05. desember 2017

Dagur sjálfboðaliðans: Hefur tekið myndir af mótum UMFÍ

„Það er gaman að vera í kringum fólk sem er ánægt með það sem maður er að gera. Þannig líður mér best,“ segir Hafsteinn Snær Þorsteinsson. Hann er 19 ára og hefur verið ljósmyndari á Unglingalandsmótum og Landsmótum UMFÍ um nokkurra ára skeið – ætíð boðið sig fram og unnið frábærlega vel af einskærum áhuga í sjálfboðavinnu. Hann byrjaði að taka myndir á Unglingalandsmóti UMFÍ á Höfn í Hornafirði um verslunarmannahelgina árið 2013. Þá var hann 15 ára gamall.

Mikið af myndunum sem UMFÍ notar hefur Hafsteinn tekið. Hann tók meðal annars forsíðumyndina á Skinfaxa, tímariti UMFÍ, sem kom út fyrir síðasta Unglingalandsmót.

Forsíða Skinfaxa

Í dag er Dagur sjálfboðaliðans um allan heim. Sjálfboðaliðastörf hafa verið uppistaðan í öllu starfi UMFÍ í 110 eða frá því að hreyfingin var stofnuð árið 1907.

Hafsteinn segir ljósmyndun ástríðu sína og því taki hann myndir á mótum UMFÍ. 

„Mig langar að gefa af mér til UMFÍ,“ segir hann.