14. nóvember 2017

Ert þú tómstundaleiðbeinandinn sem við leitum að?

UMFÍ leitar að hressum og orkumiklum tómstundaleiðbeinanda sem hefur ódrepandi áhuga á að vinna með 14 - 15 ára ungmennum frá janúar til maí árið 2018 í Ungmenna- og tómstundabúðum UMFÍ að Laugum í Sælingsdal. Starfið felur í sér að leiðbeina á námskeiðum á daginn og sjá um viðburði tvö kvöld í viku. Húsnæði er á staðnum. 

Það er kostur ef starfsmaðurinn er yfir 20 ára aldri. Hreint sakavottorð, reyklaus lífsstíll og góð fyrirmynd eru forsendur fyrir starfinu. 

Umsóknarfrestur er til 5. desember.

Nánari upplýsingar veitir Anna Margrét Tómasdóttir, forstöðukona Ungmenna- og tómstundabúða UMFÍí síma 434-1600 / 861-2660. Þú getur sent tölvupóst eða umsókn ásamt ferilskrá á netfangið laugar@umfi.is.

 

Um Ungmennabúðirnar

Ungmenna- og tómstundabúðirnar á Laugum í Dalabyggð eru reknar af UMFÍ og eru þær ætlaðar nemendum í 9. bekk grunnskóla. Þeir eiga möguleika á að dvelja þar frá mánudegi til föstudags við leik og störf.

Í búðunum er aðaláhersla lögð á félagsfærni, útivist, hreyfingu og menningu.

Markmiðið með dvölinni á Laugum er að styrkja félagsfærni unglinga, efla vitund þeirra fyrir umhverfi sínu og samfélagi ásamt mikilvægi þess að hafa heilbrigðan lífsstíl að leiðarljósi. 

Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ byrjuðu starfsemi sína í janúar árið 2005. Árlega koma um 1900 ungmenni í búðirnar. Skólastjórnendur geta pantað dvöl í Ungmennabúðunum. Þar er alltaf opið fyrir pantanir. Fyrstur kemur fyrstur fær.

Meira um Ungmenna- og tómstundabúðir UMFÍ