30. janúar 2019

Börn þurfa að fá að njóta vafans

Fólki er ekki kunnugt um þá ríku skyldu sem allir hafa til að tilkynna um mál verði þeir varir um mögulega vanrækslu eða ofbeldi gegn börnum. Komi upp ásakanir um kynferðisbrot eða aðra birtingarmynd ofbeldis innan ungmenna- og íþróttafélaga þá er vafasamt að vinna málið innan félagsins. Vinnslan verður að fara úr félaginu, að sögn dr. Salvarar Nordal, umboðsmanns barna.

Salvör var með erindi á ráðstefnunni Eru íþróttir leikvangur ofbeldis, sem fram fer í Háskólanum í Reykjavík. Að ráðstefnunni standa Íþróttabandalag Reykjavíkur, ÍSÍ, UMFÍ, Mennta- og menningarmálaráðuneytið og Háskólinn í Reykjavík. 

Í erindi sínu sagði Salvör mikilvægt að koma upp skýru verklagi og skrá öll mál svo þau fái viðeigandi meðferð. Hún nefndi meðal annars að erfitt sé að greina mál sem komi til yfirvalda. Hjá Barnavernd Reykjavíkur þurfi að kafa djúpt í gögn til að sjá hvaða mál komi úr íþróttastarfi og hvaða mál komi annars staðar frá.

Salvör sagði jafnframt þjálfara vinna náið með börnum. Verði þeir varir við vanrækslu af hvaða toga sem það er þá beri að tilkynna það.

„Við heyrum stundum að ekki er hlustað á barn sem kvartar eða gert grín að athugasemdum þess. En börn þurfa að fá að njóta vafans og að fundin verði leið til að tala við þau,“ sagði hún.

 

Mun fleiri erindi hafa verið flutt á ráðstefnunni, þar á meðal nokkur þar sem þolendur kynferðisofbeldis hafa lýst sársaukafullri reynslu sinni. Þar á meðal var Karen Leach, fyrrverandi sundkona frá Írlandi, sem lýsti kynferðisofbeldi sem þjálfari hennar beitti hana um árabil. Þjálfarinn hlaut síðar 12 ára dóm vegna brota gegn 18 stúlkum. Karen var 17 ára þegar hún steig fram og greindi frá ofbeldinu en hefur glímt við alvarleg sálræn vandamál vegna ofbeldisins sem hún varð fyrir.

Áherslan á ráðstefnunni er á birtingarmyndir ofbeldis innan íþrótta, leiðir til að bregðast við ofbeldinu, vinna úr málum sem koma upp og vinna að því að koma í veg fyrir ofbeldi eigi sér stað.

 

UMFÍ umber ekki ofbeldi

Kynferðisbrot líðast ekki innan UMFÍ. Allar tilkynningar um kynferðisbrot skal taka alvarlega og er óheimilt að afgreiða ætluð kynferðisbrot innan sambandsaðila og aðildarfélaga.

Ýmsar leiðir eru til að fyrirbyggja brot og vinna að úrlausn þeirra sem upp koma.

UMFÍ hefur gefið út siðareglur sem veita leiðbeiningu um breytni og siðferðislega ábyrgð þeirra sem þær taka til. Þær byggja á þeim gildum sem UMFÍ vill að séu ráðandi í öllu starfi hreyfingarinnar: Virðing - jafnrétti – lýðræði – ábyrgð.

 

UMFÍ er jafnframt aðili að Æskulýðsvettvanginum (ÆV) ásamt Bandalagi íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi og Slysavarnafélaginu Landsbjörg. ÆV hefur gefið út viðbragðsáætlun fyrir félagasamtökin. Í viðbragðsáætluninni eru verkferlar sem nýta má þegar atvik eða áföll verða. Dæmi um atvik sem viðbragðsáætlunin nær til eru agabrot, ávana- og vímuefnanotkun, einelti, kynferðisbrot, alvarleg veikindi, áföll, slys og andlát.

 

Hvað get ég gert?

Sambandsaðilar geta auk þess haft samband við þjónustumiðstöð UMFÍ sé frekari upplýsinga óskað.

Félög innan UMFÍ geta jafnframt veitt heimild til upplýsingaöflunar um þjálfara og starfsfólk viðkomandi aðildarfélaga úr sakaskrá ríkisins.

 

Hér að neðan eru upplýsingar um helstu leiðir UMFÍ komi upp brot í félagi eða brotið á félagsmanni.

Viðbragðsáætlun Æskulýðsvettvangsins

Siðareglur UMFÍ

Heimild til upplýsingaöflunar úr sakaskrá ríkisins

Námskeiðið Verndum þau

 

Meira um ráðstefnuna Eru íþróttir leikvangur ofbeldis?