02. nóvember 2021

Fjögur félög fá styrki til að hvetja börn af erlendum uppruna í íþróttum

Dansfélagið Bíldshöfða, Héraðssamband Vestfirðinga (HSV), Sunddeild KR og Skautafélag Akureyrar hlutu öll styrk ÍSÍ og UMFÍ til að standa fyrir verkefnum sem hafa það að markmiði að hvetja börn og ungmenni af erlendum uppruna og fjölskyldur þeirra til þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi.

Hver styrkur nemur 250 þúsund krónum og er tímarammi verkefnanna veturinn 2021 til 2022.

Íþrótta-og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) og Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) auglýstu í lok september eftir umsóknum um styrki frá sérsamböndum, íþróttahéruðum og íþrótta- og ungmennafélögum landsins. Níu umsóknir bárust.

 

Nánar um verkefninn sem hlutu styrki:

  • Dansfélagið Bíldshöfða fyrir aukna danskennslu barna og ungmenna af erlendum uppruna í samstarfi við frístundaheimili í efra Breiðholti.

  • Héraðssamband Vestfirðinga (HSV) fyrir kynningu á starfsemi félagsins á vordögum grunnskóla með aðstoð túlka, þýðingu á stundatöflum og tékklistum fyrir foreldra barna af erlendum uppruna.

  • Sunddeild KR fyrir að bjóða upp á sérstakt sundnámskeið fyrir börn og ungmenni af erlendum uppruna.

  • Skautafélag Akureyrar fyrir gerð auglýsingar fyrir samfélagsmiðla þar sem iðkendur félagsins af erlendum uppruna hvetja önnur börn af erlendum uppruna til þátttöku í íþróttum.

 

Óskað verður eftir skýrslu um framgang og árangur verkefnanna vorið 2022. Einnig verður óskað eftir því að verkefnin verði kynnt á viðburði á vegum ÍSÍ og UMFÍ næsta vor.

 

Bæklingarnir Vertu með

ÍSÍ og UMFÍ minna á bæklinginn Vertu með, sem kom út haustið 2018. Markhópur bæklingsins er foreldrar barna og ungmenna af erlendum uppruna. Markmiðið með útgáfu hans er að vekja athygli á mikilvægi þess að öll börn taki þátt í skipulögðu íþróttastarfi.

Í bæklingnum eru hagnýtar upplýsingar um starfsemi íþrótta- og ungmennafélaga landsins.

  • Upplýsingar um æfingagjöld íþróttafélaga.
  • Frístundastyrki
  • Mikilvægi þátttöku foreldra og kosti þess að hreyfa sig í skipulögðu starfi.

Bæklingurinn er á níu tungumálum, þ.e. á íslensku, ensku, pólsku, taílensku, litháísku, filippseysku, arabísku og víetnömsku. Hann er nú líka nýverið kominn út á spænsku.

 

Lesa bæklingana á tungumálunum öllum.