27. desember 2020

Býr enn að leikgleði trúðanámskeiðsins á Grænlandi

Halla Hrund Logadóttir hefur farið vítt og breitt um heiminn og lært og starfað allt frá Afríku til Belgíu og Japan. Hún er í forsvari fyrir stuðningsnet kvenna og kennir við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum en þar stýrir hún fyrsta náms- og rannsóknarvettvangi í skólanum sem tengist breytingum á norðurslóðum. Halla segir trúðanámskeið, sem hún stýrði fyrir UMFÍ, grunninn að mörgu því sem hún gerir nú.

„Ef maður er með góða hugmynd er alltaf spennandi að framkvæma hana. Stundum er verkefnið of stórt og virðist óviðráðanlegt. Þá er nauðsynlegt kunna aðferðir til að einfalda hlutina og halda af stað. Það lærði ég hjá UMFÍ,“ segir Halla Hrund Logadóttir.

Halla var í Kvennaskólanum í Reykjavík um síðustu aldamót þegar hún rak augun í auglýsingu frá UMFÍ sem óskaði eftir starfsmanni fyrir leiklistarverkefni. Aðferðin var nokkuð nýstárleg á þessum tíma enda tilraun. Í henni fólst að leita út fyrir raðir UMFÍ að þátttakendum í alls konar verkefni.

 

 

Halla fór í viðtal hjá Valdimari Gunnarssyni, sem þá var fræðslustjóri UMFÍ en er núna framkvæmdastjóri Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK). Ekkert varð úr verkefninu og Halla fékk ekki starfið.

En Valdimar hringdi í hana nokkru síðar og bað hana um að halda utan um annað verkefni á vegum UMFÍ.

„Valdimar sagðist vera með annað verkefni sem tengdist Vest-Norden Ungdoms Forum, samstarfsvettvangi ungmennafélaga á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi. Þetta var óvirkt samstarf á þessum tíma sem þurfti að blása lífi í og Valdimar spurði hvort ég vildi ekki leiða vinnuna,“segir Halla en viðurkennir, að hún hafi ekki verið með skýra mynd af því hvað hún væri að fara út í. Hún var tiltölulega nýskriðin yfir tvítugt, og hana langaði að takast á við ný verkefni. Hún ákvað því að taka boðinu.

Allt verður betra með samvinnu

Halla, Valdimar og athafnamaðurinn Greipur Gíslason, sem um þetta leyti var verkefnastjóri hjá UMFÍ, hófu að þróa hugmyndir.

„Við komum okkur fljótlega saman um að þetta yrði leiklistarverkefni með þátttakendum frá Íslandi, Grænlandi og Færeyjum. Þetta var mikil reynsla, ekki síst ferðalagið sem fólst í því að þróa hugmyndina og gera hana að veruleika,“ segir Halla og viðurkennir að þarna fyrst hafi hún áttað sig á UMFÍ.

„Ég áttaði mig þarna enn betur á mikilvægi samvinnunnar og því sem hún skilar. Maður þarf ekki að vera með meira en hugmynd og vilja til að vinna með öðru fólki til að láta hlutina gerast. Lærdómurinn af verkefninu fólst líka í því að taka þátt, ekki endilega í einhverju sem maður þekkir manna best heldur einhverju nýju sem maður lærir af. Það varð einmitt svolítið ferðalag út fyrir þægindarammann og niðurstaðan varð sú að við settum af stað trúðanámskeið fyrir ungt fólk frá þjóðunum þremur, á aldrinum 18–24 ára, á Grænlandi,“ segir Halla enn fremur, sem hafði bæði farið á leiklistarnámskeið og trúðanámskeið en hvorki á sama námskeiðinu í einu né í öðru landi.

 

 

Teymið vann hörðum höndum að því að ýta verkefninu úr vör. Kennarinn, sem varð fyrir valinu, var frá virtasta trúðaskóla Danmerkur. Síðan átti að gera heimildarmynd um námið. Þótt námskeiðið hafi gengið vonum framar dagaði myndin uppi og vita fáir, sem rætt hefur verið við, hvað hafi orðið um upptökurnar. Þær hafa í það minnsta aldrei litið dagsins ljós.

 

Finnið ykkar innri trúð

Trúðanámskeiðið á Grænlandi var heldur framandlegt á þessum tíma enda ekki mikið um ferðir þangað.

„Þetta var mjög spennandi,“ segir Halla og rifjar upp að þarna hafi hugtakið norðurslóðir ekki verið til eða mikið notað, hvað þá samstarf þjóða á þessu svæði. Aðeins hafi verið um að ræða samstarf smáþjóða sem mörgum þótti áhugavert.

Námskeiðið var haldið í þorpinu Qaqortoq í júní 2004. Flogið var til Grænlands en siglt til bæjarins sem er suðaustanmegin í landinu og dvalið þar í eina viku.

„Ég man alltaf eftir andartakinu þegar þessi háalvarlegi trúður, kennarinn okkar, lét okkur fá rauðu nefin, benti síðan upp í brekku fyrir ofan bæinn þar sem við vorum stödd og sagði: „Farið upp á fjallið þarna og finnið trúðinn í ykkur sjálfum.“ Við vorum öll með flugnanet til að verjast mýi og trúðanef undir því. Síðan gengum við upp á fjallið og fundum okkar innri trúð. Algjörlega súrrealistískt. Við hlæjum enn að þessu.“

 

 

Hver og einn þátttakandi þurfti að þróa sinn trúð á námskeiðinu og gefa honum nafn. Halla man enn, þótt nú séu bráðum liðin 20 ár frá trúðanámskeiðinu, að trúðurinn hennar fékk nafnið Dídí og var rússneskur.

„Námskeiðið gekk alveg ótrúlega vel og við vorum í karakter alla vikuna, jöggluðum og lærðum alls konar sirkuskúnstir í stífu prógrammi frá morgni til kvölds,“ segir Halla.

 

Þátttakan er lykilatriði

Halla segir starf sitt hjá UMFÍ, tengt skipulagningu trúðanámskeiðsins, hafa kennt sér margt sem hún nýti sér enn í dag.

 

 

„Við þurftum að móta hugmynd frá grunni, vinna að því að fjármagna hana og framkvæma frá upphafi til enda. Það hafði mjög mótandi áhrif á mig svona unga. Líka það að fá traust til að leiða hlutina. En það sem skipti máli var að ég sá að allt var hægt. Valdimar stóð auðvitað þétt við bakið á okkur, og við lærðum mikið af því hversu lausnamiðaður og jákvæður hann var. Það var gaman að koma þessu á koppinn!“

 

Trúður ferðast um heiminn

Eftir að vinnu Höllu á námskeiðinu á Grænlandi lauk tók lífið við. Halla útskrifaðist úr stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 2005, þá 24 ára, og stofnaði í framhaldi af því menntaverkefni í formi heimasíðu um alþjóðamál til að efla áhuga almennings á alþjóðamálum.

Halla hafði svo sannarlega nægan áhuga á þeim. Hún fór fljótlega erlendis og vann í þrjú ár fyrir íslenska utanríkisráðuneytið í Brussel í Belgíu. Þar nýtti hún áfram lærdóminn af undirbúningi námskeiðsins fyrir UMFÍ.

„Þarna úti kom upp hugmynd um að vera með markaðsátak tengt Íslandi. Landið var á þessum tíma ekki eins þekkt sem áfangastaður ferðamanna og nú er og hingað komu mun færri en síðar átti eftir að verða. Þá fór ég í það að fjármagna markaðsátakið. Það gerði ég eiginlega með sama hætti og trúðanámskeiðið, umsvifin voru bara meiri. Þegar á allt var litið var þetta eins – bæði verklagið og jákvæði ungmennafélagsandinn sem þurfti í ferlinu. Þarna vann ég bæði verkefni tengd ESB, landkynningum, orkumálum, sjávarfangi, listum, menningu og mörgu fleiru. Við fluttum út sýningar á vegum Þjóðleikhússins, Listasafns Íslands, Iceland Airwaves og fleiri aðila, og þetta kynningarátak stóð yfir í á annað ár. Það var saman að sjá hversu mikil tækifæri þetta skapaði fyrir Ísland.“

Eins og þetta hafi verið nóg? Nei, aldeilis ekki.

Eftir þrjú ár í Brussel flutti Halla til Tógó í Vestur-Afríku og fór að vinna með þarlendum bændum að því að markaðssetja vörur þeirra í samkeppni við innflutt hrísgrjón. Samhliða því kenndi hún við háskólann í höfuðborginni Lomé.

En nú hlaupum við hratt yfir sögu. Halla hefur unnið við margt skemmtilegt síðan á trúðanámskeiðinu, ferðast um heiminn, lært í Bretlandi, París, Japan og þróunarhagfræði í Bandaríkjunum, eignast börn og buru og hefur nú síðastliðin fimm ár búið með fjölskyldu sinni í Boston í Bandaríkjunum. Þar stýrir hún náms- og rannsóknavettvangi um norðurslóðir við Harvard ásamt því að kenna við skólann.

 

Mikilvægi norðurslóða

Halla segir störf sín á sviði loftslags- og umhverfismála veki oft upp minningar um Grænlandsförina og eigi eflaust hlut að því að hún vinni núna mikið tengt landinu, með stjórnvöldum jafnt sem stofnunum á Grænlandi. Þá kennir Halla norðurslóðanámskeið við Harvard-háskóla. Hún segir miklar breytingar fram undan þegar hlýnar á svæðinu og hafísinn bráðnar.

„Ég held að allir, sem hafa áhuga á framtíð Íslands, ættu að beina sjónum sínum að þessum málaflokki. Við fáum stjórnmálaleiðtoga, fræðimenn og ungt fólk að vettvanginum til að koma saman, skoða málin vel og kynna tillögur að úrbótum,“ segir hún.

„Það er mikið að gerast á norðurslóðum og margt sem mun gerast þar í framtíðinni. En ég tók eftir því á sínum tíma að margir voru að vinna að því einir og sér reyna að leysa þau risastóru vandamál sem tengjast loftslagsmálum á norðurslóðum. Þetta voru flest allt litlir aðilar. En þá kom sér vel lærdómurinn frá UMFÍ. Ég stofnaði vettvanginn um norðurslóðir við Harvard til að fá þá sem vinna að málinu að borðinu og stækka þar með hópinn. Þegar margir vinna að sama málinu verður vandamálið líka einfaldara viðfangs og áhrifin meiri. Þetta er alveg sama hugsunin og hjá UMFÍ,“ segir hún.

Nú starfa 18 manns í þverfaglegu teymi við miðstöð norðurslóða við Harvard, í samstarfi við háskóla, stjórnvöld og stofnanir um víða veröld. Málin eru fjölbreytt og ólík. Meðal þeirra eru breytingar á hafinu vegna loftslagsbreytinga, menning fólks í löndum sem landamæri eiga að norðurslóðum, réttindi frumbyggja, menntun og margt fleira. Að borði norðurslóðavettvangsins koma leiðtogar fjölda sviða, háskólanemendur og fleiri, sem tengjast norðurslóðum á einn eða annan hátt, til að leysa málin saman.

 

Lærdómur UMFÍ

Halla segir að á þeim stutta tíma sem hún hafi komið að götulista- og trúðanámskeiði UMFÍ á Grænlandi fyrir næstum 20 árum hafi hún lært mikið. Það hafi verið lærdómur til lífstíðar:

„Í fyrsta lagi lærði ég að ef maður ætlar að koma einhverju í verk þarf að vinna með mörgum. Gott verk byggir allt á samvinnu margra. Töfrarnir felast síðan ferðalaginu sjálfu,“ segir Halla og bætir við að sig hefði aldrei grunað, þegar hún fór á fyrsta fund sinn með UMFÍ, hvert samtalið gæti leitt hana.

„Í þessu tilviki hefur leiðin heldur betur verið góð,“ segir Halla og bætir við að hugsun UMFÍ sé leiðarljós og nýtist vel.

„Leikgleðin verður að vera í fyrirrúmi. Maður verður einfaldlega að hafa hjartað á réttum stað og hafa gaman af verkefnunum sem maður vinnur. En þá má líka ekki verða of langt í trúðinn,“ segir Halla Hrund Logadóttir.

Hittir enn gamla trúðavini

„Það urðu einhverjir töfrar á Grænlandi. Töfrarnir felast í því þegar ungt fólk kemur saman og vinnur að einhverju sem mótar það. Ég bý enn að þessu ævintýri enda varð þar til vinátta og tengsl sem ég get treyst á enn 20 árum síðar. Það auðveldar alla vinnu mína að ég skuli geta tekið upp símann og hringt í einhvern sem var með mér á námskeiðinu en er nú í ráðandi stöðu,“ segir Halla.

Besta dæmið um þetta er rithöfundurinn og fræðimaðurinn Katti Frederichen, mennta- og menningarmálaráðherra Grænlands, auk þess að vera kirkjumálaráðherra landsins. Hún var áður yfir grænlensku tungumálastofnuninni og hefur unnið ötullega að verndun grænlenskrar menningar. En það sem meira er:

„Katti var einn af trúðunum í Qaqortoq og við höfum þekkst allar götur síðan. Við höfum unnið mikið saman að málefnum tengdum norðurslóðum. Það gerir allt miklu einfaldara í samvinnunni núna að hafa borið rauða nefið saman. Þú tengist fólki fyrir lífstíð ef þú hefur jögglað saman og hoppað um með trúðanef,“ segir Halla, en hún heldur enn tengslum við fleiri sem voru með henni á námskeiðinu, bæði í Færeyjum og á Íslandi.

Hér má sjá þær Höllu og Kattí læra jafnvægislistir á námskeiðinu á Grænlandi.

 

 

Viðtalið við Höllu er í nýjasta tölublaði Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Blaðið er hægt að lesa á vef UMFÍ: www.umfi.is

Lesa blaðið: Skinfaxi 3. tbl 2020