08. nóvember 2017

Einar Haraldsson: Gott að vita af Æskulýðsvettvanginum

„Það skipti máli fyrir okkur í íþróttahreyfingunni að vita hvert við getum leitað þegar upp kemur vandamál eins og einelti. Það er frábært að UMFÍ hafi farveg eins og Æskulýðsvettvanginn fyrir okkur til að leita til,“ segir Einar Haraldsson, framkvæmdastjóri og formaður Keflavík, íþrótta- og ungmennafélags.

Einar bætir við að nú komi eineltis-, kynferðis- og ofbeldismál fyrr upp á yfirborðið en áður. Það sé afar jákvætt því þá sé hægt að grípa fyrr í taumana og hlúa að þolendum og vinna með gerendum fyrr en ella.

„Það er mun betra ef þolendur eineltis-, kynferðis- og ofbeldismál tjái sig um meint ofbeldi sem fyrst í stað þess að birgja þjáningarnar inni. Þá er hægt að taka strax á viðkomandi atviki,“ segir hann.

 

Dagur gegn einelti

Dagurinn í dag, 8. nóvember, er helgaður baráttunni gegn einelti í samfélaginu. Þetta er sjöunda skiptið sem dagurinn er haldinn. Formaður UMFÍ skrifaði undir þjóðarsáttmála á þessum degi fyrir sex árum. Í sáttmálanum skuldbinda aðildarfélög sáttmálans sig til að vera góðar fyrirmyndir og leggja sitt af mörkum til þess að vinna bug á því samfélagslega böli sem einelti er.

UMFÍ er aðili að Æskulýðsvettvanginum ásamt Bandalagi íslenskra skáta, KFUM og KFUK á Íslandi og Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Einar segir það hafa verið gott að vita af Æskulýðsvettvanginum þegar ákveðið mál kom upp hjá félaginu. „Æskulýðsvettvangurinn var okkur til halds og trausts,“ segir hann.

Keflavík, íþrótta- og ungmennafélag, vekur vel athygli á Æskulýðsvettvanginum og aðgerðaáætlun gegn einelti. Hægra megin á vefsíðu ungmennafélagsins er hlekkur á áætlunina. Þar er líka hægt að senda inn tilkynningu um grun um einelti og annað efni tengt aðgerðum gegn einelti.

Aðgerðaáætlun Æskulýðsvettvangsins hjá Keflavík

 

Hvað er einelti?

Einelti er endurtekin ótilhlýðileg og ámælisverð háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað endurtekið andlegt og líkamlegt ofbeldi fellur undir þetta.

Einelti getur þrifist alls staðar þar sem samskipti eiga sér stað, án tillits til aldurs fólks, vitsmunaþroska, efnahags, stéttar, stöðu eða búsetu. Einelti getur því komið upp hjá öllum aldursflokkum, bæði börnum og fullorðnum. Þá á einelti sér margar mismunandi birtingarmyndir og getur verið andlegt, líkamlegt og/eða stafrænt.

 

Aðgerðaáætlun Æskulýðsvettvangsins

Á vegum Æskulýðsvettvangsins starfar fagráð sem tekur á eineltismálum sem upp koma innan aðildarfélaganna og ekki tekst að leysa úr innan félaganna. Fagráðið er skipað að minnsta kosti tveimur óháðum einstaklingum sem hafa þekkingu, menntun og reynslu sem nýtist við úrlausn samskiptavanda og eineltis.

 

Tilkynning um einelti

Eineltismálum er hægt að vísa til fagráðs Æskulýðsvettvangsins svo fremi sem ekki hafi tekist, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, að leiða málið til lausnar á heimavelli félagsins.  Þolandi eða forráðamenn þolanda geta jafnframt vísað máli til fagráðs. Tilvísun máls til fagráðs skal vera skrifleg, á þar til gerðu eyðublaði, og skal senda hana á netfangið fagrad@aev.is ásamt fylgigögnum, þar á meðal upplýsingum um fyrri vinnslu.

 

Eyðublöð og fleira hjá Æskulýðsvettvanginum