04. maí 2018

Fjölnir eykur þjónustu við deildirnar

Unnið hefur verið markvisst að því innan Ungmennafélagsins Fjölnis í Grafarvogi að gera þjónustu við deildir félagsins og iðkendur miðlæga. Guðmundur L. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Fjölnis, segir að þróunin hafi verið að starfsmenn deilda hafi nú aðstöðu á skrifstofu félagsins og vinni þar með og í nánu samstarfi við starfsfólk Fjölnis.

„Það styttir allar boðleiðir að vera með stjórnendur deilda í kallfæri. Skilvirkni félagsins eykst til muna og starfið verður betra,“ segir Guðmundur og bendir á að í raun megi rekja þessa þróun aftur til ársins 2008. Breytingin hafi verið hægfara en örugg.

Forsendur þess að Fjölnir hefur bætt þjónustuna við deildir félagsins eru ekki síst þær að skrifstofa og starfsfólk eru komin á fast land, ef svo má segja. Skrifstofa Fjölnis hefur verið á svolitlu flakki innan Egilshallar vegna framkvæmda og komst ekki fyrr en haustið 2017 í gott rými. Þar gafst að sögn Guðmundar loksins tækifæri til að bæta þjónustuna við deildirnar og ekki síður við iðkendur innan félagsins. Á skrifstofunni er aðstaða til funda, eldhús og fundaherbergi sem starfsmenn Fjölnis, stjórnendur deilda og þjálfarar geta nýtt sér

 

Meiri samstaða

Að mati Guðmundar fæst betri nýting á húsnæði Fjölnis með því fyrirkomulagi sem nú hefur verið komið á. Sömuleiðis skiptir miklu máli að áherslur skerpast hvað félagsstarfið varðar. Guðmundur segir að þetta fyrirkomulag virki þannig að skrifstofan stýri öllum samskiptum við Reykjavíkurborg, ÍBR, UMFÍ, sérsambönd og aðra stóra hagsmunaaðila í stað þess að hver og ein deild sjái um það sem hana varði. Einnig eru allt almennt skrifstofuhald, umsýsla með æfingagjöld, launamál, fjárumsýsla og önnur þjónusta á einum stað.

„Með þessu móti fáum við betri samfellu í starfið og komum alltaf fram eins og eitt stórt félag í þessum samskiptum með skýra sýn á hvert við stefnum.“

Guðmundur segir það ekki síður skipta máli að starfsfólk deilda Fjölnis geti nú haft samneyti við fleiri starfsmenn en áður. Það bæti ekki aðeins upplýsingastreymi heldur einnig líðan fólks.

„Það er auðvitað algengt að starfsmenn einstakra deilda séu kátir eftir góðan leik eða árangur og vilji gleðjast. En yfirleitt er það svo að þeir sitja einir á skrifstofunni. Nú geta þeir deilt gleðinni með öðrum,” segir hann og bætir við að miðað við reynslu hans henti þetta fyrirkomulag öðrum stórum félögum.

 

Viðtalið við Guðmund birtist í Skinfaxa, tímariti UMFÍ. Blaðið er hægt að nálgast með því að smella á hlekkinn hér að neðan. 

Skinfaxi 1. tbl. 2018