05. desember 2019

Dagur sjálfboðaliða í dag

Til hamingju með daginn! Í dag er nefnilega Alþjóðlegur dagur sjálfboðaliða.

Forsaga dagsins er sú að árið 1985 tilnefndu Sameinuðu þjóðirnar 5. desember sem Alþjóðlegan dag sjálfboðaliða. Tilgangurinn með deginum er að vekja athygli á framlagi sjálfboðaliða í samfélaginu. Það er mismunandi eftir löndum og tíma hvernig sjálfboðin störf eru skilgreind. Nokkuð víðtæk sátt er þó um þá skilgreiningu að sjálfboðin störf eru störf í þágu annarra en sjálfra sín og nánustu ættingja. Jafnframt er oftar en ekki talað um sjálfboðaliðastarf þegar einstaklingur leggur fram vinnu sína sjálfviljugur, án þess að þiggja laun fyrir.

Innan íþrótta- og ungmennafélagshreyfingarinnar eru ástæður þess að fólk tekur að sér sjálfboðaliðastörf m.a. þær að með þeim hætti getur fólk kynnst öðrum foreldrum, þjálfurum, stjórnarmönnum í félaginu og þannig fullnægt félagslegum þörfum sínum ásamt því að hjálpa sínu félagi að ná settum markmiðum íþróttarinnar. Jafnframt er það að sinna sjálfboðaliðastarfi tækifæri fyrir fólk að læra leikreglur, hvernig rekstur félagasamtaka gengur fyrir sig og almenn félagsstörf. Þátttaka og stuðningur foreldra er börnum og ungmennum mikilvægur og eykur líkur á að barnið haldi áfram að stunda íþróttir.

Innan aðildarfélaga UMFÍ starfa hundruð sjálfboðaliða sem leggja á sig ómælda vinnu til hagsbóta fyrir samfélagið. Án þessarar mikillar vinnu sem sjálfboðaliðar leggja af mörkum ætti það góða og viðamikla starf innan aðildarfélaga UMFÍ sér ekki stað. Störf sjálfboðaliða eru því ekki aðeins ómetanleg fyrir aðildarfélög UMFÍ, heldur eru þau ómetanleg fyrir íslenskt samfélag.

UMFÍ fagnar degi sjálfboðaliðans og færir öllum sjálfboðaliðum innilegasta þakklæti fyrir þeirra óeigingjarna starf.

Takk fyrir!

Hér eru nokkrar myndir af þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem komið hafa að starfi UMFÍ