10. júlí 2018

Búist við þúsundum gesta á Landsmótið á Sauðárkróki

Undirbúningur er á lokametrunum fyrir Landsmótið á Sauðárkróki um næstu helgi. Von er á þúsundum gesta í bæinn enda heilmikið fjör í vændum í bæði íþróttum og afþreyingu. Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri Landsmótsins, segir í samtali við Morgunblaðið, allt í fullum gangi og komið í ákveðið ferli.

Von er á fyrstu gestum mótsins á Sauðárkrók strax á morgun, miðvikudag. Á fimmtudag hefst dagskráin með fjallgöngum á Mælifell, Tindastól og Molduxa. Síðan tekur við fjölbreytt dagskrá um allan bæ frá föstudegi til sunnudagsins 15. júlí.

„Keppnisstjórar hafa tekið við sínum verkefnum og fjöldi fólks verður að störfum allt þar til mótið hefst,“ segir hann og reiknar með að sjálfboðaliðar á mótinu verði um 400 talsins.

 

Landsmót með breyttu og nýju sniði

Landsmótið er með nýju sniði þar sem áhersla er lögð á að allir geti tekið þátt og skráð sig í þær greinar sem þeir hafa áhuga á. Einstaklingar 18 ára og eldri geta skráð sig til leiks, hvort sem þeir eru í íþrótta- og ungmennafélagi eða ekki.

Ekki er lengur um stigakeppni ungmennafélaga að ræða eins og áður og er tekið fram í viðtalinu við Ómar að af þeim sökum muni gömlu landsmótsmetin standa.

Um 40 ólíkar íþróttagreinar verða í boði, auk tónleika og ýmiss konar skemmtunar og fróðleiks fyrir unga sem aldna. Þannig verður Pallaball í Íþróttahúsinu á laugardagskvöld, að lokinni matarveislu, skemmtidagskrá og balli með Hljómsveit Geirmundar.

Samhliða landsmótinu fer fram Meistarakeppni Íslands í frjálsum íþróttum, þar sem allir helstu frjálsíþróttamenn landsins etja kappi saman. Einnig verður Landsmót 50+ í gangi með þátttöku 50 ára og eldri. Þá eru golfmót á Hlíðarendavelli og keppni í réttstöðulyftu í reiðhöllinni Svaðastöðum haldin utan landsmóts.

Ómar hvetur alla til að koma á Landsmótið og taka þátt á sínum forsendum.

„Það er líka bara hægt að fylgjast með og njóta margs konar afþreyingar,“ segir hann.

Ómar Bragi segir alla íþróttaaðstöðu á Sauðárkróki vera til fyrirmyndar. Stutt sé að fara á milli keppnisvalla og -svæða, allt frá Flæðunum og suður fyrir Árskóla. Nýverið var nýr gervigrasvöllur tekinn í notkun og Ómar Bragi segir tilkomu hans skipta miklu máli fyrir viðburð eins og þennan.

 

Íþróttaveislan á Sauðárkróki

Landsmótið nú er með breyttu og nýju sniði og opið öllum 18 ára og eldri sem hafa áhuga á að taka þátt í íþróttum og hreyfingu. Fyrirkomulag mótsins er nýtt. Allir ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Hægt er að kynnast nýjum íþróttagreinum, fá kennslu í þeim og taka fyrstu skrefin í nýrri hreyfingu. Þú setur saman þitt eigið Landsmót.

Á mótinu er hægt að velja fleiri en 30 íþróttagreinar auk skemmtunar og fróðleiks. Þátttökugjald er 4.900 krónur. Fjöldi greina er í boði sem aldrei hafa áður sést á Íslandi.

Það verður nóg að gera í allskonar íþróttum á daginn. Auðunn Blöndal og Steindi jr. stýra götupartíi og tónlistarveislu föstudagskvöldið 13. júlí. Sverrir Bergmann treður þar líka upp með hljómsveitinni Albratross sem hefur svo sannarlega slegið í gegn.

Kvöldið eftir er hlaðborð og skemmtikvöld með konungi skagfirsku sveiflunnar, honum Geirmundi Valtýssyni. Á eftir stígur Páll Óskar á svið og stýrir Pallaballa eins og honum einum er lagið.

 

Komdu og kynntu þér alla gleðina sem er í boði á www.landsmotid.is

Hér má sjá tímasetta dagskrá Landsmótsins