14. júlí 2021

Dagný er nýr framkvæmdastjóri HSV

„Ég er mjög spennt fyrir þessu nýja starfi og hlakka mikið til,“ segir Dagný Finnbjörnsdóttir, sem ráðin hefur verið í starf framkvæmdastjóra Héraðssambands Vestfirðinga (HSV). Hún tekur við starfinu af Bjarka Stefánssyni.

Dagný býr í Hnífsdal og er með B.Ed. gráðu í kennarafræðum frá Háskólanum á Akureyri 2020. Hún þekkir vel til HSV og starfs framkvæmdastjóra því hún hefur unnið sem umsjónarmaður yngri flokka körfuknattleiksdeildar Vestra og sem körfuknattleiksþjálfari frá árinu 2017. 

Dagný hefur talsverða reynslu af stjórnun því hún hefur frá árinu 2015 verið annar eigandi fataverslunarinnar Jón og Gunna auk þess að starfrækja áður fyrirtæki á eigin vegum. Frá árinu 2020 hefur Dagný svo gengt starfi umsjónarkennara/ leiðbeinanda við Grunnskóla Bolungarvíkur.

Dagný hefur störf hjá HSV eftir verslunarmannahelgina.

 

HSV er einn 28 sambandsaðila UMFÍ. Innan UMFÍ eru 21 íþróttahérað og 7 ungmennafélög með beina aðild. Alls eru um 450 félög innan UMFÍ með rúmlega 270 þúsund félagsmenn. Á meðal aðildarfélaga HSV eru Golfklúbbur Ísafjarðar, Íþróttafélagið Höfrungur á Þingeyri, Íþróttafélagið Vestri á Ísafirði, Skíðafélag Ísfirðinga, siglingaklúbburinn Sæfari, Ungmennafélagið Geisli, knattspyrnufélagið Hörður, Kubbi - íþróttafélag eldri borgara í Ísafjarðarbæ og mörg fleiri.