30. desember 2021

Dásamlegt að deila hlaupagleði með öðrum á Höfn

Ástríðuhlauparinn Helga Árnadóttir stofnaði hlaupahóp á Höfn í Hornafirði í haust í samstarfi við Ungmennafélagið Sindra. Nú eru í hópnum 40 hlauparar sem hlaupa þrisvar í viku.

„Það er svo gaman að hlaupa með öðrum. Ég þekki bara skemmtilega hlaupara og langaði til að búa til vettvang á Höfn fyrir fólk til að hittast og deila gleði sinni á hlaupum,“ segir landvörðurinn og Rangæingurinn Helga Árnadóttir, forystuhlaupari Hlaupahóps Hornafjarðar á Höfn í Hornafirði. Helga stofnaði hópinn í september síðastliðnum.

Undirtektirnar voru framar vonum og hafa hlaupararnir vart stoppað síðan.

 

 

Helga elskar að hlaupa og hefur varla tekið hlaupaskóna af sér í að verða 20 ár. Hún er með bakgrunn í frjálsum íþróttum og hafði hlaupið á eigin vegum í 2–3 ár þegar hún mætti á fyrstu hlaupaæfingu sína hjá Laugaskokkurum í Reykjavík haustið 2006. Hún var í tvö ár í hlaupahópnum en hefur einnig tekið þátt í þríþraut og uppgötvað gleðina sem felst í því að hlaupa úti í náttúrunni ásamt öðru fjallabrölti.

„Ég hef alltaf verið tiltölulega virk í útivist og undanfarin ár hef ég æft mest fyrir sjálfa mig, og oft í minni hóp hlaupara hér á Höfn. En eftir átta ára búsetu á Höfn fann ég loks hvötina til að deila hlaupareynslunni með öðrum, skora sjálfa mig á hólm sem þjálfara, fara út fyrir þægindarammann og ýta öðrum út í jaðra hans í leiðinni. Ég skoraði á mig að takast á við eitthvað alveg nýtt, hafði samband við frjálsíþróttadeild Ungmennafélagsins Sindra á Höfn og saman bjuggum við til Hlaupahóp Hornafjarðar. Hópurinn byggir á tilraun sem Ungmennafélagið Máni í Nesjum gerði í fyrra þegar félagið þar stofnaði hlaupahóp. Þetta var frábær tilraun. Halla tók undan fæti í COVID-faraldrinum þegar fólk mátti ekki hittast. Steininn tók svo úr þegar þjálfarinn hætti,“ heldur Helga áfram og bætir við að mjög gott sé að vinna með Sindra, hlaupahópurinn fái m.a. aðgang að húsnæði og stuðningi. Viðtökurnar voru líka langt fram úr væntingum og eru nú 42 meðlimir skráðir í hlaupahópinn, sem verður að teljast afar gott í 1.800 íbúa samfélagi. Þátttakendur í hópnum greiða lágt gjald fyrir þátttökuna, 15.000 - 20.000 krónur fyrir önnina. 

 

Óreyndu hlaupararnir mæta best

Helga viðurkennir að vissulega sé hún ekki menntuð í íþróttafræðum. En hún hefur viðað að sér ýmissi þekkingu í gegnum tíðina og getur því sett upp æfingar og fleira fyrir hlauparana á Höfn.

 

 

Helga stýrir lokaðri Facebook-síðu hlaupahópsins og birtir þar æfingar og hvatningu ásamt ýmiss konar upplýsingum. Hún segir afar góða stemningu í hlaupahópnum, sem samanstendur af óreyndum hlaupurum, sem áður horfðu á hina, og líka reyndari hlaupurum, sem hafa tekið þátt í hálfmaraþoni og utanvegahlaupum. Hópurinn hleypur ekki allur saman heldur er honum skipt í þrennt eftir reynslu og er gerð og fjöldi æfinga mismunandi eftir hópum. Alltaf er þó boðið upp á þrjár fastar æfingar í viku.

 

 

„Hlaupararnir eru mjög góðir í því að hvetja hver annan og gefa af sér, bæði ráð og fleira sem styrkir hlauparana og sambandið í hópnum,“ heldur Helga áfram. „Það geta auðvitað ekki allir hlaupið á sama tíma. Ég reyni að mæta á þær allar en get það auðvitað ekki. En það er eftirtektarvert að nýliðarnir mæta langbest,“ segir hún.

 

Vetrarhlaup fram á vor

Fyrsta hlaup hópsins fór fram í september. Í upphafi voru æfingar hópsins reyndar auglýstar fram að áramótum.

Helga segir góðar undirtektir hvatningu til að halda áfram inn í næsta ár. Nú er búið að koma á fót reglulegri vetrarhlauparöð á Höfn sem stefnt er á að verði frá október og fram í mars á næsta ári. Í röðinni eru 5 km hlaup með tímatöku einu sinni í mánuði og taka ungmennafélagar þátt í undirbúningi og vinnu við hlauparöðina. Tveimur hlaupum er nú þegar lokið og hafa viðtökur þess verið afar góðar, en 28 hlauparar tóku þátt í fyrsta hlaupinu í október og 25 mánuði seinna. Þriðja hlaupið verður á gamlársdag á Höfn í Hornafirði.

Helga segir að þá verði hlaupið í búningum og býst hún við góðri þátttöku. Boðið verður upp á 3, 5 og 10 km hlaup.

„Hlaupahópurinn er fyrir meðlimi en allir sem vilja geta tekið þátt í vetrarhlauparöðinni. Það er mjög gaman að sjá fólk taka þátt í vetrarhlaupunum sem ekki er í Hlaupahópi Hornafjarðar,“ segir Helga.

 

Frekari upplýsingar

Hlaupahópinn má finna á Facebook: hlaupahopurhornafjardar

Netfang hópsins er: hlaupahopurhornafjardar@gmail.com

 

Lestu viðtalið í blaðinu!

Viðtalið og umfjöllun um hlaupahópinn birtist í Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Þú getur smellt á blaðið hér að neðan og lesið það allt á Netinu.