13. júlí 2021

Bubbi: Magnað að sjá Pelé lesa Skinfaxa!

„Þetta er algjörlega magnað! Þetta ætti að vera aðal fréttin, bara alltaf,“ segir Guðbjörn Arnarson. Hann rak upp stór augu þegar hann fann fjölda af myndum af knattspyrnugoðinu Pelé skoða Skinfaxa og ræða við unga aðdáendur á íþróttavelli á Egilsstöðum. Guðbjörn hafði enga hugmynd um að Pelé hefði komið hingað til lands, hvað þá að hann hefði nokkru sinni lesið tímarit UMFÍ.

Pelé kom til Íslands fyrir sléttum 30 árum eða 11 ágúst árið 1991 í tengslum við útgáfu ævisögu hans sem kom út þá um jólin og blaðamaðurinn og knattspyrnusérfræðingurinn Víðir Sigurðsson skrifaði. Heimsóknin var í styttri kantinum en hann fór aftur utan þremur dögum síðar eða að morgni 14. ágúst.

 

 

Guðbjörn eða Bubbi eins og hann er kallaður er gallharður KR-ingur og myndi ganga út að endimörkum vesturbæjar Reykjavíkur fyrir liðið. Hann er rúmlega tvítugur námsmaður frá Háskóla Íslands og einstaklega talnaglöggur gagnanörd. Bubbi kom til starfa hjá UMFÍ ásamt sex öðrum námsmönnum fyrir tilstuðlan átaks stjórnvalda sem gekk út á að skapa námsmönnum störf í sumar.

Hlutverk Bubba hefur verið að taka samana og vinna ýmis tölfræðileg gögn sem tengjast ungmennafélagshreyfingunni og íþróttum, fjölda iðkenda og ýmislegt fleira sem tengist áhrifum íþrótta og tengsla við samfélagið.

Hinir starfsmennirnir, sem sagt verður frá síðar eru þau Hafsteinn Snær Þorsteinsson, Tjörvi Týr Gíslason, Vigfús Ólafsson, Ingveldur Gröndal, Einar Freyr Bergsson og Gerða Jóna Ólafsdóttir. Á meðal verkefna þeirra er að flokka ljósmyndasafn UMFÍ og færa þær á stafrænt form, taka myndbönd og ljósmyndir af ungmennafélögum og margt fleira sem þarfnast margra handa. 

Allir vinna líka við undirbúning og framkvæmd Unglingalandsmóts UMFÍ á Selfossi um verslunarmannahelgina og Landsmóts UMFÍ 50+ sem fram fer í Borgarnesi dagana 27.-29. ágúst.

Margt fleira forvitnilegt hefur komið upp úr kössum UMFÍ sem sagt verður frá síðar.

Sjá auglýsingu UMFÍ um störfin.

 

Næstum því frægastur á Íslandi

Fram kemur í umfjöllun netmiðilsins Lemúrinn um hringferð Svörtu perlunnar, eins og Pelé er kallaður, að hann hafi farið í nokkurs konar hringferð um landið og hitt unga knattspyrnuáhugamenn. Hann afhenti m.a. verðlaun á Norðurlandamóti drengjalandsliða í Eyjum, vígði knattspyrnuvöll á Egilsstöðum, fékk afhentan bæjarlykil á Akranesi og afhenti verðlaun KSÍ.

Hægt er að smella hér og lesa viðtal við Pelé í 3. tölublaði Skinfaxa, sem kom út árið 1991.

 

Heimsóknin vakti mikla athygli enda segir í bókinni um frægari maður hafi vart stigið fæti á íslenska grundu, að forsetum stórveldanna meðtöldum. (það er að segja Ronald Reagan Bandaríkjaforseta og Mikhaíl Gorbasjeff, leiðtoga Sovétríkjanna, sem funduðu í Höfða í Reykjavík fimm árum áður).

Pelé umkringdur aðdáendum hvert sem hann fór. Og það var ekki bara yngri kynslóðin sem laðaðist að honum. Á Akureyri fór hann inn í stóra verslun, og þar varð öngþveiti, því afgreiðslukonurnar vildu allar fá mynd af sér með goðinu. Á flugvellinum á Egilsstöðum voru staddir ítalskir ferðamenn og augun ætluðu útúr höfðum þeirra þegar þeir sáu sjálfan Pelé þar. Á dauða sínum áttu þeir von, en ekki á því að rekast á sjálfan Pelé í lítilli flugstöð á Íslandi.

Ásgeir Sigurvinsson, fyrrum atvinnumaður í knattspyrnu, var sérstaklega fenginn til að koma og fylgja Pele, til þess að Brasilíumaðurinn hefði félagsskap af manni sem þekkti knattspyrnuna frá svipaðri hlið.

Myndirnar sem Bubbi fann af Pelé sýndu hann á nýjum grasvelli knattspyrnudeildar Hattar á Egilsstöðum en knattspyrnugoðið vígði völlinn.

Fram kemur í bók Víðis og greinir Lemúrinn frá því að allir sem hittu Pelé hafi borið honum vel söguna. Hann hafi verið hvers manns hugljúfi, jafnvel þótt ferðatöskur hans hefði aldrei skilað sér frá Brasilíu. Lögfræðingur Pelé, sem var með í för, hafi komið í veg fyrir að svarta Perlan, eins og Pelé er gjarnan kallaður, hafi orðið uppiskroppa með föt og farið í verslunarleiðangur fyrir hann í fataverslun í Reykjavík.

Hér má sjá starfsfólkið að störfum - að sjálfsögðu uppfull af ungmennafélagsanda.