12. mars 2018

Björn, Sigurlína og Skúli sæmd starfsmerki UMFÍ

Björn Hansen, Sigurlína Hrönn Einarsdóttir og Skúli V. Jónsson voru öll sæmd starfsmerki UMFÍ á héraðsþingi Ungmennasambands Skagafjarðar (UMSS), sem fram fór á Sauðárkróki á laugardag. Á þinginu tók Ingibjörg Klara Helgadóttir við sem formaður UMSS af Arnúnu Höllu Arnórsdóttur, sem gaf ekki kost á sér áfram eftir eins árs setu sem formaður. Arnrún settist engu að síðu í varastjórn UMSS.

Björn Hansen er fæddur á Selfossi 30. desember árið 1956 en er samt orðinn „skagfirskur“. Hann hefur unið ötuls starf hjá körfuknattleiksdeild Tindastóls í áraraðir, er sanngjarn og duglegur og hefur verið gjaldkeri, bílstjór, reki sjoppu á heimaleikjum og margt fleira. Hann hlýtur starfsmerkið fyrir ósérhlífið starf og einstaka elju fyrir rekstur körfuknattleiksdeildar Ungmennafélags Tindastóls á Sauðárkróki.

Sigurlína Hrönn Einarsdóttir er fædd árið 1978 og býr í Skagafirði. Hun hefur í mörg ár verið stjórnarmaður í Ungmenna- og íþróttafélaginu Smára. Hún hefur unnið vel að þróun og starfsemi félagsins með þarfir iðkenda að leiðarljósi og ætíð verið dugleg að ræða við þá og heyra rödd þeirra.

Skúli V. Jónsson er fæddur árið 1960 og býr á Sauðárkróki. Hann hefur lengi komið að starfi Tindastóls, aðallega í tengslum við knattspyrnu og körfubolta en aðstoðað líka aðrar deildir. Hann hefur setið í stjórnum, verið framkvæmdastjóri, bílstjóri keppnisliða barna og fullorðinna og komið að fjölmörgum öðrum verkefnum.

Á myndinni hér að ofan má sjá þau sem sæmdi voru starfsmerki UMFÍ á þingi UMSS. Með þeim á myndinni lengst til hægri en Gunnar Þór Gestsson, varaformaður UMSS.

Hér að neðan má sjá Ingibjörgu Klöru ásamt Arnrúnu Höllu.

Landsmótið verður einmitt haldið á Sauðárkróki. 

Hefur þú skoðað dagskránna? Kíktu á www.landsmotid.is