Ég hefði viljað vera tvö ár í viðbót. En ég taldi farsælla að víkja til hliðar í nokkur ár fyrir einhverjum sem gæti gert betur en ég. Ég mundi vilja koma aftur eftir nokkur ár,“ segir Björn Grétar og leggur áherslu á að hann sé mjög spenntur fyrir stjórn UMFÍ sem nú situr. 

„Það eru miklar breytingar í gangi hjá UMFÍ sem ég hlakka til að sjá,“ segir Björn Grétar.

 

Hvað get ég gert?

Eins og áður sagði var Björn Grétar 16 ára og hafði engan áhuga á stjórnmálum og pólitík þegar hann settist í ungmennaráð UMFÍ árið 2008.

„Mér fannst ég of ungur, ég bjó úti í sveit og upplifði mig þannig að ég hefði ekkert vit á pólitískri hugsun enda var ekki verið að miðla henni til okkar unga fólksins og því höfðum við ekki áhuga á pólitík. Það sem næst komst henni var Spaugstofan um helgar. En þessa hugsun þarf að virkja eins og annað. Margir 15–17 ára unglingar segjast ekki hafa áhuga á pólitík. Það er algjör vitleysa. Þvert á móti er þetta fólkið sem á að vera virkir þátttakendur í samfélaginu. Það verður að virkja það,“ segir Björn og áréttar ályktun frá ráðstefnunni Ungt fólk og lýðræði vorið 2017. Ályktunin fól í sér að fulltrúar ungmennaráða fái að sitja fundi hjá sem flestum nefndum innan sveitarfélaga, að æskilegt sé að breyta lögum og samræma reglur ungmennaráða um land allt með þarfir ungs fólks að leiðarljósi. Samhugur var um lækkun kosningaaldurs í sveitarstjórnarkosningum úr 18 árum í 16.

„Mín skoðun er sú að það eigi að lækka kosningaaldur innan sveitarfélaga niður í 16 ára. Í fyrsta lagi gerir það að verkum að sveitarstjórnir þurfa að höfða til yngri kynslóðarinnar svo að hópurinn fái áhuga á sveitarstjórnarmálum. Auðvitað er ekki hægt að höfða til allra. En þeir sem hafa það geta haft áhrif.“

En hvaða áhrif hafði stjórnarseta á Björn?

„Hún hafði áhrif á mig sem manneskju. Það að sitja í ungmennaráði og stjórn UMFÍ hefur eflt gagnrýna hugsun mína og eflt félagsvitundina. Nú er ég orðinn meðvitaðri um nærumhverfi og samfélagið mitt en áður. Nú er ég farinn að hugsa: Hvað get ég gert?“

 

Viðtalið við Björn Grétar er í síðasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Þú getur nálgast eintak af blaðinu í íþróttahúsum og sundlaugum um allt land og hjá sambandsaðilum UMFÍ. Þú getur náð í blaðið á PDF-formi á vefsíðu UMFÍ

Ráðstefnan Ungt fólk og lýðræði fer fram dagana 21. - 23. mars nk. á hótel Borealis Efri- Brú í Grímsnes- og Grafningshreppi. Yfirskrift ráðstefnunnar 2018 er Okkar skoðun skiptir máli! 

Meira um Ungt fólk og lýðræði 2018