05. ágúst 2022

Drulluskemmtilegt hlaup í vændum

„Þetta verður drulluskemmtilegt hlaup og líklega eini viðburðurinn þar sem veðrið skiptir engu máli. Það er flott ef sólin skín. En ef það rignir og kannski rok þá verður meiri drulla og það er frábært,“ segir Valdimar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ungmennasambands Kjalarnesþings (UMSK) og heilinn á bak við Drulluhlaup Krónunnar.

Hann fór í dag með gröfusérfræðingnum Leifi hjá VGH Mosfellsbæ að skoða hlaupaleiðina í Drulluhlaupinu. Leifur mun sjá um að búa til drullupytti og vatnspolla svo enginn komist tandurhreinn í mark.

Drulluhlaup Krónunnar fer fram laugardaginn 13. ágúst. Hlaupaleiðin er 3,5 kílómetra löng og drulluskemmtileg með fjölda hindrana sem þarf að yfirstíga. Fjölskyldur geta hlaupið saman og hjálpast að við að komast í gegnum 21 hindrun og leysa allskonar þrautir.

Átta ára börn og eldri ættu að komast í gegnum hana með aðstoð foreldra og/eða forráðarmanna. 

Rás- og endamark Drulluhlaupsins er við Íþróttahúsið við Varmá. Þar verður partýstemning frá því að hlaupið hefst og þar til því lýkur. Þar verður hægt að hvetja keppendur áfram og njóta samverustundar með fjölskyldum og vinum. 

Búið er að teikna kort af hlaupaleiðinni og sjá þau sem kunnug eru staðháttum að hún verður alveg drulluskemmtileg.

Allir þátttakendur fá armband sem þeir geta nýtt til að skola af sér drulluna og komist endurgjaldslaust í sund í Varmárlaug í Mosfellsbæ.

Drullu- og hindrunarhlaup Krónunnar er hluti af Íþróttaveislu UMFÍ og 100 ára afmæli UMSK. Drulluskemmtilegt hlaup þar sem fjölskyldan vinnur saman að því að komast í mark í skítugasta hlaupi ársins í Mosfellsbæ. 

 

Drulluhlaupið í hnotskurn

HVAR: Íþróttamiðstöðinni Varmá Mosfellsbæ.

DAGSETNING: Laugardagur 13. ágúst 2022. 

HVENÆR: Kl. 11:00 - 14:00.

HLAUPALEIÐ: Leiðin er samtals 3,5 km og inniheldur 21 hindrun. 

UPPHAF: Við Íþróttamiðstöðina Varmá. 

ENDIR: Við Íþróttamiðstöðina Varmá. 

UMSJÓN: Ungmennafélagið Afturelding og frjálsíþróttadeild Aftureldingar ásamt UMSK.

 

Viðburðasíða hlaupsins á Facebook

Skráning í hlaupið