18. nóvember 2020

Daði hjá HSH: Þörf á styrkjum til staðar

„Þörfin er svo sannarlega til staðar og hún mun aðeins aukast þegar fram í sækir. Tilfinning mín er sú að þessir styrkir muni nýtast vel,“ segir Daði Jörgensson, framkvæmdastjóri Héraðssambands Snæfellsness og Hnappadalssýslu (HSH), um sérstaka íþrótta- og tómstundastyrki fyrir börn sem búa á tekjulægri heimilum. Opnað hefur verið fyrir umsóknir um styrkina og er markmið þeirra að jafna tækifæri barnanna til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi.

Styrkirnir koma til viðbótar hefðbundnum íþrótta- og tómstundastyrki sveitarfélaga. Alls verður um 900 milljónum króna varið í verkefnið árin 2020 og 2021.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, kynnti aðgerðina í vor og er hún hluti af aðgerðapakka sem ætlað er að veita mótvægi vegna þeirra áhrifa sem Covid-19 faraldurinn hefur haft á afkomu efnaminni heimila í landinu. Í framhaldinu verður ráðist í vitundavakningu í samstarfi við menntamálaráðuneytið, sveitarfélög, ÍSÍ og UMFÍ.

Haft var eftir Ásmundi í tilkynningu ráðuneytisins í dag, að COVID-19 faraldurinn hafi haft gríðarleg áhrif á allt íþrótta- og tómstundastarf í landinu. Þegar þrengi að fjárhag fjölskyldna sé mikil hætta á að þær dragi úr þátttöku barna í íþrótta- og tómstundastarfi. Það eigin sérstaklega við um fjölskyldur í neðri hluta tekjudreifingarinnar.

„Rannsóknir sýna að íþróttir og frístundir hafa forvarnargildi og því er gríðarlega mikilvægt að við gerum allt sem við getum til að koma í veg fyrir brottfall hjá krökkum í íþróttum og tómstundum vegna faraldursins,” sagði Ásmundur.

Hægt er að sækja um styrk fyrir börn sem fædd eru á árunum 2005-2014 og búa á heimili þar sem heildartekjur heimilisins voru að meðaltali lægri en 740.000 kr. á mánuði á tímabilinu mars – júlí 2020. Styrkurinn er 45.000 kr. á hvert barn og um 13.000 börn eiga rétt á styrknum. Sveitarfélögin annast afgreiðslu styrkumsókna eftir að búið er að kanna rétt til styrksins inni á Ísland.is

Daði aðgerðirnar nú gott innlegg og geta dregið úr neikvæðum afleiðingum COVID-faraldursins.

„Ef og þegar atvinnuleysi eykst er gott að geta nýtt allt sem hjálpar fólki að halda heimili. Áhrifin koma nefnilega ekki strax í ljós. Að því leyti er þetta gríðarlega mikilvægt,“ segir hann.  

 

Sjá: 

Opnað fyrir styrki til fjölskyldna fyrir íþrótta- og tómstundastarf barna

Auður hjá UMFÍ: Hjálpar til að allir geti verið með