14. júlí 2018

Fjölskyldan keppir öll á Landsmótinu

Eyjólfur og Ingibjörg og dóttir þeirra Ragnheiður skelltu sér saman í 65 kílómetra götuhjólreiðar á Landsmótinu á Sauðárkróki í dag. Þau hafa hjólað saman síðan síðastliðin tvö ár. „Við reynum að fara saman í eina hjólakeppni á ári,“ segir Ragnheiður sem er 27 ára, búsett í Danmörku og nældi sér í annað sæti í götuhjólreiðunum í flokki kvenna 18-29 ára. Faðir hennar lenti í öðru sæti af körlum 60 ára og eldri og var Ingibjörg í þriðja sæti í flokki kvenna í sama aldursflokki.

 

Blanda saman útilegu og íþróttum

Þau hafa notað reiðhjól lengi sem samgöngutæki. Fyrir nokkrum árum skelltu þau sér saman í KIA gullhringinn og ætluðu að gera það á dögunum. Þegar keppninni var frestað vegna gatnaframkvæmda sáu þau að götuhjólreiðar voru ein af keppnisgreinunum á Landsmótinu á Sauðárkróki og ákváðu að skella sér norður.

„Það er frábært að blanda þessu saman, íþróttum og útilegu,“ bætir Eyjólfur við.

Þau Eyjólfur og Ragnheiður kepptu á keppnishjólum en móðirin Ingibjörg skellti sér á fjallahjólinu í keppnina. Ekki vildi betur en svo að á leiðinni á Landsmótið spurði Ragnheiður móður sína að því í hvaða skóm hún ætlaði að keppa. Rann þá upp fyrir henni að hún hafði gleymt hjólaskónum heima. Þetta var ekki vandamál því hún hjólaði alla 65 kílómetrana því á fjallahjóli og í strigaskóm.

„Það er sagt að það sé erfiðara að hjóla þessa vegalengd á fjallahjóli, mun þyngra. Þess vegna eru þessir 65 kílómetrar eins og 80 fyrir mig,“ segir hún kát eftir keppnina.

Tæplega fimmtíu keppendur voru í götuhjólreiðunum sem fóru fram í morgun. Þetta var ein af tæplega 40 mismunandi greinum sem boðið er upp á á Landsmótinu. Sérgreinarstjóri var engin önnur en hjólakonan María Sæmundsdóttir.

 

Um 1.300 á Landsmótinu

Landsmótið hófst á fimmtudag og lýkur því á morgun, sunnudag. Þetta er fyrsta Landsmótið sem Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) heldur með breyttu og nýju sniði. Breytingin felst í því að mótið er opið öllum 18 ára og eldri og þurfa þátttakendur ekki að vera í íþrótta- eða ungmennafélagi. Um 1.300 manns eru skráðir á mótið sem er fyrir 18 ára og eldri.

Hér eru fleiri myndir af Landsmótinu sem teknar voru í dag. 

Enn fleiri myndir eru á Flickr-myndasíðu UMFÍ